Taekwondo

Taekwondo er kóresk bardaga- og sjálfsvarnaríþrótt sem er þróuð frá gamalli hernaðarlist Kóreumanna. Íþróttin hefur náð töluverðri útbreiðslu víða um heim.

Taekwondo er kóresk bardaga- og sjálfsvarnaríþrótt. Hún er þróuð frá gamalli hernaðarlist Kóreumanna og byggist fyrst og fremst á sjálfsvörn þar sem fæturnir spila aðalhlutverkið. Taekwondo skiptist í tvo meginhluta: Poomse og Sparring. Poomse er sú hlið Taekwondo þar sem einn aðili framkvæmir tæknilegu hlið hennar. Sparring er aftur á móti sjálf bardagahliðin þar sem tveir eða fleiri aðilar koma saman og berjast.

Á þessari öld hefur margt gerst í þróun og útbreiðslu Taekwondo í heiminn. Kórea var hernumin af Japönum frá 1910 til 1945. Japanir bönnuðu Kóreumönnum að iðka Taekwondo sem þeir æfðu þó í leyni. Kóreustríðið braust út árið 1950 og síðan hefur Norður-Kórea einangrast smátt og smátt. Það er líklegt að önnur lönd sem voru undir stjórn kommúnista hafi átt í menningarsamskiptum við Norður-Kóreu og þar með kann Taekwondo að hafa breiðst út í viðkomandi löndum. Það Taekwondo sem vestrænar þjóðir iðka í dag er ættað frá suður hluta skagans. Bardagalistin var útnefnd þjóðaríþrótt árið 1971.

Taekwondo kom til Evrópu á seinni hluta sjöunda áratugsins. Danir kynntust Taekwondo árið 1968 og var 6. Heimsmeistaramótið í Taekwondo haldið í Kaupmannahöfn árið 1983 en áður hafði það einungis verið haldið í Kóreu. Þegar Taekwondo varð aðili að Alþjóðlegu Ólympíunefndinni árið 1981 var það stórt skref í þá átt að viðurkenna Taekwondo í heiminum. Ólympíuleikarnir voru haldnir í Seoul árið 1988 og Taekwondo var þá sýningaríþrótt.

Taekwondo var viðurkennd af Alþjóðlega Ólympíuráðinu og var sýningaríþrótt á leikunum 1988 og 1992. Taekwondo var síðan í fyrsta skipti með sem opinber keppnisíþrótt á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. The World Taekwondo Federation eru alþjóðleg Taekwondo-sambönd.

Taekwondo kom til Íslands árið 1974 og síðan þá hafa verið stofnuð um 10 félög víðsvegar um landið. Öll íslensku Taekwondofélögin eru í WTF. Sá Íslendingur sem hefur náð einna lengst í Taekwondo er Björn Þorleifsson en hann hefur m.a. orðið Norðurlandameistari bæði í unglingaflokki og fullorðinsflokki, unnið til gullverðlauna á smáþjóðaleikunum og unnið fjölda alþjóðlegra móta haldin í Bandaríkjunum, Norður Ameríku. Björn hefur einnig náð mjög góðum árangri á heimsmeistaramótum.

Heimildir: www.taekwondo.is og www.barrel.net

Latest posts by Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir (see all)