Kostum fjölgar

Eftirspurn í hlutabréfaútboði hjá Mosaic Fashions, sem lauk í gær, bendir glögglega til þess að íslenska fjárfesta þyrstir í ný hlutafélög.

Hlutabréfaútboð Mosaic Fashions, sem lauk í gær, var vel heppnað. Yfir áttföld eftirspurn var meðal almennra fjárfesta og fagfjárfesta um fram það hlutafé sem í boði var. Félagið fær skráningu í Kauphöllina þann 21. júní.

Annað fyrirtæki, færeyska olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum, verður skráð á íslenska hlutabréfamarkaðinn í næstu viku. Hljóta það að teljast mikil tíðindi að félögum er farið að fjölga aftur á hlutabréfamarkaðnum eftir mikla fækkun á síðustu árum.

Þá bendir allt til þess að Avion Group, sem er að mestu í eigu Magnúsar Þorsteinssonar, verði skráð fyrir 1. febrúar á næstkomandi ári í tengslum við sölu Burðaráss á hlutabréfum í Eimskipafélaginu til Avions.

Einnig hefur heyrst um áhuga annarra félaga bæði innlendra og erlendra. TM Software hefur haft það á sinni stefnuskrá að komast inn í Kauphöllina. Einnig er talið líklegt að breska tískuverslunarkeðjan, Shoe Studio Group, leiti til Íslands eftir vel heppnað útboð Mosaic Fashions.

Aðstæður til að skrásetja félög á íslenska markaðinn eru góðar. Mikið peningamagn er í umferð í hagkerfinu og er vöntun á góðum félögum. Hlutabréfaverð er hátt og gefur það eigendum félaga tækifæri að fá sanngjarnt verð ef þeir kjósa að selja nýtt eða eldra hlutafé. Fyrir þá erlendu fjárfesta sem eru í hugleiðingum að fara inn á markað með fyrirtækin sín er Ísland því góður kostur.

Það er ánægjulegt að vita til þess að erlendir aðilar hafi mikinn áhuga á Íslandi. Hlutabréfamarkaðurinn hefur verið mjög virkur á Íslandi og ljóst er að hann ber mun fleiri félög en nú eru, einkum félög sem hafa markaðsvirði frá 10-20 milljörðum og upp úr.

Fyrir fjárfesta eru þetta góð tíðindi. Þeir geta þar með dregið úr þeirri áhættu sem felst í því að eiga hlutabréf í tengdum félögum og fyrirtækjum sem starfa á sams konar sviði. Bankar og fjárfestingafélög ráða nú ríkjum í Kauphöllinni og hafa verið áberandi í eignarsöfnun þeirra sem kaupa hlutabréf.

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)