Ólið hundana hið snarasta

Í 14 gr. sammþykktar um hundahald er skýrt kveðið á um taumskyldu hunda. Því miður eru allt of margir reykvískir hundaeigendur óþolandi kærulausir og valda meðborgurum sínum óþægindum og raska ró þeirra en skv. 13 gr. sömu samþykktar skal leyfishafi gæta þess vel að slíkt gerist ekki. Það er brýnt að gripið sé til aðgerða til að stemma stigu við brotum af þessu tagi

Af inngangi þessarar greinar gæti einhver haldið að undirrituð sé einfaldlega ekki dýravinur en það er fjarri lagi. Hins vegar lenti ég í reynslu fyrr í vetur sem veldur því að ég fylgist nú nánar með lausum hundum en áður af hræðslu. Ég var þá í göngutúr ofarlega á Lynghaga í vesturbæ Reykjavíkur þegar hundspott kemur aftan að mér og stekkur upp á aftanverð lærin. Ég átti nokkurra daga gamla dóttur og hafði verið ráðlegt vegna mikils blóðmissis að hressa mig við með göngutúrum, það var í þessu tilviki mistök. Ég var annars hugar og sneri mér því mjög snöggt við þegar ég fann högg á lærunum. Þetta olli því að ég tognaði í bakinu og gat nánast ekki gengið í 3 vikur sem var mjög slæmt þar sem ég þurfti að ganga, haltra, um gólf með barnið vegna magakveisu. Ekki vissi ég hver hundaeigandinn var þannig að ekkert gat ég gert til að koma í veg fyrir að hundurinn flaðraði upp um fleiri meðborgara.

Ég fylgist nú í göngutúrum með barnavagninn náið með lausum hundum í Reykjavík og eru þeir allt of margir. Það er á furðulegustu stöðum sem maður rekst á lausa hunda, nú síðast í gær gekk ég til dæmis fram á einn á göngustígnum meðfram sjónum í Skerjafirði. Ég hef það á tilfinningunni að hundaeigendur haldi að það geti enginn hræðst þeirra góðlátlega hund sem engum gerir mein, en málið er að þekki maður ekki hundinn veit maður ekki hversu góður eða óður hann er. Aðrir reykvíkingar eiga ekki að þurfa að komast að góðmennsku hunda vilji þeir það ekki.

Þótt ótrúlegt megi virðast er ég talsvert minna hrædd við lausa hunda í Evrópu en þar eru þó talsvert meiri líkur á að hundur með hundaæði bíti mann. Hundarnir þar virðast einhvern veginn miklu betur tamdir og afslappaðir og þurfa ekki sífellt að vera að flaðra upp um mann eins og margir íslenskir, lausir og forvitnir, hundar. Kannski eru íslenskir hundar illa tamdir en ég hugsa þó í hvert einasta skipti sem ég sé ærslafullan hund að hann myndi njóta sín miklu betur í sveitinni en tjóðraður í Reykjavík.

Ég vona að þessi pistill geti orðið áminning til einhverra hundaeigenda um að passa betur upp á dýrin sín og jafnframt hvet ég borgaryfirvöld til að taka á brotum á samþykktum um hundahald í Reykjavík en einnig mætti setja strangari reglur um kattahald en það er efni í annan pistil

Hundaeigendum er bent á eftirfarandi slóð þar sem finna má Samþykkt um hundahald í Reykjavík: http://stjornartidindi.is/servlet/stjrtid/B/2002/52.pdf

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.