Strætó – enn eitt klúðrið hjá borginni

Undanfarin misseri hefur hið nýja leiðakerfi Strætó verið mikið í umræðunni og sýnist sitt hverjum um þær breytingar sem gengu í garð síðastliðið sumar. Er leiðakerfið virkilega jafn slæmt eins og margir vilja meina eða er það einfaldlega framkvæmd núverandi borgarmeirihluta á jákvæðum breytingum sem er að klikka?

Undanfarin misseri hefur hið nýja leiðakerfi Strætó verið mikið í umræðunni og sýnist sitt hverjum um þær breytingar sem gengu í garð síðastliðið sumar. Margir hópar hafa gagnrýnt kerfið harkalega og svo virðist sem lítið samráð hafi verið haft við hina ýmsu hagsmunahópa sem nýta almenningssamgöngur hvað mest. En er leiðakerfið virkilega jafn slæmt eins og margir vilja meina eða er það einfaldlega framkvæmd núverandi borgarmeirihluta á jákvæðum breytingum sem er að klikka?

Það ætti hverri borg að vera ljóst að mikill ávinningur er af góðu kerfi almenningssamgangna. Meðal ávinnings af góðu samgöngukerfi er minnkun umferðarálags og minna vegslit, fækkun umferðarslysa og minni mengun. Sem dæmi er kostnaður samfélagsins vegna umferðarslysa metinn á hátt á annan tug milljarða svo hagnaður af þessum þáttum er umtalsverður. Ef notkun strætó væri meiri, mætti auk þess leiða líkum að því að hægt væri að fresta framkvæmdum sumra umdeildra umferðarmannvirkja.

Ákvörðun um að þróa nýtt leiðakerfi fyrir Strætó var að mati undirritaðs réttmæt ákvörðun. Markmiðið var að þróa leiðakerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið sem tæki mið af flutningsþörf og kröfum notenda. Fengnir voru sérfræðingar, bæði innlendir og erlendir, til að hanna nýtt leiðakerfi að þörfum borgarinnar. Í þessu ferli virðist hins vegar sem að gleymst hafi í miklum mæli að ræða við mismunandi hagsmunahópa notenda og taka tillit til þeirra ábendinga sem fram komu. Til að mynda hafa eldri borgarar, hreyfihamlaðir og blindir gangrýnt kerfið mikið og hefur aukin fjarlægð á milli stoppistöðva komið sérstaklega illa niður á þessum hópum.

Þó svo að ýmsir hlutir séu gagnrýniverðir eru einnig margir hlutir leiðakerfisins sem eru mjög til bóta. Hið nýja kerfi er talsvert hraðvirkara en fyrirrennari þess auk þess sem margir kjarnar í borginni eru mjög vel tengdir. Einn af þessum vel tengdu kjörnum er Háskóli Íslands. Mjög auðvelt og fljótlegt er að ferðast með Strætó frá flestum svæðum höfuðborgarsvæðisins til Háskóla Íslands. En af hverju taka stúdentar þá ekki við sér og taka strætó í auknum mæli? Jú, vegna þess að alla markvissa kynningu á kerfinu vantaði – jafnvel þó að frumkvæðið kæmi frá stúdentum sjálfum. Á haustmánuðum átti hagsmunanefnd stúdentaráðs í viðræðum við stjórnendur Strætó og bauðst til að standa fyrir kynningarvikum á nýja kerfinu fyrir stúdenta. Þessu frumkvæði var fálega tekið af Björk Vilhelmsdóttur, stjórnarformanni Strætó, sem taldi ekki þörf á slíku samstarfi né aukinni kynningu.

Þarna er einmitt komið að stærsta klúðrinu í innleiðingu nýs leiðakerfis. Nær alla kynningu á nýja kerfinu og markvissa framkvæmd vantaði. Ef miklar breytingar eru gerðar á samgöngukerfi heillar borgar er algjört lykilatriði að kynna borgarbúum breytingarnar vel og ræða við þá um þessar breytingar. Alveg eins og fyrir fyrirtæki er ekki nóg að þróa vöru, það verður einnig að markaðssetja hana. Á þessu virðast núverandi borgaryfirvöld ekki hafa áttað sig á. Afleiðingin er að kynningarmálin og framkvæmdin í heild sinni bera keim af miklum fljótfærnisbrag og niðurstaðan er skýr: aldrei meiri fækkun farþega í strætó og aldrei meira að gera hjá leigubílstjórum.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)