Demantar að eilífu?

sdfdBesta auglýsingabrella allra tíma var fólgin í því að sannfæra karlmenn á biðilsbrókunum um að demantar væru í senn fágætir og verðmætir.

Á þessari mynd er margt girnilegra djásna…

Í jarðfræði eru demantar ekki jafnfágætir og flestir ætla. Hitt er hins vegar rétt að fyrr á tímum voru þeir sjaldséðir og voru því jafnan krúnudjásn konungsborinna manna. En það breyttist í einni svipan árið 1890 þegar gríðarlegar demantanámur fundust í sunnanverðri Afríku. Síðan þá hefur fyrirtækið De Beers – eða öllu heldur auðhringurinn De Beers! – haft tögl og hagldir í demantaviðskiptum í heiminum. Þannig er það óumdeilt að auðhringnum hefur gengið vel í námugreftinum – en það sem meira er: De Beers hefur tekist jafnvel að grafa vöru sína inn í vitund hins siðmenntaða heims. Skoðum söguna: Þegar gröftur eftir demöntum hófst fyrir alvöru á ofanverðri nítjándu öld féll heimsmarkaðsverð á demöntum á innan við tveimur árum úr 500 bandaríkjadölum á hverju karati niður í heil tíu sent á karat. Á þeim tímapunkti sá ungur maður að nafni Cecil Rhodes leik á borði og stofnaði stærsta og áhrifamesta auðhring sögunnar.

Grunnhugsun Rhodes var einföld: Ef offramboð verður á demöntum mun verðið falla. Með því að kaupa upp samkeppnisaðila hafði De Beers auðhringurinn um 90% markaðshlutdeild í sölu á óslípuðum demöntum þegar best lét og stjórnaði framboði þeirra algerlega. Til að fullkomna leikfléttuna réð auðhringurinn auglýsingastofu til að breyta ásýnd eðalsteina í augum almennings.

Þannig er frægasta auglýsingaslagorð sögunnar komið frá De Beers: A diamond is forever! Slagorðið virkaði eins og undralyf. Innan þriggja ára frá því að slagorðið birtist fyrst á prenti voru um 80% af öllum hjónavígslum í Bandaríkjunum innsiglaðar með demantshring.

Snilld fyrirtækisins lá þannig í þeirri einföldu nálgun að spyrða nánast verðlausan hlut órofa böndum við dýrmætar mannlegar tilfinningar.

Að sama skapi eru form og lögun demanta þægileg. Öfugt við ýmsa aðra hluti, s.s. glæsibifreiðar eða loðskinspelsa – sem ómögulegt að framleiða í ódýrum útgáfum og sjást gjarna á hvíta tjaldinu – geta flestir leyft sér a.m.k. einu sinni á lífsleiðinni að fjárfesta í smáum demanti fyrir eiginkonu sína eða viðhald.

Enginn höstlar hins vegar út á loðfeldslyklakippu!

(Ómálefnalegt innskot: Hafi einhverjum hins vegar tekist að höstla út á loðfeldslyklakippu er þeim hinum sama boðið að vera gestafyrirlesari á næsta fundi piparsveinaarms Deiglunnar!)

Aftur að efninu: Áhrif auglýsingaherferðarinnar voru meiri og víðtækari en nokkurn hefði órað fyrir. Þannig hafa rannsóknir t.a.m. sýnt að demantar fara sjaldan í endursölu á almennum markaði – og eru einir þeirra hluta sem sjaldnast eru seldir út úr dánarbúum einstaklinga.

Ástæðan?

Jú, börnin góð — demantar eru svo fágætir!

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)