Una cerveza por favor

Sundföt, sandalar, sólgleraugu, kútar, vindsæng, sólarvörn númer 4, 6, 8, 15, 30 og 50 –allt eftir húðlit og grunni og síðast en ekki síst, after sun til að hin dýrmæta brúnka flagni ekki af fyrir lendingu í Keflavík. Að ýmsu þarf að huga þegar lagt er í sólarlandaferð en fjöldi Íslendinga flykkist nú, sem önnur sumur, suður á bóginn til að njóta veðurfars og ódýrara verðlags sólríkra landa.

Eftir langan og dimman vetur eru krítarhvítir kropparnir hverjum sólargeisla fegnir enda vísindalega sannað að sól í skynsamlegu magni er geðheilsunni mjög holl. Flestir Frónverjar vinna allt of mikið og gefa sér ekki nægan tíma til útiveru og tómstunda þó þetta hafi ef til vill eitthvað lagast undanfarin ár.

Því vill það gerast að mikil spenna safnast upp fyrir langþráð fríið og kröfurnar til ferðarinnar verða gífurlegar. Allt í senn á að slaka á og safna kröftum, gera ýmislegt skemmtilegt með börnunum, fara á ströndina, vatnsrennibrautagarð, tívolí, skemmtigarð, dýragarð, á hjólabát, markað, versla leður, skó, keramik, fá fléttur í hárið, láta götulistamann teikna skrípamynd af fjölskyldunni og ekki má gleyma sólböðunum til að ná jafnri og fallegri brúnku. Auðvitað er þetta stórlega ýkt upptalning en eitthvað af ofantöldu á við í mörgum tilfellum.

Sem betur fer er það þó af sem áður var þegar landinn var orðinn hífaður strax í Leifsstöð og kenndi svo spænskum þjónum að blanda asna og kokteilsósu. Nú erum við mun veraldarvanari og flestir sækjast eftir að kynnast menningu landsins … og prófa nýjar sósur.

Flestir ná vonandi að gera raunhæfar kröfur og njóta frísins. Hins vegar vill oft verða svo þegar væntingarnar hafa hlaðist svona upp, að allt springur. Og hjónarifrildi eru því miður mjög algeng í sumarfríum. Það er kannski ekki skrýtið því fjölskyldumeðlimirnir hafa mismunandi væntingar og áhugamál og allt kostar þetta sitt. Það kostar sitt að borða á veitingastöðum öll kvöld og sækja skemmtigarða og þegar börnin hafa keypt plastdrasl af götubásum fyrir mörg þúsund getur blaðran sprungið.

Hvað rómantískar kvöldstundir hjónakornanna varðar þá er lítill tími eftir fyrir slíkan munað. Þar sem ég var stödd á hóteli á sólarströnd fyrir stuttu síðan og heyrði eitt parið kíta í næsta herbergi varð mér hugsað til fyrri hjónarifrilda sem ég hef orðið vitni að á hótelum (já þau eru nokkur) og til greina sem ég hef lesið um þetta leiðindamál. Þetta er greinilega staðreynd, og ætti kannski ekki að koma á óvart. Þar sem ég heyrði parið ná sáttum og manninn hugga snöktandi konu sína hugsaði ég með mér hvort ekki væri bara best ef þessi blaðra spryngi alltaf helst á fyrsta eða öðrum degi ferðarinnar. Þá er það frá. Ég tel ekki að hér sé um alvarlegt vandamál að ræða en þó væri æskilegast að hjón kæmu pirringnum út úr systeminu strax í upphafi frísins og helst ekki í návist annarra hótelgesta.

Best væri þó ef allir ferðalangar sumarsins gerðu raunhæfar væntingar til ferðalagsins og ætluðu sér ekki um of svo það verði ekki rauðflekkóttar, uppgefnar og útúrtaugaðar fjölskyldur sem koma heim úr sumarfríinu sínu.

Latest posts by Þórhildur Birgisdóttir (see all)