Samfara því að lítil loðna finnst við Ísland er spurningum varpað fram sem kunna að hafa svör við ástandinu. Gjarnan er rætt um flotvörpu sem hugsanlega orsök og keðjuverkandi áhrif sem vissulega bitnar á þorskstofninum, einum af miklvægari fiskistofni Íslendinga. Þessi áhrif skila sér í fæðuskorti mikilvægra bolfisktegunda eins og þorsk, ýsu og ufsa.
Bæði flotvarpa (loðna, síld og kolmuni) og botnvarpa (ýsa, þorskur og ufsi) eru skaðlegar umhverfinu. Flotvarpan breytir göngumynstri loðnunnar og drepur meira en skipin ná að landa. Ef miðað er við 1000 tonna torfu sem dregið var tvisvar í gegnum, komu ekki nema 250 tonn að landi. Þetta dæmi sýnir að flotvarpan skilar ekki nema um 25% af því sem næst í hverju kasti. Hinum 75% spýtir flotvarpan út úr sér í gegn um möskvann sem í raun er of stór fyrir þessar veiðar. (hann er of stór fremst eins og sést á mynd – þar fer loðna og síld út.)
Þeir sem vilja viðhalda notkun flotvörpu segja ef ekki verði notast við hana verði ekki hægt að ná loðnunni á jafn miklu dýpi. Veiðafærið sem kæmi í staðinn yrði nót, en henni er kastað í hring á nokkuð stóru svæði og það sem veiðist kemur allt í skipið. Íslendingar hafa notast við nætur síðan 1904 og hafa þær reynst mjög vel. Meginmunurinn á þessum tveimur veiðafærum er þessi:
Nót er rúmlega aldargamalt veiðafæri og geta hringnætur verið allt að 600 metra langar og 200 metra djúpar. Fyrir utan að fara betur með fiskinn sem veiðist er olíunotkun líka mun minni. Mun minna er sóað af fiski þegar veitt er með hringnót.
*Flotvarpa nær síldinni og loðnunni á meira dýpi en tilkostnaður við olíu er ívið meiri þar sem meira afl þarf til þess að draga flotvörpuna en hringnótina. Augljóslega mengar því notkun flotvörpu mun meira.
Þau rök sem notuð hafa verið fyrir því að nota áfram flotvörpuna eru þau að hún nær þeim fiski sem hringnótin nær ekki til. En þegar eingöngu er verið að ná 500 tonnum í kasti sem skila síðan ekki nema 200 sem fer að landi hver er þá hagnaðurinn? Kosturinn við flotvörpuna er hins vegar sá að mun jafnari hráefnaöflun á sér stað en tilkostnaðurinn er samt meiri enda þarf meiri olíu til þess að draga hana.
Loðnan má við litlu hnjaski og síldin ennþá minna en síldin má varla missa neitt hreistur þá drepst hún. Í raun má segja að viðhöfð séu alger skammtímasjónarmið í þessum málum. Það að leyfa ekki loðnu og síld að þrífast aðeins neðar í hafinu þar sem hringnótin nær ekki til þeirra getur verið slæmt. Fiskurinn þarf að hafa griðastað. Ungviðið og smáloðnan þurfa að vaxa og dafna en með flotvörpu nást ekki þau skilyrði sem þarf.
Norðmenn hafa ekki viljað taka upp veiðar með þessum hætti því þeim er það ljóst hve skaðlegar afleiðingar notkun flotvörpu hefur. Ástandið á þessum tveimur fiskistofnum er mjög bágt og hafa menn sem til þekkja varað við þessari þróun. En menn vilja veiða og græða og viðhöfð eru gríðarleg skammtímasjónarmið með áframhaldandi notkun þessara veiðafæra.
Aðrar ástæður fyrir slæmum loðnuveiðum eru hugsanlega heitari sjór en loðnan er nánast hætt að koma suður fyrir landið. Eina sem leyfilegt er að veiða eru tilraunaveiðar fyrir norðan til þess að athuga stofninn. Í byrjun janúar var farið í viku tilraunaveiðar en ekkert sást og ekkert fékkst.
Hafrannsóknarstofnun verður að hætta að tala í kross. Eina stundina á “fiskurinn að njóta vafans” en hina á “flotvarpan að njóta vafans.” Þeir verja þennan gjörning með ólíkindum og neita að horfast í augu við staðreyndir málsins. Þeir ættu að hefjast handa við að endurskoða flottrollsveiðar, þó ekki væri nema að minnka möskvann til að sporna gegn því að loðnan spýtist út og drepist um leið. Sá galli sem gæti orðið á þeirri aðgerð yrði að trollið yrði minna, vinnan yrði hægari og minna kæmi inn eftir hvert kast. Til að bæta þann vanda yrði einfaldlega tekin upp notkun hringnótar því hún er afkastameiri og myndi sennilega bæta þetta. Öllu er náð og ekkert fer til spillis.
Það er vitað mál að ef að loðnan nær sér ekki mun það bitna á öðrum stofnum og væntanlega mun það hafa áhrif á þjóðarbúið. Hér er því ekki um eitthvað postulín að ræða sem hægt er að redda með lími ef illa fer. Hafrannsóknarstofnun og LÍU þurfa að fara betur yfir málin og gera það upp við sig hvort virkilega sé hagur í að halda úti áframhaldandi flotvörpuveiðum. Skammtímasjónarmið þeirra ganga ekki lengur.
* Flotvarpa eða flottroll eins og það er nefnt í daglegu máli, var fyrst fundin upp í Danmörku, en kom í notkun hér við land upp úr 1950. Það var Breiðfjörðsvarpa sem var mjög lítil miðað við þau flottroll sem nú eru í notkun. Flottroll eru dregin upp í sjó en ekki eftir botninum og því eru þau ólík botntrollum í lögun. Flottroll eru með hlerum sem þenja þau út til hliðana, en miklar þyngdir í fiskilínu sjá til þess að lóðrétt opnun þeirra virki vel. Einnig er oft sett höfuðlínusegl á höfuðlínuna til að lyfta netinu upp og ná þannig meiri lóðréttri opnun á trollinu. Höfuðlínuseglin framkalla hreyfanlega uppdrift sem þýðir að virkni þeirra er háð toghraða eins og hann er hverju sinni. Heimild: www.fss.is
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021