Nóbelsþula

Eitt það fyrsta sem Helgarnestinu var kennt um íslenskar bókmenntir var að Íslendingar ættu eitt skáld sem væri svo heimsfrægt að það hefði hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Þegar helgarnestið stækkaði og vitkaðist ruglaði það Nóbelsverðlaununum iðulega við Óskarsverðlaunin-svo iðulega þurfti að leiðrétta þá missögn að Halldór Laxness hefði fengið Óskarsverðlaunin í bókmenntum-en það er allt önnur og heldur dapurleg saga.

Eitt það fyrsta sem Helgarnestinu var kennt um íslenskar bókmenntir var að Íslendingar ættu eitt skáld sem væri svo heimsfrægt að það hefði hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Þegar helgarnestið stækkaði og vitkaðist ruglaði það Nóbelsverðlaununum iðulega við Óskarsverðlaunin-svo iðulega þurfti að leiðrétta þá missögn að Halldór Laxness hefði fengið Óskarsverðlaunin í bókmenntum-en það er allt önnur og heldur dapurleg saga.

Hálfri öld eftir að Halldór hlaut verðlaunin hefur því verið haldið fram að verðlaun Laxness hafi einungis verið slembilukka-og að sænska Akademían hafi valið hann sem skásta kostinn í stöðunni, en ekki þann besta. Fleygt hefur verið að Gunnar Gunnarsson hafi komið frekar til greina, eða þá að verðlaunum þessum hefði átt að skipta á milli Halldórs og Gunnars. Svona svipað eins og ef Unnur Birna og ungfrú Ítalía hefðu deilt titlinum Ungfrú Heimur á síðasta ári!

Og ekki nóg með það. Frásagnir koma fram sem herma að helstu menningarpostular landsins um miðja öldina hafi sent skeyti þar sem akademían var beðin lengstra orða um að hlífa íslenskri þjóð við því að veita Gunnari Gunnarssyni Nóbelsverðlaunin, enda hafi hann verið vont skáld og nasisti! Og til þess að hámarka þennan hráskinnaleik á haustmánuðum 1955 virðist svo vera að Gunnar Gunnarsson hafi fengið veður af þessu skeyti og efni þess, en þó ekki getað skýrt frá því, þar sem gat ekki brotið trúnað við þann sem skýrði honum frá efninu. Og það allrabesta við þetta plott er að þeir sem áttu að hafa skrifað undir skeytið voru allir góðir vinir og kunningjar Gunnars . Ég meina, hver þarf óvini ef hann á svona góða vini!

Skeytið hins vegar finnst ekki í gögnum akademíunnar og ekkert hefur komið fram um að það sé til eða að það hafi verið sent og þá til hvers það var sent!

Bregðum okkur aðeins á bak Pegasusi og ímyndum okkur að þessi tvö skáld hafi rætt um það hvort þeirra ætti að hljóta Nóbelsverðlaunin:,,

Stofa í Reykjavík síðsumars 1955, persónur og leikendur Laxness skáld og Gunnarsson skáld.

Intrat Laxness

Laxness: Mér hefur borist það til eyrna að þeir í Stokkhólmi ætli að dekórera mig með Nóbelskífu nú í efteråret

Gunnarsson: Ég hef heyrt það líka, en það er ég sem á að fá Nóbelinn!

Laxness: Það getur bara ekki verið. Þú ert rómanisti og pabbi þinn var burgeis og kúlakk. Hefur þú skrifað bók eins og Islandsklockan eða Verdens lys? Þú átt þesi verðlaun ekki skilið þú ert 2. klassa vasabókarrómanisti

Gunnarsson: Ósvífnin í þér, sem kemur varla frá þér óbjagaðri setningu á riti. Ég skrifaði merkilegustu bók aldarinnar Kirken paa bjerget og hana nú!

Laxness: Fuss! Ómerkilegur sveitaóman bara: Ég fæ Nóbelinn!

Gunnarsson: Nei það er ég. Og þýðingar þínar eru ömurlegar

Laxness: Þú ert leigubleistift og ég fæ Nóbelinn! Sko ég

Gunnarsson Nei Ééég.

Hurðarskellur.

Exunt Laxness”

( Úr óbirtum leikþætti Arno Th Scheving Blöndahl, Nóbellinn brennur. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar)

Í sjálfu sér er plottið í þessum frásögnum eins og í bestu spennusögum. Átti Halldór ekki að fá Nóbelinn heldur Gunnar? Voru Ragnar í Smára og Sigurður Nordal gagnnjósnarar Sænsku Akademíunnar? Skrifaði Halldór ekki Íslandsklukkuna heldur Gunnar? Voru þýðingar Halldórs á verkum Gunnars í raun og veru sjálfstæðar skáldsögur? Hvaða lík var í rauða bílnum? Af hverju fékk Halldór Stefgjöld Gunnars? Hvernig tengdist Dauðinn á þriðju hæðinni þessu öllu saman?

Umræður og rannsóknir, brigsl og gagnbrigsl, og æðibunugangur fjölmiðla í málinu sýna okkur að þetta skiptir nákvæmlega engu máli. Nóbelsverðlaunin, gullpeningurinn peningarnir og heiðurinn er eftir sem áður álit nokkurra bókmenntapáfa í Svíþjóð en segja okkur aðallega hvað meirihluti akademíunnar- á hverjum tíma- telur vera góð skáld. Punktur! Umræðuna á að taka af dagskrá enda verða töluð orð ekki tekin aftur og veitt verðlaun varla afturkölluð 50 árum seinna. Bæði skáldin stóðu fyrir sinn hatt, voru lesin og dáð og jafnvel líka hötuð. Það er mest um vert.

Helgarnestið hefur hins vegar lengi verið æft yfir því að sænska akademían hafi gengið fram hjá einhverju mesta skáldi íslenskrar bókmenntasögu, hvers afrek hafa ítrekað verið þögguð niður af bókmenntafólki og skáldum. Er hér átt við stórskáldið Sigurbjörn á Svarfhóli í Dalasýslu, en ein mesta bókmenntaperla sem eftir skáldið liggur er svo hljóðandi:

Geng ég inn í göngin hér

rek ég mig á kvörnina.

Ég er eins og jólatré.

Ég er í hreppsnefndinni.

Höfundur svona vísu á allt gott skilið og Nóbelsverðlaunin líka.

Og hér er komin menningarleg innsetning sem vert er að taka með sér inn í dimma janúarhelgi.

Góða helgi!

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.