17. júní – Til hamingju með afmælið!

Þennan dag eigum við að halda upp á afmæli lýðveldisins og minnast sjálfstæðisbaráttu manna fyrr á öldum, þeir börðust fyrir okkur öll. Þennan dag er líka tilvalið að staldra við og líta á nokkur atriði, bæði raunhæf og í léttari kantinum, sem gætu bætt stöðu okkar enn frekar, bæði í samfélagi þjóðanna sem og gert landið okkar betra að búa í.

Í dag á lýðveldið Ísland 61 árs afmæli, sömuleiðis eru í dag 194 ár frá fæðingu eins helsta baráttumanns sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar – Jóns Sigurðssonar. Til hamingju Íslendingar og gleðilega þjóðhátíð.

17. júní er þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga, fólk fær frí í vinnunni og skrúðganga er haldin til heiðurs okkur öllum. Hrossabrestar og gasblöðrur ásamt kandífloss og risa sleikjósnuðum eru dæmi um varning sem einkenna þjóðhátíðina okkar. Svo má ekki gleyma útitónleikum í Lækjargötu, rigningu og leiðinlegu veðri. Þennan dag eigum við að halda upp á afmæli lýðveldisins og minnast sjálfstæðisbaráttu manna fyrr á öldum, þeir börðust fyrir okkur öll. Þennan dag er líka tilvalið að staldra við og líta á nokkur atriði, bæði raunhæf og í léttari kantinum, sem gætu bætt stöðu okkar enn frekar, bæði í samfélagi þjóðanna sem og gert landið okkar betra að búa í.

1. Pólhnykkur

Hópur Indverja trúir því að einhvern tímann muni möndulhalli jarðarinnar breytast á svipstundu. Þetta á t.a.m. að geta gerst þegar allar reikistjörnurnar og sólin eru í beinni línu við jörðina. Samanlagt þyngdarafl þeirra á þá að velta jörðinni, leiftursnöggt. Ef við gerum ráð fyrir að þetta gæti gerst án óhjákvæmilegra náttúruhamfara gæti þetta verið heillaspor fyrir Ísland. Afstaða Íslands gagnvart sólu eftir pólhnykk myndi nefnilega vera svipuð og Kanarýeyja í dag. Okkur veitir allavega ekki af meiri sól og sumaryl á Frónna.

2. Afnám tolla á innfluttar landbúnaðarafurðir

Líklega er þetta sú aðgerð sem gæti skilað fólkinu í landinu hvað mestum kjarabótum. Það er nefnilega draumsýn að á litlu skeri lengst norður í ballarhafi sé mögulegt að rækta landbúnaðarafurðir á hagkvæman hátt. Óþarfi er að óttast að landbúnaður legðist alveg af á Íslandi. Markaður fyrir hágæða kjöt eins og íslenska lambakjötið og alls kyns hágæða lífrænt ræktaðar afurðir er alltaf að aukast. Á þann markað gætu íslenskir bændur herjað.

3. Færsla flugvallarins úr Vatnsmýrinni

4. Aukið frelsi og lækkun gjalda í viðskiptum með áfengi

Það er kominn tími til að hægt verði að kaupa að minnsta kosti léttvín og bjór í matvöruverslunum. Sömuleiðis er nauðsynlegt lækka gjöld á umrædda drykki. Ferðaþjónusta er að verða stóriðja á Íslandi og við verðum að vera frjálsari og alþjóðlegri í þessum efnum ætlum við okkur að halda áfram að fá gjaldeyristekjur frá erlendum ferðamönnum.

5. Stóriðja fer úr tísku

Það er vonandi að íslenskir stjórnmálamenn fari að átta sig á því að stóriðja er ekki besta lausnin til framtíðar. Raunhæfara er að beina sjónum að nýsköpun, sprotafyrirtækjum og aukinni menntun ungs fólks.

6. Klónum Eið Smára

Þeir sem fóru á landsleiki Íslands í byrjun mánaðarins ætti að vera ljóst að Eiður ber höfuð og herðar yfir aðra leikmenn. Bara ef við hefðum einn Eið í öllum stöðum á vellinum þá kannski kæmumst við einhvern tímann á EM eða HM. Væri kannski ráð að koma Eið og Ásthildi saman og byrla þeim frjósemislyf?

7. Áframhaldandi lækkun skatta og einkavæðing opinberra fyrirtækja

Það er pirrandi að þurfa að borga eins hátt hlutfall af tekjum sínum til ríkisins og raun ber vitni. Með áframhaldandi einkavæðingu ríkisfyrirtækja, aðhaldi í ríkisfjármálum og einföldun skattkerfisins má eflaust auka hlutfall þess sem launamenn fá mánaðarlega.

Er svo ekki löngu orðið tímabært að selja Orkuveitu Reykjavíkur svo að Alfreð og hans líkir geti ekki eytt í endalausa vitleysu?. Eða á maður bara að halda kjafti og kaupa sér sumarbústað þar sem eru ræktaðar risarækjur og bein lína.net við Alfreð er í bústaðinn?

8. Breyttar áherslur í samgöngumálum og fækkun slysa

Alltaf er það jafnsorglegt þegar maður sér fréttir um alvarleg umferðarslys í blöðunum. Þarf ekki að gaumgæfa betur hvernig hægt sé að draga úr slysatíðni? Allavega virðist ekki duga að hafa nógu svæsnar auglýsingar frá Umferðarstofu. Hvað með að ráðast í endurbætur á alþekktum slysagildrum í stað þess að spreða í göng fyrir tólf bíla milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar?

Þessi átta atriði endurspegla ekki endilega það sem pistlahöfundur telur mikilvægast að breyta, heldur gefa kannski hugmynd um eitthvað af því sem betur mætti fara að hans mati. Gallinn er kannski sá að ef maður reynir að gera tæmandi lista að hann verður svo langur að manni fallast hendur. Gleymum því þó ekki, á þessum merkilega degi, að við erum sjálfstæð þjóð og frjáls, þar sem ríkir lýðræði án kúgunar og sárrar fátæktar. Það er kannski þegar öllu er á botninn hvolft mikilvægara en flest annað.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)