Leitin að fjársjóðnum

Gimsteinar hafa alla tíð táknað auð. Auð sem flestir girnast og margir sækjast eftir. Fólk er þó tilbúið til að leggja mismikið á sig í leitinni að auðæfunum og mestu ævintýramennirnir fara sjálfir í fjársjóðsleit og grafa eftir gimsteinum.

Gimsteinar hafa alla tíð táknað auð. Auð sem flestir girnast og margir sækjast eftir. Fólk er þó tilbúið til að leggja mismikið á sig í leitinni að auðæfunum og mestu ævintýramennirnir fara sjálfir í fjársjóðsleit og grafa eftir gimsteinum. Sumum nægir að grafa einu sinni til að verða vellauðugir, – öðrum nægir ekki ævin til að finna nóg til að skrimta.

Í eyðimörkinni í Suður Ástralíu er lítill ópalnámubær sem kallast Coober Pedy. Hann er mjög sérstakur þar sem íbúarnir 3500 eru af a.m.k. 45 þjóðernum og helmingur þeirra býr neðanjarðar. Þarna rignir sjaldan og hitinn fer yfir 40 stig á sumrin en ofan í neðanjarðarhíbýlunum er hitastigið mjög þægilegt og svipað allan ársins hring. Þar að auki sleppa þeir við dýra kyndingu á veturna og loftkælingu á sumrin. Á svæðinu eru yfir 250.000 námugöng og umhverfið því mjög sérstakt á að líta. Kvikmyndir á borð við The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert og Mad Max III voru teknar þar að hluta til og eru íbúarnir enn að gorta sig af því þar sem þeir gera hvað sem er til að halda í ferðamennina enda fjarstæðukennt að treysta á ópalinn.

1.febrúar 1915 fann William Hutchison ópal í Coober Pedy fystur manna. Hann var einungis 14 ára gamall og fann ópalinn fyrir algera tilviljun. Hann var staddur með pabba sínum sunnan við bæinn og jú, þeir voru reyndar í vissri fjársjóðsleit. Þeir voru að leita að gulli án árangurs og William var að leita að vatni undir eyðimerkursandinum þegar hann rakst á ópal. Síðan þá hefur bærinn laðað að sér ævintýramenn með dollaramerki í augunum alls staðar að úr heiminum. Um 60 % þeirra komu frá suður og austur Evrópu svo þetta litla samfélag er ótrúlega fjölmenningarlegt. Sem dæmi má nefna að í þessum litla bæ eru eru fimm ólíkar kirkjur, -allar neðanjarðar og áður fyrr var alltaf haldið íþróttamót í bænum þar sem hin ólíku þjóðarbrot kepptust í fótbolta. Fyrir nokkrum árum var sú keppni hins vegar lögð niður þar sem hún leystist alltaf upp í slagsmál milli Grikkja, Serba, Króata, Ítala o.s.frv.

Coober Pedy svæðið er stærsta ópalnámusvæði í heimi. Þaðan og úr næsta nágrenni koma 85% ópala í heiminum og um 95% allra ópala koma reyndar frá Ástralíu. Leitin getur verið ansi tímafrek þar sem ekki eru til nein leitartæki svipuð málmleitartækjunum sem eru notuð í málmnámum. Aðstæður er vægast sagt erfiðar þar sem hitinn er oft gífurlegur á þessu svæði, erfitt er að sjá ópalinn í sandinum og göngin geta verið mjög hættuleg. Sumir eru mjög heppnir og hafa grætt á greftrinum en mun fleiri hafa þurft að bíta í það súra epli að finna verðlitla ópala og græða því lítið. 90 % ópala kallast “potch” og eru ekki jafn litríkir og hin 10 % sem hafa sterka liti og eru mjög verðmætir. Sjaldgæfastir eru rauðir ópalar og slíkur fundur getur gert menn ríka á augabragði. Undirritaðri gafst nýlega tækifæri til að fylgjast með tveimur námumönnum leita að ópal (sjá mynd) og vakti það undrun mína hversu frumstæður búnaðurinn var. Þarna sátu þeir, í janúar árið 2006 kófsveittir og rykugir með einn ljósahund og lítinn haka í hönd. Þegar þeir héldu að þeir hefðu fundið eitthvað bitastætt settu þeir steininn í munninn til að ná af honum rykinu og lýstu svo á hann með vasaljósinu til að kanna hversu sterkir litir ópalsins væru. Svona geta margir dagar liðið án þess að þeir finni nokkuð verðmætt. Ævintýramennskunni fylgir þó ekki eintóm hamingja því að sögn bæjarbúa sjálfra hafa ópalnámurnar eyðilagt mörg hjóna-, fjölskyldu- og vináttubönd. Græðgin kemur því miður ekki í veg fyrir að menn steli frá sínum nánustu og þegar einhver er heppinn og finnur verðmætan ópal er svæðið ekki lengi að fyllast af öðrum forvitnum grömsurum í gimsteinaleit.

Enn þann dag í dag getur hvaða Ástrali sem er freistað gæfunnar í Coober Pedy. Þeir sem eru tilbúnir til að láta reyna á lukkuna þurfa bara um 5000 kr, sólarvörn, skóflu (eða aðrar græjur), tíma og nóg af þolinmæði. Fyrir 5000 krónurnar fær fólk tilkall til smá landskika og einungis má grafa á einu slíku svæði í einu. Þess vegna geta stór fyrirtæki ekki komið og keypt upp svæðið. Því má með sanni segja að ævintýraljóminn svífi enn yfir vötnunum í Coober Pedy.

Latest posts by Þórhildur Birgisdóttir (see all)