Stefna í stað stofnunar

Hlutverk hins opinbera í útvarpsrekstri er jafn óþarft og skaðlegt og í öðrum atvinnurekstri. Frjálst útvarp á Íslandi fagnaði nýverið 20 ára afmæli sínu. Löngu tímabært er að leysa útvarpsrekstur á Íslandi endanlega úr viðjum hins opinbera.

Um þessar mundir eru tuttugu ár liðin frá því að einokun hins opinbera í útvarpsrekstri var afnumin með lögum. Þann 13. júní árið 1985 samþykkti Alþingi frumvarp þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildar Helgadóttur, til nýrra útvarpslaga. Lög þessi fólu í sér þá grundvallarbreytingu að fleirum en Ríkisútvarpinu var heimilt að útvarp, þó að að fengnu leyfi útvarpsréttarnefndar þar að lútandi.

Ragnhildur Helgadóttir lét svo ummælt er hún fylgdi frumvarpinu úr hlaði úr ræðustól Alþingis þann 17. október 1984:

Ég held, herra forseti, að okkur sé þeim mun meiri nauðsyn á því að létta þessum einkarétti af, sem við erum all afskekkt þjóð. Þótt samgöngur séu í góðu lagi, þá höfum við e.t.v. af þessu öllu meiri þörf fyrir það en margar aðrar þjóðir að vera vakandi um strauma, stefnur, fréttir og menningu annars staðar frá á sama tíma og við stöndum vörð um þjóðlega menningu okkar.

Frumvarp Ragnhildar Helgadóttur mætti talsverðri andstöðu í þinginu, einkum frá þingflokki Alþýðubandalagsins, þar sem Hjörleifur Guttormsson fór fremstur flokki. Hugmyndir Alþýðubandalagsmanna gengu út á að útvöld félagasamtök fengju að útvarpa á dreifikerfi Ríkisútvarpsins en fyrirtækjum sem hyggðust reka útvarp í ágóðaskyni yrði ekki veitt leyfi til útvarpsreksturs. Sagði Hjörleifur um þetta í ræðu þann 17. október 1984:

Þetta er grundvallaratriði sem sker úr um það hvort menn meina eitthvað með raunverulegu frelsi og dreifðu frumkvæði í sambandi við víkkun á heimildum til útvarps eða hvort menn eru hér að opna fyrir frelsi fjármagnsins en ekki frelsi fjöldans til fjölmiðlunar.

Það er nokkuð kaldhæðnislegt að svipuð rök heyrðust frá stuðningsmönnum svokallaðra fjölmiðlalaga sem mikið fár var út af í fyrrasumar.

En þrátt fyrir talverða andstöðu var frumvarp Ragnhildar Helgadóttur samþykkt með sextán atkvæðum gegn þrettán í neðri deild þingsins og með þrettán átkvæðum gegn fimm í þeirri efri.

Þar með hófst saga frjáls útvarps á Íslandi – fyrir aðeins tuttugu árum.

Óhætt er að fullyrða að gífurlegar breytingar hafa orðið á íslenskri fjölmiðlun á þessum tuttugu árum. Framan af var hin frjálsa fjölmiðlun á öldum ljósvakans óburðug og átti við mikla rekstrarerfiðleika að etja. Kom þar einkum til yfirburðastaða Ríkisútvarpsins sem starfaði (og starfar enn) í skjóli nauðungargjalda, auk tekna af auglýsingasölu. Á síðustu árum hafa einkareknu ljósvakarnir heldur styrkt sína stöðu og eru nú starfræktar fjölmargar sjónvarps- og útvarpsstöðvar.

Það var tímamótaskref í frjálsræðisátt í sögu útvarps á Íslandi sem stigið var 13. júní 1985. Því miður hafa skrefin síðan ekki orðið ýkja mörg. Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið með yfirstjórn útvarpsmála samfellt síðan 1991 hefur ekki orðið áframhald á þeirri viðleitni sem Ragnhildur Helgadóttir og fleiri sjálfstæðismenn sýndu í verki fyrir tuttugu árum.

Ríkisúvarpið er enn fyrirferðamikið í útvarpsrekstri og hafa umsvif þess vaxið fremur en minnkað á þessu tímabili. Ríkisvaldið innheimtir enn nauðungargjöld af öllum eigendum viðtækja á sama tíma og það á í samkeppni við einkaaðila um tekjur af auglýsingum. Þar við bætast regluleg framlög úr ríkissjóð til að leiðrétta hallarekstur RÚV, útgjöld sem skipta milljörðum á þessu tímabili.

Og það sem verra er, Sjálfstæðisflokkurinn virðist nú orðinn staðráðinn í því að viðhalda Ríkisútvarpinu og efla það stórlega sem stofnun. Allar fyrirætlanir um að koma rekstri þess að hluta til eða í heild í hendur einkaaðila virðast gufaðar upp.

Í ofangreindri ræðu vitnaði Hjörleifur Guttormsson í ályktun flokksráðsfunds Alþýðubandalagsins frá 1982 um hlutverk og stöðu Ríkisútvarpsins:

„Flokksráðsfundurinn leggur ríka áherslu á ómetanlegt hlutverk Ríkisútvarpsins til að viðhalda og efla íslenska menningu. Ríkisútvarpið er og verður áfram sameiningarafl í þjóðfélaginu, frjáls fjölmiðill, opinn öllum landsmönnum. Ekkert má gera sem teflir þessu hlutverki Ríkisútvarpsins í hættu.“

Þetta er óhugnanlega líkt ýmsu því sem sjálfstæðismenn hafa látið hafa eftir sér um Ríkisútvarpið síðustu misseri.

Það er auðvitað til skammar að ríkisrekstur útvarps skuli hafa eflst undir forystu Sjálfstæðisflokksins á „áratug frelsisins“, þ.e. frá 1991. Að hluta til er hægt skella skuldinni á samstarfsflokka hans í ríkisstjórn á þessu tímabili. Sú skýring hrekkur hins vegar skammt því einokun á útvarpsrekstri var aflétt í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fyrir tuttugu og það er hæpið að halda því fram að framsóknarmenn hafi verið frjálslyndari í þá daga en þeir eru nú.

Mun líklegri skýring er að um sé ræða skort á vilja til að ganga í verkið. Sú skoðun er nokkuð útbreidd meðal sjálfstæðismanna að ríkisútvarpið hafi menningarlegu hlutverki að gegna og að einhverju leyti sé það öryggistæki. Þótt sá sem þetta skrifar geti ekki með nokkru móti tekið undir þetta, þá er hægt að mæta þessum sjónarmiðum án þess að ríkið sjálft standi í útvarpsrekstri.

Það er engin ástæða fyrir ríkið að eiga hús og tæki og vera með hundruð manna í fullu starfi við að reka útvarp, til þess eins að viðhalda menningarlegri fjölbreytni, eins og gjarnan er sagt. Þessum hæpnu markmiðum er nefnilega hægt að ná með því að ríkið bjóði reksturinn út til einkaaðila.

Þetta felur það í sér að ríkisútvarpið, þ.e. húsnæði og tækjabúnaður, ásamt dreifikerfi, yrði seldur einkaaðilum. Ríkið myndi síðan bjóða út þá þjónustu sem lyðræðislega kjörnir fulltrúar teldu nauðsynlegt að fjölmiðlar sinntu, t.a.m. innlendri dagskrárgerð. Einkaaðilar myndu þá veita almenningi þá þjónustu gegn greiðslu úr ríkissjóði sem næmi þeirri upphæð sem nú er varið til reksturs RÚV. Grundvallarbreytingin er sú að útvarpsreksturinn sjálfur færðist frá ríkinu til einkaaðila.

Ríkisútvarpið yrði þannig stefna en ekki stofnun.*

Auðvitað er það svo, að hið eina rétta í stöðunni væri að selja Ríkisútvarpið og allt sem því tengist. Þar með yrði leyst úr hinu eilífa deilumáli um sjálfstæði Ríkisútvarpsins, en ýmsir ganga með þá firru í höfðinu að stofnun sem rekin er fyrir almannafé geti haft sjálfstæða tilveru án þess að fulltrúar almennings og skattgreiðenda hafi nokkuð um það segja.

Ekki yrði alveg komið í veg fyrir þessi vandamál með þeirri leið sem bent er á hér að ofan, en með málefnalegum og gagnsæjum útboðsreglum mætti tryggja að vilji lýðræðislega kjörinna fulltrúa til að „standa vörð um íslenska menningu“ og „öryggi landsins“ með áherslum í útvarpi næði fram að ganga.

Fyrir dyrum stendur skipun útvarpsstjóra og ef að líkum lætur mun þjóðfélagið fara á hvolf í nokkrar vikur þegar menntamálaráðherra kunngerir ákvörðun sína. Hún verður væntanlega sökuð um „að hygla flokksgæðingum“ og halda RÚV í „pólitískri gíslingu“, eins og gjarnan er sagt þegar yfirmenn stofnunar fylgja þeim lögum sem gilda um hana.

Menn ættu á sama tíma að minnast þess að pólitískar ráðningar eiga sér ekki stað í einkareknum fyrirtækjum. Skyldu pólitískar ráðningar og önnur „afskipti“ af Ríkisútvarpinu kannski hafa eitthvað að gera með það að um er að ræða ríkisrekna stofnun?

Í stað þess að einblína á að standa vörð um og efla Ríkisútvarpið, ættu íslenskir stjórnmálamenn, og aðrir sem telja sig málið varða, að einhenda sér í að efla og styrkja íslenska fjölmiða. Það verður ekki gert með ríkisrekstri og pólitískum afskiptum, heldur með því að leyfa kostum hins frjálsa markaðar að njóta sín, hvort heldur sem er með einkavæðingu eða einkarekstri RÚV.

Tuttugu ár eru liðin frá því að frelsið hóf innreið sína í íslensku útvarpi. Er ekki orðið tímabært að fylgja eftir frumkvæði Ragnhildar Helgadóttur og leysa ljósvakana endanlega úr viðjum hins opinbera?

* Sjá: Ríkisútvarpið hf.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.