Dylgjur um sölu símans

Í vikunni var tilboði Skipta ehf í Símann tekið, upp á tæpa 67 milljarða, sem flestir höfðu talað um að hafi verið mjög gott verð fyrir fyrirtækið. Mitt í allri umræðunni um söluna kemur formaður Samfylkingarinnar fram með dylgjur um að maðkur hafi verið í mysunni.

Í vikunni var tilboði Skipta ehf í Símann tekið, upp á tæpa 67 milljarða, sem flestir höfðu talað um að hafi verið mjög gott verð fyrir fyrirtækið. Mitt í allri umræðunni um söluna kemur formaður Samfylkingarinnar fram með dylgjur um að maðkur hafi verið í mysunni.

Í upphafi ferlisins var það mikið gagnrýnt og talið að einhverjir vildarvinir ættu að fá Símann á góðum kjörum. Nú eftir að salan er um garð gengin er verðið hátt og kaupendurnir engir sérstakir “vildarvinir” er samt reynt að skyggja á söluferlið. Líklega í þeim eina tilgangi að koma höggstað á ríkisstjórnina til að koma í veg fyrir að salan verði jafn glæsileg og hún raunverulega er í hugum fólks.

Það er formaður Samfylkingarinnar sem fer af stað með þessar dylgjur og tekur þar að sér það skrítna hlutverk að vera sjálfskipaður talsmaður hinna hópanna. Hópar sem hafa sjálfir ekki kvartað yfir því að þeir hafi ekki boðið rétt verð í fyrirtækið því þeir hafi ekki verið með réttar upplýsingar. Það er skrítið að það skuli ekkert koma frá þeim fyrst þetta upplýsingaflæði var þarna i gangi.

Spyrja má af hverju þessi gagnrýni kemur fram núna, miðað við upphæðina og flækjustig matsins er ljóst að ekki er mikill munur á milli hæsta og næst hæsta tilboðsins. Allan tímann hefur legið fyrir að Bakkavararbræður ætluðu að vera á meðal bjóðenda og undir lokin ljóst að þeir væru í einum af þremum hópum sem ætluðu að bjóða. Þá heyrðist ekkert. Hins vegar er ljóst að sé ætlunin að finna eitthvað til að gagnrýna er mjög auðvelt að finna það; tengsl við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, tengsl við banka og svo framvegis. Almannatengsla deildir formannsins gátu því verið tilbúnar með útspil, sama hvernig sala Símans færi.

Sala bankanna var mikið gagnrýnd og fékk ríkisstjórnin á sig slæmt orð fyrir söluna, skot á einkavæðingu Símans er því málefni sem er líklegt til að falla í góðan jarðveg hjá kjósendum sem trúa ýmsu upp á ríkisstjórnina þessa dagana. Formaðurinn nýtir því tækifærið og fer af stað með þesssar dylgjur. Upplýsingar um þessi tengsl hafa þó alltaf legið fyrir og því ekkert nýtt í þessu, viðbrögð formannsins hafa því fyrir löngu verið ákveðin sama hver niðurstaðan hefði orðið.

Staðreyndin er sú að mjög gott verð fékkst fyrir Símann, sá aðili sem var tilbúinn að greiða hæsta verðið fyrir Símann fékk hann. Ekkert bendir til að nokkuð óeðlilegt hafi verið í gangi eða óeðlilegum upplýsingum verið komið til ákveðinna aðila. Hafi forstjóri Símans bent kaupendunum á dulin tækifæri, eða hafi þeir ætlað að kaupa forstjórastólinn handa vini sínum, eru það góðar fréttir fyrir þjóðina sem fékk hærra verð fyrir Símann fyrir vikið.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.