Baráttan um fólkið

Í Markaðinum, viðskiptablaði fréttablaðsins síðastliðinn miðvikudag voru tvær fréttir sem áttu skilið alla athygli manns. Þær fjölluðu annars vegar um ráðningu Actavis á og hins vegar um ráðningu Atlanta á fjármálastjórum. Í báðum tilfellum voru erlendir ríkisborgarar með mikla reynslu af alþjóða viðskiptaheiminum ráðnir.

Það sem var skemmtilegt við þessar fréttir er að þarna eru erlendir menn með mikla reynslu að velja sér Ísland sem starfsstöð. Lengi vel var nær ómögulegt fyrir íslensk fyrirtæki að velja. Þetta virðist vera að breytast.

Ísland á í stöðugri baráttu við erlend lönd um mannauð. Stór hluti íslendinga menntar sig erlendis og er í framhaldinu líklegur til þess að íhuga önnur lönd sem dvalarstað í framhaldinu (rannsóknir hafa sýnt fram á að stór hluti fólks ílengist þar sem það útskrifast úr háskóla)*.

Áskorun framtíðarinnar liggur meðal annars í því að laða til landsins kraftmikið, gáfað og hugmyndaríkt fólk. Miðað við atvinnuleysistölur í landinu þá er þetta reyndar orðið nútímarvandamál. Við þurfum fleira fólk til að vinna, það gæti komið með stórauknum barneignum (tekur þó dálítinn tíma að koma þeim inn í atvinnulífið), eða með því að flytja það inn.

Íslendingar ættu þessvegna að vera að einbeita sér að því að vera flottari kostur fyrir erlent fólk að vinna. Hér skal í stuttu máli stungið upp á þremur atriðum til þess að færa okkur nær þessu atriði.

Í fyrsta lagi þá þurfum við að fá fleiri erlenda nemendur í þær greinar sem við viljum vera í fararbroddi í í framtíðinni. Þessi punktur vísar í það að fólk á það til að ílengjast þar sem það stundar nám. Þetta þýðir fleiri erlenda nemendur í viðskiptanám, hönnunarnám og verk- og tölvunarfræðinám.

Ábati þessarra erlendu nemenda er ýmislegt, við fáum hugmyndir frá öðrum þjóðfélögum, þessir nemendur myndu eyða peningum hér og koma þannig með tekjur í þjóðfélagið, og íslensk fyrirtæki hefðu stærra úrval af væntanlegum starfskröftum (með þekkingu á erlendum mörkuðum).

Annar punktur er að við þurfum að auka aðgengi erlends fólks að samfélaginu. Eins alþjóðlegir og íslendingar reyna stundum að virðast þá er íslenskt þjóðfélag óneytanlega mjög afmarkað innan íslenskunnar. Háskólar þurfa að bjóða mun meira af námsskeiðum á ensku og fyrirtæki þurfa að vera enn óhræddari við að auglýsa eftir starfsfólki á ensku.

Í þriðja lagi þarf að laga þessa vitleysu sem verð og framboð af bjóri er. Þetta er klárlega einn af þeim hlutum sem erlent fólk telur nær algerlega óviðunandi við landið. Flestir íslendingar eru í ofanálag sammála þeim um þetta mál.

Ennfremur má nefna að allar hindranir á aðgengi erlends fólks til Íslands eru af hinu illa (sbr. 24 ára regluna í útlendingalögunum).

Hér hefur einungis verið drepið á örfáum atriðum sem þarf að taka til íhugunar með það í huga að bæta samkeppnisstöðu Islands gagnvart hugviti.

Það þarf meira til en eitt stykki Vatnsmýri.

* dæmi um þetta eru áhrif Háskólans á Akureyri á búsetu ungs fólks í bænum, sjá t.d. Haustskýrslu Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands 2002: Byggðir og Búseta, bls. 171-178

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.