Grandi Vogar ei meir

Nýtt leiðarkerfi Strætó var tekið í notkun nýverið. Sitt sýnist hverjum og hefur tækifærið verið óspart nýtt til að sveipa umræðuna heldur pólitísku mistri. Hvað situr eftir þegar því léttir? Er um framför eða afturþróun að ræða?

Nýverið var hleypt af stokkunum nýju leiðarkerfi Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins er um mun samkeppnishæfara kerfi að ræða en hið eldra.

Þrátt fyrir það hefur staðið ákveðinn styrr um hið nýja kerfi. Efasemdir hafa komið fram að hér sé betra kerfi á ferðinni. Einkum er gagnrýnt að nýja kerfið skerði gæði ákveðna minnihlutahópa, einkum aldraðra og sjónskertra, sem ekki hafa sömu tækifæri og aðrir til að komast milli staða.

Fyrir hinn almenna borgara er erfitt að greina í gegn um pólitísku móðuna sem sveipað hefur umræðuna hvort hér sé um að ræða raunverulega framþróun eða jafnvel afturför. Viðbrögð ýmissa notenda hafa vissulega verið neikvæð. Það má vissulega ekki gera lítið úr því. Eflaust eru margir gagnrýnispunktar sem eiga fyllilega rétt á sér. Þó er ekki ólíklegt að hjá mörgum sé neikvæðnin byggð á ákveðinni gremju sem algengt er að brjótist fram þegar breytingar eiga sér stað. Einkum ef mönnum finnast breytingarnar þvingaðar upp á sig. Veikleikinn felst því e.t.v. meira í göllum í breytingastjórnuninni sjálfri en verra leiðarkerfi.

Það er erfitt að meta það öðruvísi en svo að með nýja leiðarkerfinu sé um talsverða og jafnvel mikla framför að ræða í samgöngumálum borgarinnar. Undirbúningur nýja kerfisins var umfangsmikill og vandað til verka. Kannaðar voru ferðavenjur íbúa höfuðborgarsvæðisins og leiðirnar bestaðar með það að markmiði að lágmarka heildarferðatíma sem flestra. Allt gert í nafni aukinnar samkeppnishæfni og með lágmarks kostnaðarauka (sem nam um 4% skv. framkvæmdastjóra Strætó í Kastljósviðtali í síðasta mánuði). Niðurstaðan er ágætlega skilvirkt kerfi sem tekur mikið mið af þörfum markaðarins, bæði í tíma og rúmi. Ef nýja kerfið miðar að raunverulegri þörf betur en hið eldra þá hlýtur það að vera jákvæð þróun. Eða hvað?

Hvernig sem því líður þá er nýtt leiðarkerfi Strætó veruleiki. Hvort kerfið nái tilætluðum árangri, að laða til sín fleiri farþega frá einkabílnum getur tíminn einn leitt í ljós. Skipting milli samgöngumáta í þéttbýli er háð mjög mörgum ólíkum þáttum. Þáttum, sem geta þróast í sína hvora áttina. Þó er ýmislegt sem bendir til að samkeppnishæfni almenningssamgangna batni á næstu árum eða öllu heldur áratugum.

Kröfur um lifandi borgarumhverfi, hágæða borgarumhverfi, borgarumhverfi þekkingarþjóðfélagsins, virðast fara vaxandi. Ef mark er takandi á þeim sem mesta þekkingu og reynslu hafa á sviði skipulagsmála þá eru þetta kröfur sem ekki verður fullnægt nema með þéttari byggð og uppbyggingu á strategískum og vannýttum svæðum innan núverandi marka borgarinnar. Markaðskraftarnir eru þegar farnir að taka við sér og beina kröftum sínum inn á við af áður óþekktum þunga. Samkeppnishæfni fjöldaflutningakerfa á borð við strætó eflist með þéttari byggð.

Að sama skapi er samgöngukerfi sem byggir nær einvörðungu á einkabílnum mjög hætt við að læsa borgina í hlekki umferðarvandamála. Gatnakerfinu er hætt við að drekkja sjálfu sér til lengri tíma litið og merkilega óháð metnaði til að skapa meiri rýmd. Einkabíllinn, þrátt fyrir alla þá ágætu kosti sem hann prýða sem samgöngumáta, getur illa uppfyllt kröfur um hraða og skilvirkni þegar samgönguþörfin er mest á þéttbýlum borgarsvæðum, nefnilega á annatímum árdegis og síðdegis. Sú staðreynd er sennilega hvergi eins greinileg eins og í Bandaríkjunum, en þar hafa umferðarartafir á annatímum á 75 stærstu borgarsvæðunum vaxið að meðaltali um 400% frá 1982 til 2000*. Meðalstór og lítil borgarsvæði eiga einnig við mikinn og vaxandi vanda að stríða. Þetta gerist þrátt fyrir mikla viðleitni til annars og jafnvel lítillar þróunar í átt til aukins þéttleika.

Auk þessa virðist samkeppni um rými nútímaborgarinnar fara vaxandi og auknar kröfur eru gerðar til hagkvæmrar landnýtingar og aukinnar sjálfbærni.

Viljum við borg og ekki síst hágæða borgarumhverfi þá kallar það að öllum líkindum á auknar fjárfestingar í fjöldaflutningakerfi á borð við strætó með það að markmiði að gera þær að raunhæfum valkosti. Aukin fjölbreytni í samgöngumátum og ekki síst bætt samkeppnishæfni þeirra sem best henta í þéttbýli er að öllum líkindum fjárfesting sem skilar sér til lengri tíma litið. Arðurinn til borgarsamfélagsins birtist á margs konar formi sem vonandi eflist á komandi árum. Þróunin hér á suðvesturhorni landsins í sífellt kraftmeira borgarsamfélag á alþjóðlega vísu tryggir vonandi að slíkt eigi sér stað.

Helstu heimildir:

Anthony Downs. Still Stuck in Traffic: Coping with peak-hour traffic congestion. Brookings Institution Press. 2004.

*Texas Transportation Institute. The Urban Mobility Report. College Station. 2002.

Um leiðarkerfi Strætó á heimasíðu VSÓ Ráðgjafar

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.