Ekkert um ekki neitt

sdfdMark Twain bað menn eitt sinn að gera sér í hugalund að þeir væru asnar. Síðar bað hann menn að ímynda sér að þeir væru þingmenn. Að því loknu baðst hann afsökunar á að hafa endurtekið sig.

Að rétta upp hönd eða ekki – þar liggur efinn…

Pistlahöfundur hefur lengi verið þeirrar skoðunar að möguleiki sé að skrifa pistil í miklum flýti sem fjallar um nákvæmlega ekki neitt. Slíkt væri ekki í fyrsta sinn í sögu Deiglunnar sem þeirri nálgun væri beitt til að fylla upp í eins og eitt helgarnesti enda kemur það jafnan fyrir á sólríkum sumardögum að einhver gleymir að skila inn helgarnesti og þá er eins gott að vera snöggur til að skella inn eins og einum pistli – jafnvel þótt svo hann fjalli kannski ekki um nokkurn skapaðan hlut. Eðli máls samkvæmt getur slíkur pistill verið misvandaður enda venja að pistlar fylgi einhverjum þræði þ.a. lesendur fái það ekki á tilfinninguna að þeir séu að lesa eitthvert innihaldslaust þrugl. Pistlahöfundur hefur áður reynt að skrifa pistil sem fjallar ekki um neitt, en þegar grannt er skoðað heldur sú fullyrðing tæplegast vatni – enda fjallaði sá pistill um að hann fjallaði ekki um neitt.

Reyni einhver að skrifa pistil um ekki neitt er fyrsta gildran sem menn verða að forðast sú að fara ekki að skrifa um að þeir séu ekki að skrifa um neitt. Því ef þeir eru ekki að skrifa um neitt er fátt glataðra en að skrifa í raun um að þeir séu að skrifa um ekki neitt.

Annað útilokar því hitt.

Þetta er algeng rökvilla sem fáir átta sig á. Þannig hafa flestir sagst vera að gera ekki neitt þegar einhver ynnir þá eftir því hvað þeir séu að gera. Slíkt getur auðvitað ekki staðist: Ef þú ert ekki að gera neitt – þá ertu nefnilega að gera eitthvað. Hvað?

Jú, ekki neitt – en samt eitthvað.

Þetta hefur í för með sér djúpar heimspekilegar pælingar sem erfitt er að henda reiður á. En reynum samt svona rétt til að sýna lit á þessum dýrðardegi. Það verður nefnilega ekki bæði haldið og sleppt. Og jafnvel þótt svo annað geti auðveldlega útilokað hitt er ekki þar með sagt að hitt geti útilokað annað. Þetta sjá auðvitað allir sem sjá vilja.

En eftir situr auðvitað merkileg spurning sem lesendur neyðast hreinlega til að taka með sér inni í þessa sólríku helgi. Ef menn gera ekki neitt – gera þeir þá eitthvað – þar sem verknaður hlýtur að felast í því að gera ekki neitt?

En talandi um margfaldar neitanir og sólskin. Fyrrverandi ónafngreindur menntaskólaþýskukennari pistlahöfundar sagði eftirfarandi við bekkjarfélaga mína þegar þeir sóttust eftir sólarfríi á sólríkum vordegi: „Allir þeir sem vilja ekki, ekki að við förum ekki út í sólina rétti alls ekki upp hönd“.

Bekkjarfélagar mínir sátu allan tímann.

Góða helgi, börnin góð.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)