Ofbeldi gegn konum er þrálátasta mannréttindabrot heims, samkvæmt nýrri skýrslu frá Amnesty. Ofbeldið er margs konar; konum er nauðgað, þær eru barðar, seldar, brenndar o.fl. En ofbeldið og kúgunin sem konur verða fyrir alls staðar í heiminum er á sumum svæðum útbreidd og viðurkennd siðvenja, jafvel bundið í lög. Mörg múslímsk ríki eru dæmi um þetta.
Auðvitað er mikill munur á þessum löndum, t.d. er gríðarmikill munur á Óman og Jemen hvað þetta og annað varðar. En meginviðhorfið í þessum löndum virðist ganga gegn rétti kvenna. Frá fæðingu finnst þeim þær vera minna virði en karlmennirnir þegar þær bera sig saman við bræður sína og frændur. Þegar strákur fæðist í fjölskylduna er ákaft fagnað og hinni nýbökuðu móður færðar gjafir og heillaóskir. En þegar stúlka fæðist heldur fólk ró sinni og það getur jafnvel verið skömm fyrir móðurina ef hún á ekki strák fyrir.
Þegar börnin eldast verður þeim ljóst að misjafnt hlutskipti þeirra er bundið við kyn. Strákar þurfa ekki að hjálpa til við heimilisstörfin. Fjölskyldan er jafnvel litin hornauga ef heimilinu er þannig háttað. Við 10 ára aldurinn draga margar stelpur sig til hlés. Þá er nefnilega óviðeigandi fyrir þær að leika sér úti. Þegar þær svo byrja á blæðingum fá þær ,,viðurkenningu“. Viðurkenningin felst í slæðu (hijab) sem hylur þær mismikið. Þær lýsa því þannig að með slæðunni verði þær konur – karlmenn byrji að gefa þeim hýrt auga o.s.frv. Eftirleiðis taka þær slæðuna einungis ofan ef enginn karlmaður er nálægt sem ekki tilheyrir nánustu fjölskyldu.
Sumstaðar er slæðan „val” þ.e.a.s. stelpurnar bera slæðuna af öðrum ástæðum en þeim að þær séu beinlínis neyddar til þess með valdi. En þær „velja” slæðuna í samfélagi þar sem slæðan er vernd. Hún verndar konur gegn ásælni karlmanna og nauðgunum. Þeirra er sem sé „valið”.
Nýlega hófu arabískar konur að nota slæðuna sem mótmælatákn. Með þeim mótmæla þær útbreiðslu vestrænna gilda og halda að þær sýni sjálfstæði. Þær um það.
Margir vilja meina að við Vesturlandabúar vitum lítið sem ekkert um arabískar konur og hagi þeirra. Og það sem við vitum sé litað fordómum. Ein af þeim sem heldur þessu sjónarmiði á lofti er Jóhanna Kristjónsdóttir, rithöfundur og ferðalangur. Jóhanna hefur ferðast um Arabalöndin og þekkir þar til, talar líka arabísku. Hún hefur m.a. skrifað bók um arabískar konur, sem heitir einfaldlega Arabíukonur.
Þar viðrar Jóhanna þessar skoðanir sínar, en markmið bókarinnar virðist vera að upplýsa okkur, fáfróða Vesturlandabúa, um raunverulega hagi þessara kvenna. Hún segir okkur draga upp ranga og ófallega mynd af stöðu þeirra og gagnrýnir okkur fyrir sjálfbirgingshátt. Jóhanna segir okkur „álykta út frá okkar reynslu og okkar viðhorfum” (nema hvað). Hún segir okkur einnig að líta í eigin barm með okkar útúrfullu kvennaathvörf, anorexíu og launamisrétti.
Með þessi inngangsorð Jóhönnu í huga er sérstaklega áhugavert að lesa bókina. Jóhanna ferðast til fjögurra Arabalanda og talar við fjölmargar konur, máli sínu til stuðnings. En í raun virkar vitnisburðurinn í þveröfuga átt því að konurnar sem Jóhanna talar við bera þess langflestar merki í tali og framkomu að vera aldar upp við kúgun og í feðraveldi, mismikið þó.
Til þess að styðja við mál mitt, langar mig að vitna í nokkrar konur sem Jóhanna ræddi við. Bókinni er skipt niður á milli þessara landa. Ferðin hefst í Sýrlandi. Þar talar Jóhanna við konu að nafni Asma. „Asma ber aldrei slæðu um hárið og klæðir sig á vestrænan hátt. Samt gætir hún þess að ögra ekki. Hún skilur væntanlega að í þessu samfélagi verður að sýna aðgát”.Það er eins gott að Asma (og Jóhanna) átta sig á því.
Búþeina Sjaaban er vel þekkt sýrlensk kona Hún er mjög vel menntuð og hefur skrifað opinskátt um málefni sem snerta konur og eru talin tabú en vinnur nú í utanríkisráðuneyti Sýrlands. Jóhanna nær tali af henni og Búþeina hneykslast við hana á launamisréttinu sem viðgengst á Íslandi. En síðan segir hún frá viðbrögðum við fæðingu sonar hennar: „Það var borið í mig gull og gersemar. Ótrúlegustu gjafir. Nágrannar og vinir lofuðu guð og þökkuðu fyrir þessa gæfu sem okkur hjónum hefði fallið í skaut.”. Búþeina átti fyrir tvær dætur og reiddist viðbrögðunum. Hún segir einnig frá æskuminningu þar sem bekkjarbróðir hennar drap systur sína með rýtingi til að hreinsa fjölskyldu hennar af smán. Stúlkan var ólétt, en ógift. – Já, það er gott fyrir konur að búa í Sýrlandi.
Í Egyptalandi talar Jóhanna við Rödu Khalid, forsvarsmann egypskra kvennasamtaka. Hún gagnrýnir ungar konur sem rísa gegn kvennabaráttu og nota slæðu og blæju. Hún segir það vera yfirborðslegt og þörf sé á málefnalegum umræðum og hugsun. Þar talar Jóhanna einnig við Safi, sem vinnur hjá American University Press í Kairó. Hún segir m.a.: „Í okkar huga er óhugsandi að hafa kynmök fyrir hjónaband eða að minnsta kosti verður trúlofun að hafa verið staðfest. Ég get ekki fundið í því neina kúgun gagnvart mér eða konum almennt. Jafnvel þó svo að ég viti að maðurinn sem ég hugsanlega giftist hafi prófað slíkt. Við eigum að geyma okkur fyrir manninn sem við giftumst”.
Önnur egypsk stúlka, Fatma, segir: „Já, það er meira um að stúlkur noti höfuðklútinn. Og þessa ömurlegu síðkápu. Ég held að ástæðan sé stundum sú að þær óttast ella að verða fyrir barðinu á islömskum öfgatrúarmönnum” og „stundum eru stúlkubörn drepin við fæðingu. Þær eru hlutir. Illa séðir og óvelkomnir hlutir sem má ráðstafa að vild” og „í augum ýmissa karlmann eru konur ekkert annað en eins konar hlutabréf. Þær eiga að sanna eða staðfesta orðstír fjölskyldunnar”.
Í Óman hittir Jóhanna fyrir Fatimu myrrudrottningu. Fatima selur s.s. myrru. Þær taka tal saman og Fatima bíður henni inn í tjaldið sitt. Hún segir Jóhönnu að hún eigi sjö börn og Jóhanna spyr hana þá hvort maðurinn hennar hjálpi henni ekki við heimilisstörfin. „Að maðurinn minn hjálpi til við heimilisstörfin? Nei, af hverju ætti hann að gera það? Hann hefur sína vinnu”. Jóhanna bendir henni á að hún sé líka útivinnandi, en Fatima svarar um hæl: „Já, það er öðruvísi. Hann er frjálslyndur maður að leyfa mér að vinna hér innan um karlmenn”.
Síðasta landið til umfjöllunar er Jemen. Jóhanna segir frá því í upphafi kaflans að Jemen megi kalla olnbogabarn arabaheimsins; þar sé flest frumstætt og fátækt útbreidd. Það er því ekki að undra að staða kvenna sé hvað verst í Jemen. Í Jemen spyr Jóhanna jemenska konu, Nödu, um kvennaathvörfin þar. „Nei. Við þurfum alls ekki kvennaathvarf. Enda mundu jemenskir karlmenn aldrei líða það. Þeir mundu sækja sínar konur þangað því það kæmi óorði á fjölskylduna ef kona yfirgæfi mann sinn og sakaði hann um barsmíðar” segir hún. Jóhanna talar einnig við Britu sem vinnur á læknastofu. Brita segir henni frá fjórtán ára stúlku sem hafi komið þangað ólétt, komin fjóra mánuði á leið. Hún sagðist ekki vita hver faðirinn væri, en Brita túlkaði það þannig að einhver í fjölskyldunni hefði nauðgað henni. Stelpan sagðist vita að hún ætti fimm mánuði eftir ólifaða því hún ætti ekki pening fyrir fóstureyðingu og faðir hennar þyrfti að drepa hana þegar hann kæmist að þessu.
Mona, sem er kennari, segist ekki getað farið ein út á kvöldin því það væri óviðeigandi. Og þegar Jóhanna spyr hvort hún megi ekki taka mynd af henni sem mundi kannski birtast í íslenskri bók svarar hún: „Ég vil ekki að menn glápi á mig, þá fengi ég orð á mig fyrir að vera léttúðug og það vil ég ekki”.
Við, fordómafullu og fáfróðu Vesturlandabúarnir, sem höfum ekki enn komist í það að ferðast um arabalöndin og spjalla við konurnar þar lesum bækur af þessu tagi og ályktum svo. Við byggjum afstöðu okkar á raunarsögum kúgaðra arabískra kvenna.
Að vísu er af nógu að taka af raunasögum vestrænna kvenna en sá er munurinn að samfélagið í heild og konurnar sjálfar líta ekki á slíka kúgun sem sjálfsagðan hlut eða eðlilegan. Þvert á móti.
Það er einmitt hugsunin og gildin sem búa undir sem skipta máli. T.d. sú hugsun og viðhorf sem viðgengst í arabalöndum að til þess að karlmenn nauðgi ekki þurfi konan að hylja sig frá toppi til táar. Þá er það rangt hjá Jóhönnu að anorexía sé aðeins bundin við Vesturlönd. Það er geðsjúkdómur sem finnst einnig í arabalöndunum.
Og það er auðvelt að benda á útúrfull kvennaathvörf á Vesturlöndum þegar þau eru ekki til í arabalöndum vegna þess að karlmennirnir leyfa það einfaldlega ekki. Og það er víðs vegar illa séð að konur vinni úti í arabalöndunum, hvað þá innan um karlmenn. Það er því erfitt að tala um launamisrétti þar – við hvað á að miða?
Þrálátasta mannréttindabrot heims, ofbeldi gegn konum, viðgengst á Íslandi og Vesturlöndum, sem og annars staðar. Það er ekki að gera lítið úr því að benda á ofbeldi, kúgun og lífsótta sem margar arabískar konur búa við. Jóhanna hefur áhyggjur af því að við Vesturlandabúar séum að færa umhyggju okkar og áhyggjur fyrir konum of langt. Benda má á móti á vestrænar konur sem hafa flust til arabalandanna, sumar hverjar nauðugar viljugar. Það eru til nægar raunarsögur af kúgun og ofbeldi í þeirra garð.
Það er ekki síst vert að minnast á ört stækkandi hóp arabískra innflytjenda í Evrópu, sem margir hverjir taka með sér siði sínar og venjur. Þar virðist siðurinn ofbeldi og kúgun gegn konum ekki vera undanskilinn.
Meðal þeirra sem hafa fjallað um innflytjendamál í Evrópu er hollenski þingmaðurinn Avaan Hirsi Ali, en hún er af sómölskum uppruna. Hún segir múslímakonur í Evrópuríkjum „sæta barsmíðum, kynfæralimlestingum, neyddar í hjónabönd, og foreldrar þeirra fara með þær aftur til upprunalandsins og halda þeim þar nauðugum viljugum“, og „Í sumum tilvikum eru þær jafnvel myrtar.“
Til er stór hópur karla sem sest hefur að í Evrópu sem vill snúa álfunni frá villu síns vegar og konum þar til betri vegar. Varnir okkar hefjast með stuðningi við ofsóttar og kúgaðar systur okkar í löndum araba og hvar sem er annars staðar í minnkandi veröld.
- Besta hátíðin - 9. apríl 2023
- Lýðræðið mun sigra - 2. júlí 2021
- Norræn vídd í varnarsamstarfi - 29. júní 2021