Minn John Lennon

Á fimmtudaginn voru liðin 25 ár frá því að John Lennon var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í New York. Með fimm skotum batt morðinginn enda á drauma milljóna manna. Meira segja nokkurra sem áttu eftir að fæðast.

Bítlarnir voru snar þáttur af mínum uppvexti. Þeir voru raunar fyrsta hljómsveitin sem ég „fílaði“. Yfir nokkra ára tímabil safnaði ég að mér tónlist frá Bítlunum á ýmsu formi. Flest var þetta reyndar á ólöglegum sjónræningjakasettum sem keyptar voru í Póllandi skömmu eftir hrunið. Ein kasetta kostaði þá u.þ.b. 10.000 gömul pólsk zloty eða ca. tuttugukall á íslensku verðlagi.

Þegar maður kynnist hljómsveit sem er hætt, er ferlið auðvitað allt annað en þegar um starfandi tónlinstarmenn er að ræða. Tímalínan var auðvitað öll í ruglinu enda plöturnar keyptar í einhverri handahófskenndri röð. Annað sem einkenndi þetta ferli er að maður hlustaði á sömu spóluna viðstöðulaust í vikur eða jafnvel mánuð. Alveg þangað til að maður þekkti hverja einustu gítarinnkomu, hóst eða suð. Svo nokkru seinna þegar löglegu útgáfurnar voru keyptar gat ég auðveldlega komið auga á hluti eins og að sum lög voru aðeins lengri (köttað hafði verið yfir eitt erindi eða feidað út þegar mínúta var eftir í þeim „útgáfum“ sem ég hafði átt).

Já, maður hlustaði á þetta allt. Tónlistarsmekkur manns var fremur ómótaður og maður vissi ekki hvað væri gott eða slæmt, frægt eða gleymt. Ég hlustaði á hina almennt lágt metnu plötu „The Beatles – For Sale“, jafn mikið og allar aðrar. Mér fannst „Eight Days a Week“ bara helvíti fínt lag.

Hold me *klapp klapp*

love me *klapp klapp*

hold me *klapp klapp*

love me *klapp klapp*.

Áhugi á sögu hljómsveitarinnar fylgdi auðvitað í kjölfarið og loks fór ég að skoða söguna um morðið á John Lennon.Ég hafði raunar einhvern veginn alltaf vitað að einn í hljómsveitinni væri dáinn. Minnir að pabbi hafi sagt mér það þegar ég var mjög ungur. Ég man að ég skildi ekki hvers vegna hljómsveit gat ekki komið saman þótt einhver einn væri dauður. Er ekki hægt að finna einhvern annan í staðinn?

Og ég man vel hve reiður ég var, og stundum er enn, manninum sem skaut John Lennon. Ekki bara fyrir að hafa drepið goðið mitt, heldur fyrir að hafa gert dauða Lennons í svona ómerkilegan. John Lennon var ekki skotinn fyrir að vera friðarsinni. Hann var ekki skotinn fyrir að hafa sagst vera stærri en Jesús. Hann var skotinn því annar maður vildi vera frægur. Seinustu orð Johns voru „I’ve been shot“. Fyrstu orð morðingjans eftir drápið voru „I shot John Lennon“. Kannski einkennandi fyrir hve einvíður þessi atburður var. Og eins og allir aðrir Bítlaaðdáendur fannst mér að morðinginn skuldaði mér eitthvað meira, einhverja mystík.

Þannig upplifði ég morðið á John Lennon í fyrsta skipti, sirka tólf árum eftir að það var framið. Ég mann líka þegar ég uppgötvaði að það hafði átt sér stað í desember 1980, tveimur og hálfum mánuði eftir að ég fæddist. Af einhverjum ástæðum fannst mér alveg gríðarleg huggun og léttir að vita að ég hafi verið uppi á sama tíma og hann. Kannski hallærislegt en þannig var það samt. Og ef ég verð einhvern tímann spurður um morðið á forsprakka Bítlanna af tuttugustu-og-fyrstu-aldar-táningi, mun ég stoltur og hrærður segja.

„Ég var mjög ungur þegar þetta gerðist.“

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.