Baráttan um stafrænt dreifikerfi sjónvarps

Á mánudaginn kom athygliverð niðurstaða frá Samkeppnisstofnun varðandi dreifingu á Enska boltanum en samkvæmt henni er Íslenska sjónvarpsfélaginu skylt að afhenda sjónvarpsmerkið til dreifingar á dreifikerfum annarra aðila.

Á mánudaginn kom athygliverð niðurstaða frá Samkeppnisstofnun varðandi dreifingu á Enska boltanum en samkvæmt henni er Íslenska sjónvarpsfélaginu skylt að afhenda sjónvarpsmerkið til dreifingar á dreifikerfum annarra aðila. Samkvæmt þessu hefur Íslenska sjónvarpsfélaginu því verið óheimilt að skylda þá sem hyggjast kaupa Enska boltann að vera í ADSL viðskiptum við Símann. Er þessi niðurstaða í samræmi við óskir neytenda enda óþolandi að vera skyldaður til að kaupa ADSL af Símanum til að geta horft á Enska boltann í sjónvarpinu.

Samkvæmt frétt á www.mbl.is á mánudag virðist Samkeppnisstofnun (þá Samkeppnisráð) í mars á þessu ári hafa úrskurðað að Íslenska sjónvarpsfélaginu væri skylt að afhenda sjónvarpsmerki Enska boltans til dreifingar á öðrum dreifikerfum þó mættu þeir setja það skilyrði að myndlykill frá þeim yrði að vera notaður til 1. júlí 2007. Var þetta gert til að koma í veg fyrir frekari yfirráð Símans á fjarskiptamarkaði með ADSL tengingar.

Það virðist því hafa legið fyrir allan tímann að Íslenska sjónvarpsfélagið mætti ekki skylda þá sem vildu kaupa Enska boltann til að kaupa ADSL þjónustu af Símanum. Samt sem áður setti fyrirtækið það sem skilyrði þegar það hóf að selja aðgang að sjónvarpi um ADSL. Það má því telja nokkuð ljóst að tilgangur Símans með kaupum á Íslenska sjónvarpsfélaginu hafi ekki eingöngu verið til að tryggja sér áhugavert efni til að dreifa um stafrænt sjónvarpskerfi heldur líka að ná til sín enn stærri viðskiptavinahóp í ADSL þjónustu.

Viðbrögð Magnúsar Ragnarssonar sjónvarpsstjóra Íslenska sjónvarpsfélagsins staðfesta þetta enn frekar. Hann segir þessa niðurstöðu Samkeppnisstofnunar á mánudag vera dauðadóm yfir áskriftarsjónvarpi sínu. Sé það rétt má telja líklegt að Íslenska sjónvarpsfélagið hafi verðlagt efnið undir kostnaðarverði og hugmyndin hafi verið að hagnast á annan hátt, ef til vill með stórauknum tekjum í ADSL þjónustu. Það skal nefnilega haft í huga að hver viðskiptavinur sem kaupir Enska boltann mánaðarlega fyrir 1.990 kr. þarf auk þess að greiða 2.500 kr. í línugjald ADSL tengingar auk netáskriftarinnar sjálfrar sem kostar frá um 1.200-1.300 kr. og upp úr. Þó má allt eins telja líklegt miðað við áhugann hér á landi og þrátt fyrir hátt verði á útsendingarrétti enska boltans, að áskriftarstöðin Enski boltinn standi undir sér og vel það.

Það er ljóst að Síminn hefur náð til sín í ADSL viðskipti þó nokkrum fjölda af viðskiptavinum samkeppnisaðilanna og þá mest frá OgVodafone. Hvað þeir eru margir er óvíst en eflaust eru þeir í versta falli nokkur hundruð og mun líklegra að þeir séu nokkur þúsund. Það er því um mikla fjármuni að ræða eða líklega, fyrir utan áskriftina að sjónvarpsefninu, marga tugi, jafnvel hundruðir milljóna á ári. Það er því skiljanlegt að samkeppnisaðilar Símans séu hundfúlir og sé það rétt að Síminn hafi allan tímann hagað viðskiptum andstætt úrskurði Samkeppnisstofnunar þá gæti hann hafa skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart samkeppnisaðilum á ADSL markaði.

Málið er þó ekki svona einfalt því að sér til varnar þá er Íslenska sjónvarpsfélagið í erfiðri stöðu með að byggja upp áskriftarsjónvarp. Stærsti samkeppnisaðili Símans, OgVodafone er nefnilega hluti af 365 ljósvakamiðlum sem er með yfirburðastöðu á markaði fyrir áskriftarsjónvarp á Íslandi. Með breytingu yfir í stafrænar útsendingar á sjónvarpi skapast miklir möguleikar sem voru ekki áður fyrir hendi s.s. stafrænar myndbandsleigur og verslanir í sjónvarpi svo eitthvað sé nefnt. Markaðurinn fyrir dreifingu sjónvarpsefnis er því að breytast mjög mikið og líklegt að mikil verðmæti liggi í því í framtíðinni að hafa gott og tæknilega fullkomið dreifikerfi sem getur nýtt alla helstu kosti stafrænna sjónvarpsútsendinga. Það er því vel skiljanlegt að fyrirtæki sem ætlar sér að komast inn á þann markað gefi ekki helsta samkeppnisaðila sínum, og þeim sem er langstærstur á markaðinum, aðgang að gullgæsinni sinni. Síminn vildi augljóslega koma upp góðu dreifikerfi fyrir stafrænt sjónvarp á sem skemmstum tíma og því var tilvalið að nota vinsældir Enska boltans til þess.

Þetta er því miklu frekar barátta um dreifikerfi stafræns sjónvarps en samkeppni um sölu á ákveðnu sjónvarpsefni. Þessi úrskurður Samkeppnisstofnunar hlýtur að teljast eðlilegur því að Símanum er leyft að einskorða dreifingu Enska boltans við sína myndlykla til 1. júlí 2007. Eftir það er Símanum skylt að afhenda sjónvarpsmerki Enska boltans inn á hvaða myndlykla sem er. Það væri sömuleiðis eðlilegt að þetta skilyrði væri gagnkvæmt og að 365 ljósvakamiðlum væri skylt að afhenda öll sín sjónvarpsmerki inn á myndlykla Símans. Þannig yrði þetta samkeppni milli þessara aðila um það hver byði besta dreifikerfið og neytendur gætu valið efnið óháð dreifikerfi (svo lengi sem tækni stæði ekki í vegi fyrir því) sama hvort það væri frá 365, Símanum eða þriðja aðila s.s. Rúv.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)