Hringavitleysan Reykjavík

Ég er eiginlega búin að fá mig fullsadda af hugleysi borgarstjórnarmanna, hvort sem hjá R-lista eða Sjálfstæðismönnum því enginn tekur almennilega afstöðu í málum sem snerta borgarbúa mikið.

Ég er eiginlega búin að fá mig fullsadda af hugleysi borgarstjórnarmanna, hvort sem hjá R-lista eða Sjálfstæðismönnum, því enginn tekur almennilega afstöðu í málum sem snerta borgarbúa mikið. Það eina sem maður veit er að skattar hafa aldrei verið hærri, skuldir borgarinnar hafa aldrei verið hærrri og fasteignagjöld aldrei hærri. Þetta gerðist aðallega á tímabilinu 1994-2005 eða í valdatíð R-listans. En hvað þurfa Sjálfstæðismenn að gera til að vinna borgina til baka og vinna að því að lækka þær kvaðir sem fylgja því að búa í höfuðborg landsins? Ég held að væl um slæm verk muni ekki virka því það er eins og fólk loki bara fyrir eyrun þegar talað er um skuldir borgarinnar. En nú hefur verið talað um það að helsta mál þessa kosninga verði skipulagsmál og þá hlýtur að vera aðalatriði að vera með skýra stefnu þar.

Flugvöllur, Vatnsmýrarbyggð eða hvað?

Margir verkfræðingar telja að til þess að í Reykjavík verði gott samgöngukerfi og þétt og sameinuð borg þurfi að færa flugvöllinn og byggja í Vatnsmýrinni. Aðalhöfuðverkurinn við þetta er hvar flugvöllurinn eigi að vera og hafa komið fram ýmsar ágætis hugmyndir um það m.a. Bessastaðanesið, Löngusker, Engey og svo auðvitað Keflavík. Með því að byggja í Vatnsmýrinni værum við að þétta byggðina mun betur, því með því að byggja í eyjunum er byggðin í borginni orðin mjög tvískipt og meira skipt en t.d. Reykjavík og Kópavogur. Talið er að almenningssamgöngur myndu ganga mun betur með byggð í eyjunum, en það þyrfti auðvitað að bregðast við aukinni umferð með breyttri skipulagningu.

Mér finnst flest hitamálin í borgarstjórn snúast um skipulagsmál og samgöngumál, en hvorki Sjálfstæðismenn eða R-listi taka skýra stefnu í þessum málum. En hvað vilja Sjálfstæðismenn í Reykjavík?

D-listi vill; Mislæg gatnamót STRAX

Sundabraut

Byggð í eyjarnar

(Viðey, Engey, Akurey og Örfisey)

Hætta að byggja í austur

Styrkja byggðina í vestri

Samgöngur sem virka

Nægt lóðarframboð

Byggð á Geldingarnesið

D-listi veit ekki; Flugvöll í Vatnsmýri

Byggð í Vatnsmýri

Hvar flugvöllurinn á að vera

D-listi vill ekki; Meiri byggð í austur

Dreifingu byggðar

Hátt lóðarverð

Lóðar skort

Lítum nú á málið. Hvar er mesta íbúabyggðin samanlagt í Reykjavík? Breiðholti, Grafarvogi og Árbæ. Þetta er einnig talin mjög þétt byggð og einmitt á þessu svæði ganga samgöngur hvað best. Sjálfstæðismenn hafa hins vegar lýst því yfir að þeir ætli sér ekki byggja meira í austur því framtíðin liggur vestur. En hvað gerist þegar austrið hittir vestrið? Hvað verður um samgöngur þá? Verðum við þá kannski með tvo miðbæi? Laugarvegur og Austurstræti og síðan Mjódd og Seljabraut? Það væri nú ansi kjánalegt. Líkt og flestar þessar hugmyndar allar saman í einum graut.

Væri ekki sniðugast að hætta að byggja í vestur og austur, ljúka við það landsvæði sem er laust í borginni eins og í Vatnsmýrinni, finna nýjan stað fyrir flugvöllinn á höfuðborgarsvæðinu, gera mislæg gatnmót við Kringlumýra- og Miklubraut, aðlaga leiðarkerfi strætó að þörfum einstaklingsins og klára Sundabrautina.

Það er einnig merkilegt að það er eins og allir séu sammála um það að flugvöllurinn muni færast úr Vatnsmýrinni, sama í hvaða flokki viðkomandier. En engum dettur í hug að setja það sem opinbert markmið flokks að taka flugvöllinn í burtu.

Þrátt fyrir að mér finnist hugmyndin um byggðar í eyjunum frábær hugmynd finnst mér að við megum ekki gleyma þessu frábæra svæði sem Vantsmýrin er því að það væri svo sannarlega hægt að gera þetta mjög glæsilega byggð og flugvöllurinn gæti jafnvel verið mun betur á sig kominn á Lönguskerjum eða Bessastaðanesjunum.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.