Höfum við gengið til góðs?

Framfarir og þróun er viðkvæðið hjá mörgum spjátrungnum þessa dagana. Internet og veraldarvefur ku hafa bætt lífsgæði margra landsmanna og geimsímar gera fólki kleift að hringja í kunningja sína á ferð og flugi, hvort sem þeir eru á gönguferð á Laugaveginum í Reykjavík eða Laugaveginum upp af Þórsmörk. En á stundum er of langt gengið.

Gamli gosbrunnurinn í Tjörninni …

Framfarir og þróun er viðkvæðið hjá mörgum spjátrungnum þessa dagana. Internet og veraldarvefur ku hafa bætt lífsgæði margra landsmanna og geimsímar gera fólki kleift að hringja í kunningja sína á ferð og flugi, hvort sem þeir eru á gönguferð á Laugaveginum í Reykjavík eða Laugaveginum upp af Þórsmörk. En á stundum er of langt gengið.

Fyrir skemmstu tilkynntu borgaryfirvöld að hátæknin hefði hafið innreið sína um gárur Tjarnarinnar okkar ástsælu. Gosbrunnurinn sem hafði þjónað tilgangi sínum um áraraðir skyldi út og í staðinn skyldi koma nýtt og betra hátækniundur.

Meðal þess sem talið var nýja gosbrunninum til tekna var að hægt væri að ræsa eða stöðva hann með títtnefndum geimsímum (svokallaðir GSM símar). Það er nú aldeilis indælt að hægt sé að hringja í brunninn svo ekki þurfi að bleyta sig. Það var nefnilega þannig með gamla brunninn að til að setja hann í gang þurfti starfsmaður borgarinnar að setja á sig vöðlur og vaða út að honum. Það er ýmislegt á borgarstarfsmenn lagt, en þetta þótti ofraun.

… og sá nýi

Þessi nýi gosbrunnur er einnig þeim kosti gæddur að hann er gerður úr plasti. Syntetísk pólýmerefni virðast heilla borgaryfirvöld og nú þykir ekkert vera nógu fínt nema það sé úr gerviefnum. Kopar, stál eða aðrir málmar þykja víst ekki nógu móðins. Plastinu fylgir reyndar sá ókostur að það þolir ekki frost, svo nauðsynlegt er að taka gosbrunninn upp á hverju hausti. Það er heppilegt að Reykjavíkurborg á eitt par af ónotuðum vöðlum sem væntanlega koma í góðar þarfir við upptökuna.

Síðasti kosturinn við nýja brunninn virðist innblásinn af japönskri framleiðslutækni, míníatúraseringu (miniaturization). Nýi brunnurinn skyldi vera minni en sá gamli og þótti borgaryfirvöldum það alldeilis ágætt. Þessi smæð átti að skila þeim bragarbótum að minna átti að skvettast á borgarana á göngu sinni um nágrenni Tjarnarinnar þegar vorvindarnir leika um bæinn. Það var þó ekki svo gott, því svo virðist sem engu minna skvettist á gangandi vegfarendur þegar blæs á nýja brunninn. Væntanlega er orsökin sú að droparnir úr nýja brunninum eru smærri og því grípur vindurinn þá betur.

En hvað með útlitið? Fegurðin er auðvitað í auga sjáandans, en meðfylgjandi myndir segja meira en mörg orð. Skoðun höfundar er sú að í þessu máli hafi borgaryfirvöld ekki breytt til hins betra, og að plastmaskínan sem nú prýðir einhverja borgargeymsluna mætti missa sín á kostnað gamla góða Tjarnargosbrunnsins.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)