Hryðjuverk virka ekki

Á síðasta fimmtudag var heimsbyggðin enn og aftur minnt á þá staðreynd að öryggi á Vesturlöndum er ekki sjálfgefið. Saklaust fólk var myrt með hrottalegum hætti í miðborg Lundúna og enn fleiri sitja eftir sárir, hvort sem er á líkama eða sál.

Á síðasta fimmtudag var heimsbyggðin enn og aftur minnt á þá staðreynd að öryggi á Vesturlöndum er ekki sjálfgefið. Saklaust fólk var myrt með hrottalegum hætti í miðborg Lundúna og enn fleiri sitja eftir sárir, hvort sem er á líkama eða sál. Árás hryðjuverkamanna á almenningssamgöngukerfi Lundúnaborgar á háannatíma mun þó ekki einungis hafa áhrif á þá sem urðu bein fórnarlömb hennar heldur skilja eftir sig ugg og ótta, óöryggi og efasemdir hjá heimsbyggðinni allri, en þó ekki síst hjá íbúum þeirra þjóða sem stutt hafa “stríðið gegn hryðjuverkum”.

Eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 fann alþjóðasamfélagið óneitanlega fyrir miklum breytingum. Áhrifa árásanna var bæði að gæta í hugum manna og hugmyndum um öryggi og frið, sem og í daglegu lífi þeirra vegna hertra öryggisreglna sem m.a. komu fram í auknum ágangi á frelsi fólks. Árásirnar voru ekki einungis morð á saklausu fólki heldur árás á lýðræðið, hornstein vestrænnar menningar, og þau gildi sem lýðræðisríki á Vesturlöndum byggja á. Fólk var fljótt að venjast breyttri heimsmynd, en aðrar minni árásir eftir þennan dag hafa þó þjónað þeim tilgangi sínum að minna sífellt á að ódæðismennirnir hafa hvergi nærri gefist upp í baráttunni fyrir málstað sínum. Málstað sem oft er erfitt að skilja, en er þeim greinilega svo mikilvægur, eins og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra benti á í viðtali við ríkissjónvarpið þann 7. júlí, að þeir líta svo á að dauðinn sé mikilvægari en lífið. Hann benti jafnframt á að erfitt væri að gera sér grein fyrir því hvaða aðferðum væri hægt að beita, í baráttunni við slíkan hóp manna, sem líta lífið svo allt öðrum augum en við sjálf.

En einhvern veginn verður að bregðast við og mikilvægt er að þau viðbrögð séu rétt. Til að tryggja að atburðir sem þessir geti síður gerst er mikilvægt að senda réttu skilaboðin út til þeirra sem ódæðisverkin fremja. Hryðjuverk (terrorism) hafa ekki síst þann tilgang að skelfa og grafa undan þeim stoðum sem fólk byggir líf sitt á. Slíkt leiðir til óöryggis og ótta sem er til þess fallinn að knýja fram uppgjöf. Þess vegna er nauðsynlegt að í kjölfar hryðjuverka sé árásarmönnunum gert fyllilega ljóst að uppgjöf sé ekki í sjónmáli. Tilgangi þeirra sé ekki náð, og muni ekki verða náð.

Gott dæmi um röng viðbrögð var þegar sambærileg árás var gerð í Madrid í fyrra. Sú árás var gerð tveim dögum fyrir þingkosningar þar í landi. Eftir árásirnar lýsti einn stjórnmálaflokkana því yfir að hlyti hann kosningu myndi herlið Spánverja verða kallað heim frá Írak. Spánverjar kusu það og hryðjuverkamönnunum varð að ósk sinni.

Viðbrögð Breta hafa verið allt önnur og er það vel. Lundúnarbúar sýndu það líka á sínum tíma, þegar árásir IRA á borgina voru tíðar, að þeir láta ekki svo auðveldlega bugast. Gott dæmi um þrautseigju þeirra var þegar IRA sprengdi eitt sinn upp bar í borginni að kvöldi til. Íbúar hverfisins tóku þá um leið höndum saman, allir sem einn, hreinsuðu öll ummerki eftir sprenginguna, fengu lánuð drykkjarföng af nágrannabarnum og komu barnum í starfhæft ástand. Var hann síðan opnaður á hádegi daginn eftir, eins og venja var. Þetta voru skýr skilaboð til árásarmannana um að slíkar árásir myndu ekki hafa tilætluð áhrif á daglegt líf.

CNN óskaði í vikunni eftir viðbrögðum við árásunum frá lesendum sínum og það er ríkjandi í þeim svörum sem þeim hafa borist að Bretar ætla sér að bregðast við með sama hætti og þeir hafa áður gert. Hér að neðan má sjá brot úr einum þeirra tölvupósta sem CNN hefur birt á fréttavef sínum:

I am so proud to be a Londoner. We dealt with the attack, the emergency services were superb, and we all just quietly picked ourselves up and got on with life again. Londoners, of all backgrounds, are now a much more united community and we will not be bullied and divided.

J.H., London, United Kingdom.

Deiglan fordæmir þær aðgerðir sem leiddu til hinna hræðilegu atburða í Lundúnum á fimmtudaginn og ekki síst fordæmir hún þær aðferðir sem hryðjuverkahópar beita í baráttunni fyrir málstað sínum. Við stöndum stöðug í samkennd við hlið bresku þjóðarinnar á þessum erfiðu tímum og vottum aðstandendum fórnarlambanna okkar dýpstu samúð.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)