Handbók útihátíðarfarans

Þar sem verslunarmannahelgin er á næsta leiti mun tækni- og vísindapistill dagsins fjalla um tæknina við að lifa af góða útihátíð og viðhalda stuðinu alla helgina.

Þar sem verslunarmannahelgin er á næsta leyti mun tækni- og vísindapistill dagsins fjalla um tæknina við að lifa af góða útihátíð og viðhalda stuðinu alla helgina.

Þeir eru eflaust margir sem hyggjast leggja leið sína í Herjólfsdalinn nú um verslunarmannahelgina enda eina alvöru útihátíðin sem verður í gangi. Halló Akureyri (Hadló! Akureyri), Síldarævintýrið á Siglufirði og Neistaflug á Neskaupsstað eru einfaldlega gervihátíðir sem eiga meira skylt við gömlu dansana en stanslaust rokk og ról í þrjá daga. Svo ekki sé talað um Galtalæk eða landsmót ungmennafélaganna en það er ljóst að þeir sem fara þangað þurfa ekki, og ættu ekki, að lesa þennan pistil til enda.

Það er auðvelt að klúðra útihátíðum algjörlega og því er nauðsynlegt að ná góðum tökum á útihátíðatækninni. Það þýðir ekki að hverfa á vit ævintýranna með hálfum hug, maður verður að fórna sér fyrir málstaðinn. Grunnforsenda er að gera sér grein fyrir því og sætta sig við það að herlegheitin kosta peninga – og það ekki litla. Þeir eru nefnilega margir sem hafa ætlað sér að spara aurinn en hafa endað á því að kasta fimmþúsundköllum fyrir Róða, sem um þessa helgi býr í tjörninni í Herjólfsdal.

Grandvaralausi bankastarfsmaðurinn

Dæmi um þetta er ungur bankastarfsmaður sem talaði ekki um annað í tvo mánuði en hversu billega hann kæmist á Þjóðhátíð. Pilturinn hafði sníkt far með vinkonu sinni sem var flugmaður og átti erindi til Vestmannaeyja, hann sníkti gistingu hjá foreldrum kunningja síns og stólaði á gjafmildi samlanda sinna upp á áfengi og mat að gera. Ódýrasta útihátíð ever – eða ekki!

Bankastarfsmaðurinn reiknaði nefnilega ekki með því að samlandar sínir eru ákaflega gjafmildir þegar þeir eru staddir í Herjólfsdal um verslunarmannahelgi. Hann fékk ekki sopa eða tvo heldur frekar vodkapela, einn, tvo eða þrjá. Vitstola af gleði saup hann í sig Þjóðhátíðarstemninguna og steinsofnaði í miðjum brekkusöngnum (eða hér um bil). Pilturinn rankaði svo við sér á mánudagsmorgninum, með bjór í annarri og þynnku í hinni – búinn að týna öllu sem hann kom með. Þar á meðal var forláta GSM sími, sem kostaði tugi þúsunda á sínum tíma, útivistarfatnaður af dýrustu gerð og fleira og fleira. Billega útihátíðin endaði sem sagt í tugþúsunda tjóni, allt vegna þess að hugurinn var ekki rétt stilltur. Þetta leiðir okkur að fyrsta lögmáli útihátíðarfarans:

1. Þú skalt ÁVALLT hafa hugann fastan við útihátíðina ellegar getur stórskaði hlotist af.

Útbúnaður

Næsta vandamál er útbúnaður. Nauðsynlegt er að útihátíðarfarinn gleymi ekki því allra nauðsynlegasta heima. Þar á meðal er greiðslukort, tannbursti, skófla, stuðhattur, veigar og varnir. 10 11 verslanirnar bjóða upp á skemmtilega lausn við þessu vandamáli en hægt er að kaupa einskonar útihátíðarkitt á aðeins 399 kr. “Kittið” inniheldur drykk, súkkulaði, snakkpoka og smokk svo fátt eitt sé nefnt.

Vel búnir Þjóðhátíðargestir

Til að verjast veðri og vindum þarf útihátíðarfarinn líka að taka með sér tjald og svefnpoka, nema hann stóli á það að gista í annarra manni tjaldi allan tímann. Margir hafa reynt þetta en flestir flaskað á því, svo að allur er varinn góður. Tilvalið er að taka með sér einnota tjald og svefnpoka, sem má kveikja í, enda nennir enginn að taka dótið saman á mánudagsmorgninum. Tal tjöldin appelsínugulu eru afar hagkvæm í þessu sambandi. Eflaust má fá slík tjöld á spottprís í Rúmfatalagernum. Auk tjalds og svefnpoka ættu útihátíðarfarar einnig að taka með sér regnslá og kannski eins og eitt par af sokkum. Annað ættu þeir ekki að þurfa nema ófyrirséð vandamál komi upp.

Veigar og neysla þeirra

Flestir útihátíðarfarar leggja mestan metnað sem og kostnað í veigarnar. Hvort sem bjór, vodka, romm eða landi verður fyrir valinu er víst að það er útihátíðarfaranum ákaflega mikilvægt að magnið sé nægjanlegt, ekki yfirdrifið og um fram allt að veigunum verði ekki stolið. Eins og gefur að skilja eru vart regnheld Tal tjöldin ekki sérlega þjófheld. En til er lausn við því vandamáli og spilar skóflan þar stórt hlutverk. Útihátíðarfarinn einfaldlega grefur veigarnar undir tjaldinu. Það er alveg ljóst að fullir Þjóðhátíðargestir munu ekki hafa vit á því að leita undir tjaldinu og þó svo þeir gerðu það er deginum ljósara að þeir nenna ekki að moka.

Eins og kom fyrir bankastarfsmanninn í frásögninni að ofan lenda margir í því að innbyrða allt of mikið af áfengi á allt of skömmum tíma. Lausnin við því er einföld. Drekka hægar og minna. Ágætis þumalputtaregla er að einn bjór eða eitt staup af sterku áfengi, dugar fyrir hvern hálftíma skemmtanahalds. Þetta fer þó að sjálfsögðu eftir stærð og styrk útihátíðarfarans. Ráði menn ekki við að halda sig við þessa reglu geta menn fengið sér skammtara. Skammtarinn kemur yfirleitt í formi kærustu eða kærasta og passar vel upp á það að útihátíðarfarinn fái sér ekki of mikið að drekka. Skammtarinn getur einnig komið í formi vinar, foreldris eða barns, það er þó sjaldgæfara.

Sá galli er á gjöf Njarðar að skammrifinu áfengisdrykkju fylgir böggullinn timburmenn. Sama hversu mikið af Alka-Seltzer, Morning-Fit eða öðrum pillum menn bryðja þá er einfaldasta lausnin sú að byrja að sturta í sig afréttara um leið og menn vakna. Hlandvolgur bjór í morgunsárið ætti að rífa hressilega í og telja heilanum trú um það að þynnkan sé horfinn. Í framhaldinu er líka nauðsynlegt að viðhalda því ástandi með sídrykkju.

Stuðhatturinn

Dæmi um heldur slaka stuðhatta

Mikilvægast af öllu er þó að útihátíðarfarinn gleymi ekki stuðhattinum heima því að annars er voðinn vís. Stuðhattur getur verið allt frá lampaskermi til mótórhjólahjálms, eða hvað það höfuðfat sem heldur stuðinu í mannskapnum. Dæmi um mjög góða stuðhatta eru hárkolluhattar og stórir litaðir barðhattar úr hertu Jakuxaleðri. Það er allavega ljóst að góður stuðhattur kemur sér alltaf vel og tryggir hámarksskemmtun útihátíðarfarans.

Hér eru menn með mun betri stuðhatta

Af ofangreindu ætti að vera ljóst að það er vandasamt verk að fara á útihátíð. Að mörgu þarf að hyggja og mikilvægt að ekkert gleymist heima. Dæmi eru um að menn hafi eyðilagt fyrir sér verslunarmannahelgina með því að gleyma veigum eða stuðhattinum heima. Um fram allt skal þó ganga hægt um gleðinnar dyr og fara varlega. Hætturnar leynast víða. Góða skemmtun!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)