Plastlandið Ísland

Íslendingar nota debet- og kreditkort í vaxandi mæli. Með þessum nútímalega greiðslumáta er mér óskiljanlegt að kassakvittanir séu ekki á rafrænu formi.

Ég fór til Prag fyrir um tveimur vikum síðan sem er ekki frásögu færandi nema hvað ég átti virkilega erfitt með að venja mig af debetkortinu. Ég gat ekki gengið inn í verslun, bar eða listasafn og straujað kortið eins og ég er vön heldur þurfti ég að reikna út upphæð sem ég ætlaði að eyða fyrir hvern dag og taka hana út úr hraðbanka. Þessu er ég alls óvön enda virðist sem við Íslendingar séum hættir að nota peninga. Veski okkar eru full af debet- og kreditkortum og kassakvittunum þar sem áður fyrr voru tékkhefti og peningar.

Ein af ástæðum þess að við erum hætt að nota peninga er sú að fæstir hafa erindi í banka nú á dögum. Í dag borga menn reikninga sína í heimabanka sem sparar tíma og minnkar pappírsrusl svo ég tali nú ekki um þægindin við það að hafa heimilisbókhaldið allt á einum stað. Þjóðfélagið hefur þróast þannig að gert er ráð fyrir því að allir noti kort. Það kemur vart fyrir að verslanir eða þjónustur taki ekki við kortum. Meira að segja sölumenn sem koma bankandi á dyrnar heima hjá manni eru komnir með ferðaposa sem gerir afsökun mína að eiga ekki pening á lausu að engu.

Ástæðan fyrir ofanskrifuðu rausi er sú að leggja áherslu á hversu mikið við Íslendingar notum debet- og kreditkort. Þrátt fyrir þennan nútímalega greiðslumáta hafa viðskipti þó enn afar hvimleiðan fylgihlut, kassakvittanir. Það er mér óskiljanlegt að í eins tæknivæddu samfélagi og við lifum í að kassakvittanir séu ekki á rafrænu formi. Upphæðir eru nú þegar sendar rafrænt inn í heimabankann. Það eina sem þarf því að útfæra er að sundurliðun hennar fylgi með.

Það er einsdæmi að fólk haldi upp á kassakvittanir. Afgreiðslufólk er jafnvel búið að krumpa miðann saman og henda honum áður en maður hefur nokkuð um það að segja. Það kemur þó fyrir að maður biðji um kvittunina en þó aðeins til þess að þykjast hafa heimilisbókhaldið á kristaltæru. Innst inni veit maður hvar líf hennar mun enda ,óskoðuð í ruslinu.

Það kemur fyrir að fólk sjái eftir kæruleysinu í sjálfum sér að hafa hent kassakvittun. Ef keypt er gölluð eða ónýt vara eru mjög strangar reglur um það að kassakvittun skal fylgja skilaðri vöru. Þá væri afar gott að geta prentað hana út úr heimabankanum.

Rafrænar kassakvittanir eru einnig hentugar fyrir fátæka námsmenn og þá sem vilja skoða neyslumynstur síðustu mánaða eða ára t.d. til að sjá hvar mætti skera niður. Í stað þess að þurfa að grafa upp tugi kvittana væri hægt að skoða þær allar á einum stað í heimabankanum.

Rafrænar kassakvittanir yrði gríðarleg þjónustuaukning. Það virðist þær séu ekki óraunhæfur kostur því tæknin er til staðar samkvæmt heimildavinnu minni. Til eru svokölluð Innkaupakort sem fyrirtækjum bjóðast fyrir starfsmenn sína. Einn af kostum kortsins er sá að ítarupplýsingar fylgja keyptri vöru á sama hátt og kassakvittanir inn í bókhald fyrirtækjanna. Sá aðili sem verslað er við með Innkaupakorti þarf að vísu að vera tæknilega útbúinn til að geta sent þessar ítarupplýsingar. Í dag eru það ekki mörg fyrirtæki. Ástæðan gæti verið vegna stofnkostnaðar við innleiðingu þessarar tækni en á móti kemur gríðarlegur sparnaður í pappírskostnaði sem ekki má vanmeta. Önnur ástæða gæti verið sú að það sé ekki eftirspurn eftir rafrænum kassakvittunum meðal neytenda. En það tel ég þó aðeins vera vegna þess að fólk hefur ekki talið slíkt vera kost. Ef tæknin er til staðar tel ég það vera okkar að biðja um þjónustuna.

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.