Að taka á því óþekkta



Í kjölfar atburðanna í New Orleans í Bandaríkjunum hafa þjóðir víða um heim vaknað til að minnsta kosti einhverrar meðvitundar um mikilvægi þess að skipuleggja hvernig hægt er að bregðast við svo stórum áföllum, hvort sem þau ber að í kjölfar náttúruhamfara eða hryðjuverka.



Það hefur án efa virkað sem blaut tuska framan í heimsbyggðina að sjá hversu vanmáttugt stórveldi heimsins var gegn náttúruöflunum þegar fellibylurinn Katrín reið yfir og hversu gríðarleg eyðileggingin og röskunin var. Það sem kom enn fremur á óvart var hversu illa bandaríska stjórnkerfið virtist undirbúið til að taka á þessu áfalli. Í kjölfarið hafa fjölmiðlar og almenningur ekki aðeins krafist skýringa á skipulagsleysinu í tengslum við björgunaraðgerðirnar, heldur einnig gert kröfu á að stjórnvöld leggi meiri áherslu á að undirbúa og skipulega viðbrögð við slíkum atburðum.

Það má ljóst vera að það er engan veginn sársaukalaust að reyna að gera sér í hugarlund hversu alvarlegar afleiðingar náttúruhamfarir eða hryðjuverkaárásir geta haft. Þetta snýst ekki einvörðungu um að meta mann- og eignartjón, heldur að kafa dýpra í afleyðingarnar og plana hverja einustu aðgerð að svo miklu marki sem það er hægt. Í tilfelli New Orleans sást glöggt hversu erfitt getur verið að koma fólki til bjargar þegar hefðbundnar samgönguleiðir inn á hamfarasvæði lokast. Bent hefur verið á að þegar “stóri skjálftinn” ríður yfir vesturströnd Bandaríkjann geti nánast allar leiðir inn í Los Angeles lokast, bæði vegir og hafnir. Sama hversu færir þeir eru sem sinna almannavarnarmálum er ljóst að við þannig aðstæðum er erfitt að bregðast án þess að hafa vel skipulagða og æfða áætlun á sínum stað.

Þegar kemur að því að skipuleggja hvernig taka skal á því óþekkta, er oftar en ekki horft í kostnaðinn og kannski ekki að ósekju þar sem þetta er vinna sem krefst mikilla fjármuna. Það er hins vegar með þetta eins og tryggingarnar, það að horfa í fjárútlátin núna getur komið margfallt í bakið á manni síðar meir. Flest lönd standa frammi fyrir því sem kalla má þekkta ógn af einhvers konar náttúruhamförum. Hér á landi snýst umræðan fyrst og fremst um stóran jarðskjálfta og möguleg eldgos. Hins vegar má sú vinna sem hér er verið að ræða ekki einskorðast við líklegasta mengið, heldur verður einnig að taka á því sem ólíklegt er, en mögulegt. Undir þann flokk falla vissulega hryðjuverk.

Undirritaður er á engan hátt sérfræðingur í þessum efnum enda tilgangur pistilsins ekki að reyna að benda á hvernig standa eigi að málum í smáatriðum. Markmiðið er eingöngu að hvetja til þess að við Íslendingar notum þá umræðu sem hefur skapast um þessi mál í kjölfar áðurnefndra atburða, sem og atburðanna í Indlandshafi um jólin síðustu, til þess að ýta úr vör markvissri vinnu á þessu sviði. Nú þegar hefur verið sagt að einhvers konar áætlun sé komin í gang og er það vel. Hins vegar er rétt að benda á að hinn almenni borgari þarf að vera meðvitaður um hvert hans hlutverk er við slíkar aðstæður, hver rétt viðbrögð eru og hvar hans kraftar nýtast best undir slíkum kringumstæðum. Það er því nauðsynlegt að kynna áætlanir sem þessar fyrir borgurunum. Áður fyrr las maður um viðbrögð við eldgosum í símaskránni. Í dag höfum við mun fleiri og markvissari leiðir til að miðla þess háttar upplýsingum til okkar allra.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)