Úr Garðabæ í Kópavog?

Áætlanir IKEA og nú síðast Bauhaus keðjanna um stórmarkaðssvæði við Urriðaholt í Garðabæ eru sennilega nokkuð eðlilegar í ört vaxandi nútímaborg. En er staðsetningin fyllilega skynsöm? Er þarna verið að ganga um of á náttúrperlur í jaðri höfuðborgarsvæðisins? Og eru Garðbæingar með þessu að þróast í átt til þess sem þeir virðast einna síst spenntir fyrir, nefnilega Kópavog?

Lágvöruverðsverslanir á borð við IKEA og Bauhaus virðast gegna býsna athyglisverðu hlutverki í þróun nútímaborga. Forsendur þess að geta boðið hagstæðasta verðið felst auðvitað að miklu leyti í því að lágmarka ýmsan grunn- og stofnkostnað. Staðsetning í útjaðri borgarsvæða, þar sem markaðsverðmæti er hlutfallslega lágt miðað við önnur svæði innan borgarinnar, er góð leið til þess.

Þessi mikli hvati til að staðsetja sig í útjaðri borgarsvæðanna virðist oftar en ekki leiða til þess að sjálf borgin fylgir í kjölfarið. Þetta er a.m.k. oft raunin í borgum erlendis, einkum Bandaríkjunum. Tilkoma verslunarsvæðisins ýtir upp markaðsverðmæti þess og ýmis framkvæmdir er tengjast aðgengi og veitukerfum hvetja til framrásar nýrrar byggðar að á nálægum svæðum. Ekki síst verða svæðin aðlaðandi fyrir aðra verslunar og þjónustustarfsemi og ‘bílavæna’ skyndibitastaði.

Þetta virðist vera að mörgu leyti ágæt þróun og jákvæð, einkum þegar tekið er tillit til hagsmuna neytandans. Honum er tryggt aðgengi að vöru á mjög samkeppnishæfu verði. Markaðurinn eflist og dafnar.

Þessi þróun hefur hins vegar mætt gagnrýni á síðustu áratugum, einkum í Evrópu og einnig í Bandaríkjunum. Útþensla vestrænna borga á síðustu öld með gisinni og bílaháðri byggð hefur ýmsa umhverfislega, samfélagslega og efnahagslega veikleika í för með sér sem aftur geta haft heldur neikvæðar þjóðfélagslegar afleiðingar í för með sér. Verslunardauði í miðbæjum, skerðing ræktunarlands, mengun eru dæmi sem týnd hafa verið til í þessari gagnrýni.

Höfuðborgarsvæðið íslenska hefur ekki farið varhluta af þessari þróun, enda hefur það fylgt að megninu til öllum helstu meginreglum í borgarskipulagi síðustu aldar. Stórt á litið má segja sem svo að Skeifan, Fenin, Mjóddin, Holtagarðar og Smárinn allt dæmi um kjarna sem mynduðust á jaðri byggðarinnar á hverjum tíma (í sumum tilfellum þó á milli tveggja jaðra, eins og í Smáranum). Það er þó ekki endilega hægt að segja að borgin hafi fylgt í kjölfarið í þessum tilfellum. Ný byggð var yfirleitt á teikniborðinu eða í byggingu á sama tíma.

Þetta er að mörgu leyti orðin býsna rótgróin þróun á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar á landinu. Það er því sennilegt að flestir líti á áætlanir IKEA og Bauhaus við Urriðaholt sem eðlilegan hlut í þróun og vexti borgarinnar. Sem þær og eru að mörgu leyti. En maður leiðir óneitanlega hugann að því hvernig áætlanir af þessu tagi bæta í raun á hina fjölþættu veikleika sem einkenna þróun hinnar vestrænu nútímaborgar nú við aldahvörfin. Það er þó lítið við því að gera. Tímaskali breytinga í borgarskipulagi virðast vera áratugir og jafnvel aldir frekar en ár og mánuðir.

Þessi staðsetning má telja eðlilega og skynsama út frá sjónarhóli þeirra sem þarna vilja staðsetja sig. Þarna eru mikil tækifæri til að lágmarka grunnkostnað.

En er skynsamlegt af Garðabæ að samþykkja þessar áætlanir? Er þess virði fyrir bæjarfélag sem vill vera þekkt fyrir að vera bær í blóma að leyfa það að 26 hektarar af bæjarvernduðu svæði sé brotið undir stórmarkaði, skyndibitastaði og mikið flæmi bílastæða? Er bæjarfélagið með þessu e.t.v. að ganga gegn vilja bæjarbúa sem að undanförnu hefur kristallast í röð af vel heppnuðum og árangursríkum íbúaþingum?

Það er helst tvennt sem fær mann til að efast aðeins um að svo sé.

Í fyrsta lagi virðast Garðbæingar meta það sem eftir er að óhreyfðu og óspilltu hrauni innan bæjarmarkanna mikils. Núgildandi bæjarvernd sem svæðið nýtur, auk niðurstaðna frá íbúaþingi í Garðabæ fyrir tæpum þremur árum fá mann til að efast um að þetta samræmist vilja íbúanna að fullu og hugmyndir þeirra um Heiðmörk og hraunið sem útivistarsvæði og grænt andrými innan byggðarinnar fyrst og fremst.

Í öðru lagi virðast íbúar Garðabæjar ekki mjög spenntir fyrir því að sjá byggðina sína þróast í þá átt sem í dag einkennir nágranna sína í norðri, Kópavog. “Ekki Kópavog” eru skilaboð sem fram komu skriflega frá einum íbúanna á miða þegar teknir voru saman draumar fólks um bæinn sinn. Þessi einfalda setning hlaut góðar undirtektir þinggesta þegar hún var lesin upp. Það er því ástæða til að efast um að íbúar séu mjög spenntir fyrir því að sjá næstu kynslóð Smárans í Kópavogi byggjast upp við Urriðaholt.

Þótt bæjaryfirvöld haldi því fram að mikið verði lagt í hönnun og umhverfismótun í Kauptúninu eins og svæðið hefur verið nefnt, og leggja fram aðlaðandi skissur því til staðfestingar þá er staðreyndin sú að þegar samningur eða skipulag af þessu tagi er í höfn er oftar en ekki unnið markvisst að því að straumlínulaga kostnaðarliði og draga úr útgjöldum. Að leggja út í mikinn hönnunar- og framkvæmdakostnað er einfaldlega í mótsögn grunnforsendur lágvöruverðsverslana þegar þær móta áætlanir sem þessar. Það eru því talsverðar líkur á því að endanleg mynd ‘kauptúnsins’ við Urriðaholt verði ekki fyllilega í samræmi við kynningargögn og verði mörgum vonbrigði. Það má þó auðvitað ekki útiloka það að svæðið verði aðlaðandi og endanleg mynd þess í samræmi við fram komnar skissur. En maður efast.

Eflaust stendur mörgum bæjarbúum á sama um þessar áætlanir. Enn aðrir eru þeim væntanlega fylgjandi og er slétt sama um hraun eða útivistarsvæði í Garðabæ. En það er engu að síður mjög mikilvægt að ákvörðun bæjaryfirvalda stangist ekki á við vilja meirihluta bæjarbúa, ekki síst í ljósi þess góða árangurs sem náðst hefur í tilraunum til íbúalýðræðis og samráðs við borgarana.

Ein skynsamleg leið til að tryggja farsæla ákvörðun yfirvalda í Garðabæ væri að boða íbúa Garðabæjar til kosninga um það hvort þeir séu fylgjandi eða andvígir stórmarkaðssvæði IKEA og Bauhaus við Urriðaholt. Slíkt væri í samræmi við þróun íbúalýðræðis í dag. Bæjaryfirvöld verða að minnsta kosti að tryggja ákvörðun sinni nokkuð afgerandi stuðning í jafn mikilvægri stefnubreytingu um byggðarmynstur og þróun bæjarfélagsins til framtíðar.

Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa til þessa sýnt mikið frumkvæði í íbúalýðræði og samráði í ákvarðanatöku hér á landi og eiga mikið hrós skilið. Það traust sem yfirvöld hafa náð að vinna sér inn með þessu er mjög dýrmætt en jafnframt auðvelt að glata. Illa ígrunduð ákvörðun í þessu máli gæti því miður stefnt lest íbúalýðræðis og samráðs í Garðabæ út af sporinu. Reynslan hefur sýnt það að sú lest getur stungist á bólakaf ef hún keyrir út af. Það gæti tekið mörg ár að grafa hana upp og bakka henni upp á teinana.

Helstu heimildir

www.ibuathing.is

www.urridaholt.is

Fast Food Nation eftir Eric Schlosser, gefin út af Perennial árið 2002.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.