Vandamál heimsins

sdfdGore Vidal sagði eitt sinn í fullri hógværð að mögulegt væri að greiða úr öllum heimsins flækjum ef menn færu einfaldlega eftir því sem hann ráðlegði þeim.

Á góðum degi á ylströndinni í Nauthólsvík.

Maður fær eiginlega algeran aumingjahroll þegar maður hlustar á forsvarsmenn vörubílsstjóra standa vígreifa fyrir framan fréttamenn og lýsa því yfir að þeir muni ekki bakka — afsakið, óheppilegt orðalag! — að þeir muni standa við orð sín og loka öllum helstu stofnbrautum út úr Reykjavík um mestu ferðahelgi ársins. Kunnugir segja að fastlega megi búast við því að uppsöfnuð reiði borgarbúa verði slík að annað eins hafi ekki sést síðan Icy-tríóið missti af fyrsta sætinu í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir algeran misskilning og svindl. Og reiðin er réttmæt enda hafa kjánalegri mótmæli sennilega ekki sést í annan tíma — og þá er samt tekið tillit til mótmælanna við Kárahnjúka nýverið sem voru eitt mesta almannatengslaklúður seinni tíma: trúverðugleiki manna er voðalega fljótur að hverfa þegar tæki og tól til fíkniefnaneyslu eru gerð upptæk af lögreglu. Þá er friðurinn eiginlega úti (jafnvel friðarpípan), svo við notumst við orðalag hippanna á Kárahnjúkum.

Það er ljótt að segja það en þeir sem munu loka stofnbrautum borgarinnar í dag vaða einfaldlega í villu og svíma. Fyrir það fyrsta þá gerir maður bara ekki svona – sem í eðli sínu eru kannski ekkert voðalega veigamikil rök — en samt ágæt. Í annan stað þá trúi ég bara ekki að þeir láti verða af þessu og ef þeir láta verða af þessu þá sé ég engan veginn hvernig það muni gagnast málstað þeirra.

En menn í mótmælahug eru nú ekkert að hengja sig í smáatriði. Það myndi bara skemma stemmninguna, eins og einn stemmningsmaðurinn orðaði það um árið. Íslendingar eru nefnileg lélegir mótmælendur, þ.e. að Helga Hóseassyni undanskildum sem kemur sterkur inn af kantinum enn eitt árið.

Svo slær maður alltaf varnagla við ákvarðanir manna ef fyrirmyndin er fengin frá Frakklandi. Enda landlægur plagsiður þar á bæ að stöðva umferð á háannatíma til að vekja athygli á málstað sínum. Sem er reyndar kannski ágætt enda meiri líkur en minni á að meirihluti franskra ökumanna sé undir áhrifum áfengis um hádegisbil — svo skaðinn af umferðaröngþveiti er kannski minni þar í landi en menn ætla…

Og svo eru mótmælin bara ekki nógu spennandi, ekki nógu sexý. Má ég þá heldur biðja um svipuð mótmæli og Femínistafélag Íslands stóð fyrir til að mótmæla þeim ummælum starfsmanns ylstrandarinnar í Nauthólsvík að „þær konur færu jafnan úr að ofan sem síst megi við því“. Félagið lét ekki á sér standa — og hersingin mætti á ylströndina og fór úr að ofan, enda sjálfsögð réttindi þeirra eins og Dáðadrengir bentu réttilega á.

Fyrirhugaðar mótmælaaðgerðir eru eiginlega dálítið eins og lygarapóker. Báðir aðilar segjast ætla að ganga hart fram — en einhvern veginn þykja mér hótanir lögreglunnar mun trúverðugari en vörubílsstjóra. Og allir sem spila póker vita að það getur verið dýrt að blöffa— og niðurlægjandi! — jafnvel þótt svo það sé ójafnt gefið.

Passið ykkur á krókódílamanninum, börnin góð.

Góða verslunarmannahelgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)