Oft en óvíðar

Brátt tekur gildi nýtt leiðakerfi Strætó tekur gildi 23. júlí næstkomandi. Um gjörbyltingu er að ræða og kannski ekki vanþörf á eins og nýtingin á kerfinu hefur verið. En er almenningssamgöngum í hinni gisnu Reykjavík yfirhöfuð viðbjargandi?

Brátt tekur gildi nýtt leiðakerfi Strætó tekur gildi 23. júlí næstkomandi. Um gjörbyltingu er að ræða og kannski ekki vanþörf á eins og nýtingin á kerfinu hefur verið. En almenningssamgöngum í hinni gisnu Reykjavík yfirhöfuð viðbjargandi?

Í stuttu máli er um ákveðna grundvallarbreytingu á hugmyndarfræðinni að ræða. Netið sjálft verður í raun gisnara, en miðað er að því að auka til muna ferðatíðni eftir stofnbrautum eins og Miklubraut. Á háannatímum eiga farþegar á leið frá Kringlunni niður í bæ aldrei að þurfa að bíða lengur en 2-3 mínútur eftir næsta vagni.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessar breytingar munu leggjast í borgarbúa, eða öllu heldur það brotabrot þeirra sem yfirleitt afskrifar ekki almenningsamgöngur sem ferðakost. Óneitanlega er hættan sú að þeir sem missa strætóinn sem eitt sinn stoppaði fyrir framan heimilsdyrnar munu endanlega gefast upp, á meðan aðrir munu kannski ekki selja Lexusinn eða Toyotuna þrátt fyrir að strætósamgöngur í þeirra hverfi hafi aukist. Mikill hluti Íslendinga er nefnilega gríðarlega strætófælinn, hver svo sem ástæðan fyrir því er.

En í allri umræðunni um almenningssamgöngur á Íslandi, sem oftast er neikvæð enda stýrt af fólki sem heyrt hefur um strætóferðir af frásögnum annarra er kannski við hæfi að segja nokkur orð til varnar þeim sem sjá um að halda þeim uppi. Í fyrsta lagi er strætókerfið í Reykjavík ekki „ótrúlega lélegt“. Það er raunar furðugott miðað við hve dreifð byggðin er og þar af leiðandi farþegarnir fáir. Sá sem þetta skrifar notaði þetta kerfi í fjöldamörg ár og átti sjaldnast í vandræðum með að vera mættur á réttum tíma, öfugt við marga bíleigendur í kunningjahópnum.

Sömuleiðis er kerfið síður en svo dýrt. Rauða kortið sem gildir í 3 mánuði kostar litlar 10.500 kr. sem þýðir að samgöngukostnaður einstaklings er um 40. þús kr. árlega sem er margfalt ódýrara en bílrekstur og talsvert ódýrari en fyrir notkun almenningssamgangna „í löndunum í kringum okkur“.

Þó er auðvitað margt sem betur mætti fara. Til dæmis er það algjörlega óþolandi að enn sé ekki hægt að komast inn í vagninn öðruvísi en með því að hafa við hendin nákæmlega 220 krónur í mynt. Leigubílar hófu að taka greiðslukort fyrir mörgum árum síðan, svo ekki sé minnst á það að gefa viðskiptavinum sínum til baka.

Margar aðrar hugmyndir hafa einnig verið þróaðar í stórborgum erlendis sem vert væri að skoða. Til dæmis geta farþegar í Berlín beðið bílstjórann um að panta handa sér leigubíl á tiltekna stoppistöð og einnig stoppa næturvagnar, að beiðni farþega, hvar sem er á leiðinni, ekki bara á stoppistöðunum. Þetta var oft í reynd raunin í íslensku næturvögnunum sálugu og hefði kannski verið góð hugmynd að markaðssetja hana sem slíka.

Margar af þeim breytingum sem nú er verið að leggja út í eru til mikils batnaðar. Til dæmis mun aldrei verða löng bið eftir næsta vagni fyrir þá sem komast vilja frá Hlemmi niður á Lækjartorg, vögnunum er nú dreift mun betur á klukkutímann. Þar munu vagnarnir nú fara á kvöldin 00, 06, 12, 18 og 24 mínútum eftir heila tímann, sem er mikil breyting frá því sem nú var þegar þeir keyrðu í halarófu hver á eftir öðrum, í kringum heila tímann.

Önnur athyglisverð útfærsla er að stofnleiðirnar munu nú keyra til kl. 2 yfir miðnætti um helgar sem er mjög jákvæð breyting og vonandi að sem flestir nýti sér hana svo þessum ferðum verði haldið við.

Auðvitað er það þó þannig að almenningssamgöngur í Reykjavík munu eiga erfitt uppdráttar þangað til að byggð hér þéttist. Það er staðreynd sem þeir sem mest gagnrýna skipulag þeirra átta sig oft ekki á.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.