Af hverju eru ungviði svona sæt?

Þegar ég sé lítil börn þá verð ég alveg veik. Sumarið hefur verið mér sérstaklega erfitt þar sem ég vinn á leikskóla.



Þegar ég sé lítil börn þá verð ég alveg veik. Sumarið hefur verið mér sérstaklega erfitt þar sem ég vinn á leikskóla. Á hverjum degi langar mig að pakka börnunum saman og taka þau með mér heim. Ég er jafn veik fyrir litlum kettlingum og hvolpum eða í raun flestum ungum spendýrum. Það er eitthvað í fari ungviða sem gerir mig alveg berskjaldaða. Gæti það verið löngun í að hugsa um einhvern þurfandi?

Ef við ímyndum okkur sólskin bjartan dag í Hljómskálagarðinum þar sem leikskólabörn eru að leik og gamalt fólk með alzheimer situr á bekk og nýtur góða veðursins. Í gegnum garðinn geng ég og hugsa eins og ávallt, það væri nú æðislegt að eiga eitt svona kríli. Af hverju bregst ég ekki eins við alzheimer sjúklingunum sem að mörgu leyti þurfa sömu umönnun og börnin? Ástæðan gæti tengst því að börn hafi útlit og aðdráttarafl sem kallar á væntumþykju. Þau hafa stórt höfuð og stutta útlimi miðað við búk, lítið nef og stór kringlótt augu sem undirstrika sakleysi þeirra. Það mætti lýsa börnum einfaldlega með orðinu sæt.

Í þróunarsálfræði (e. evolutionary psychology) eru uppi kenningar um hvers vegna börn eru sæt í augum fullorðinna. Ungviði mannsins eru hjálparvana og geta ekki lifað án umönnunar fyrstu árin sín. Þau eru háð öðrum t.d. varðandi fæðuöflun og flutning á milli staða. Kennimenn halda því fram að útlitseinkenni barna séu til þess að auka líkurnar á því að hugsað verði sómasamlega um þau. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir manninn sem þarf langan tíma til að þroskast og ná félagshæfni. Ungviði spendýra sem svipa til barna orsaka sömu viðbrögð hjá manninum. Flestir vilja t.d. heldur taka að sér lítinn hvolp í stað fullvaxta hunds.

Getur verið að við séum líffræðilega forrituð til að bregðast við líkamlegum einkennum ungviða með ást og umhyggju?

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.