Fréttaflutningur rannsóknaniðurstaðna

Fréttaflutningur af rannsóknarniðurstöðum er oft óvandaður, bæði hvað varðar fréttaval og umfjöllun. Þetta er skaðlegt á marga vegu og því er mikilvægt (en því miður ólíklegt) að úr verði bætt.

Fréttaflutningur af rannsóknarniðurstöðum er oft óvandaður, bæði hvað varðar fréttaval og umfjöllun. Sérstaklega á þetta við þegar fjallað er um heilbrigðisrannsóknir. Sagt er frá því að ný rannsókn sýni að hitt eða þetta valdi krabbameini eða hjartasjúkdómum. Um þetta efni hefur áður verið fjallað hérna á Deiglunni í mjög áhugaverðum pistli.

Fréttaval og umfjöllun

Val á umfjöllunarefni byggist oft frekar á því hversu ótrúleg niðurstaða rannsóknarinnar er frekar en vísindalegu gildi eða því hvort rannsóknin sé vönduð og birt í virtu ritrýndu tímariti. Helstu vankantar á umfjölluninni eru venjulega þeir að dregnar eru meiri ályktanir af rannsóknum en grundvöllur er fyrir. Vísindamennirnir sem gera rannsóknirnar draga sjálfir ályktanir í niðurstöðukafla. Sjálfsagt er að ætlast til þess að fréttamenn, sem hafa væntanlega minni þekkingu á efninu en höfundarnir sjálfir, fari varlega í að draga sterkari ályktanir af niðurstöðunni en höfundarnir sjá tilefni til.

[ Innan tölfræðinnar er heil grein sem fjallar um hvernig megi draga ályktanir af sambandi milli stærða. Til dæmis er líklegt að stærra hlutfall en almennt gerist af þeim sem eiga snekkju eigi einnig einkaflugvél. Einnig hefur komið í ljós að stærra hlutfall en almennt gerist af þeim sem reykja fá lungnakrabbamein. Nú eru flestir sammála um það að draga af þessu þá ályktun að reykingar valdi krabbameini en fáum myndi detta í hug að orsakasamhengi væri milli þess að eiga flugvél og eiga snekkju. Trúlegri ályktun væri að þættirnir tveir séu afleiðingar þriðja þáttar, þ.e. nógs aflögu fjármagns auk illa ígrundaðra hugmynda um hvernig best væri að fara með það. ]

Einnig er sjaldgjæft að aðferðum og niðurstöðum rannsókna séu gerð nógu ítarleg skil eða á einhvern hátt fjallað um aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á sama sviði. Slíkt er þó nauðsynlegt svo lesendur geti túlkað niðurstöðurnar á réttan hátt sem aftur er mikilvægt til að fyrirbyggja ranghugmyndir og illa upplýstar ákvarðanir. Til dæmis er talið að oftúlkun á niðurstöðum um hættu af notkun getnaðarvarnarpilla árið 1995 hafi valdið miklum fjölda óvelkominna þungana og í kjölfarið tugum þúsunda fóstureyðinga.

Öflun vísindalegrar þekkingar

Í síðustu viku birtist grein í Blaðinu undir fyrirsögninni “Þriðjungur rannsókna stenst ekki”. Þessi fullyrðing er rökstudd með vísun í nýja rannsókn sem skoðaði niðurstöður eldri rannsókna. Rannsóknirnar sem skoðaðar voru höfðu verið birtar í þekktum læknatímaritum og sýndu fram á jákvæða virkni meðferðar eða lyfs. Í ljós kom að fyrir um þriðjung rannsóknanna höfðu seinni rannsóknir gefið vísbendingar um gangnstæða eða enga verkun umræddrar meðferðar.

Nú er það þannig að þó svo síðari rannsóknir gefi aðrar vísbendingar en þær fyrri er ekki þar með sagt að þær fyrri standist ekki. Ávallt er til staðar ákveðin óvissa. Vísindamenn gera sér grein fyrir því og taka slíkt til greina þegar dregnar eru ályktanir af niðurstöðunni. Þannig getur verið fullkomlega rétt staðið að tveimur rannsóknum á sömu meðferðinni en þær samt gefið vísbendingu um gagnstæð áhrif. En þegar fleiri rannsóknir eru gerðar byggist upp þekking sem bendir til ákveðinnar niðurstöðu og þá má draga sterkari ályktanir.

Þannig er vísindalegrar þekkingar einmitt aflað en á þessu skortir stundum skilning. Komist er að niðurstöðum eins og „reykingar valda krabbameini” með því að skoða fjölda rannsókna sem saman gefa mjög sterkar tölfræðilegar vísbendingar fyrir niðurstöðunni auk þess að taka til greina hversu líklegt sambandið er út frá þekkingu á virkni líkamans.

Pistlahöfundur vonar að fréttamenn leitist við að vanda betur slíkan fréttaflutning enda er ábyrgð þeirra mikil. Ábyrgðin er sérstaklega gagnvart almenningi en einnig gagnvart vísindamönnunum sjálfum og fagfólki í greininni sem ber ábyrgð á að upplýsa almenning. Þannig mætti koma í veg fyrir margar illa upplýstar ákvarðanir, létta aðeins líf vísindamanna og efla tiltrú fólks á vísindum og rannsóknarstarfsemi.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)