Tími til að hlaupa

Kvennahlaup ÍSÍ fer fram í sextánda sinn í dag þann 11. Júní. Hlaupið verður á yfir áttatíu stöðum víðsvegar um landið en hlaupið er mjög vinsælt meðal kvenna á Íslandi.

Kvennahlaup ÍSÍ fer fram í sextánda sinn í dag þann 11. Júní. Hlaupið verður á yfir áttatíu stöðum víðsvegar um landið. Undanfarin ár hafa konur einnig hlaupið erlendis og er líklegt að svo verði einnig í ár. Á höfuðborgarsvæðinu fer hlaupið fram á tveim stöðum. Í Mosfellsbæ hefst hlaupið klukkan 11.00 og Garðabæ klukkan 14.00. Nánari upplýsingar um hlaupið má finna hér.

Kvennahlaupið fór fyrst fram þann 30. Júní 1990 og var það þá haldið í tengslum við hátíð Íþróttasambands Íslands. Þá var hlaupið á sjö stöðum víðsvegar um landið en flestar konur hlupu í Garðabæ, rúmlega tvö þúsund talsins. Markmiðið með Kvennahlaupinu hefur frá upphafi verið að virkja konur til hreyfingar og almennt að vekja þær betur til vitundar um mikilvægi hreyfingar fyrir líkama og sál.

Fjölgað hefur í hlaupinu ár frá ári. Hlaupið sem fram fer í Garðabæ hefur verið fjölmennast frá byrjun og hafa allt að átta þúsund konur tekið þar þátt. Ástæða þess hversu vinsælt hlaupið er má líklega rekja til þess hversu einfalt er að taka þátt.

Í kvennahlaupinu er lögð áhersla á að allir geti verið með. Á flestum stöðum er byrjað á upphitun, með einföldum leikfimisæfingum, áður en hlaupið hefst. Hægt er að hlaupa nokkrar vegalengdir, en misjafnt er eftir stöðum hversu margir möguleikar eru í boði og hversu langt er hægt að hlaupa. Þátttakendur í hlaupinu fá ekki sérstakt númer við skráningu heldur bol sem merktur er hlaupinu. Bolurinn fær ákveðinn lit hvert ár og er hann blár þetta árið. Ekkert aldursmark er í hlaupinu og því tilvalið fyrir konur á öllum aldri að taka þátt. Allir þátttakendur fá svo verðlaunapening að hlaupi loknu.

Mjög góð þátttaka kvenna í Kvennahlaupinu undanfarin ár hefur sýnt að það er komið til að vera. Það er tilvalinn vettvangur fyrir ömmur, mæður, dætur, systur og frænkur að koma saman, hreyfa sig og hafa gaman af. Allt bendir til að þátttakan í ár verði ekki síðri en undanfarin ár og mega íbúar landsins því búast við að sjá fjölmargar bláklæddar konur storma um götur landins í dag.

Latest posts by Ingunn Guðbrandsdóttir (see all)