Slátrun í Úsbekistan og ábyrgð Bandaríkjanna

Friðsamleg mótmæli í Úsbekistan urðu að blóðbaði þegar herinn, að beiðni Islam Karimovs, forseta landsins, hóf að skjóta á óvopnaðan almenning. Úsbekistan hefur veitt Bandaríkjunum stuðning í stríðinu gegn hryðjuverkum – en það er komin tími til að Bandaríkin endurskoði stuðning sinn við Karimov.

Allt frá því að Úsbekistan hlaut sjálfstæði árið 1991 í kjölfar hruns Sovétríkjanna, hafa átök á milli trúarhópa, glæpir og pólitískar ofsóknir verið daglegt brauð í landinu. Borgaraleg- og pólitísk réttindi eru lítil sem engin, spilling mikil og fjölmiðlafrelsi er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Af fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna, eru lífskjörin einna verst í Úsbekistan um þessar mundir.

Mótmælin gegn stjórnvöldum landsins hafa aðallega átt sér stað í austurhluta Úsbekistan, í smábænum Andijan, en átök hafa einnig orðið á öðrum stöðum í kring. Mikil ólga hefur verið á svæðinu frá því seint á síðasta ári, þegar þúsundir manns mótmæltu háum sköttum og miklum viðskiptahöftum. Fyrir um sex vikum síðan hófu svo íbúar Andijan friðsamleg mótmæli gegn því að 23 innlendir kaupsýslumenn væru leiddir fyrir réttarhöld, ásakaðir um að boða íslamskar öfgakenningar.

Þegar þetta er skrifað segja samtök stjórnarandstæðinga í Úsbekistan, að herinn, undir stjórn forsetans Islam Karimovs, hafi drepið 745 manns á síðustu dögum. Stjórnvöld neita því að mannfallið sé svo hátt og telja rétta tölu vera 169 manns – allt saman vopnaðir uppreisnarmenn, en ekki óbreyttir borgararar líkt og fjölmargir sjónarvottar hafa sagt frá. Ef samtök stjórnarandstæðinga hafa rétt fyrir sér um mannfallið, eins og flest bendir til, er um að ræða mannskæðustu aðgerðir stjórnvalda gegn eigin þegnum, frá því að kommúnistastjórnin í Kína barði niður mótmæli námsmanna á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Karimov hefur haldið því fram, að það séu íslamskir hryðjuverkamenn sem standi á bak við mótmælin. Ekkert bendir hins vegar til að svo sé.

Þáttur Bandaríkjanna skiptir aftur á móti miklu máli í þessu sambandi; þau geta ekki skotið sér undan ábyrgð á því hvernig ástandið er í landinu. Bandaríkin, ásamt stórþjóðum Evrópu, hafa ekki sýnt eitt einasta frumkvæði í þá átt að þrýsta á lýðræðislegar umbætur í Úsbekistan, né önnur ríki í Mið-Asíu. Öðru nær. Bandarísk stjórnvöld hafa hingað til, talið það vera í þágu hagsmuna sinna að viðhalda óbreyttu ástandi á svæðinu. Árið 1998 hófu þau að fjármagna og þjálfa hersveitir í Úsbekistan til að berjast gegn íslömskum öfgamönnum. Ein afleiðingin af þessu, hefur verið sú að Karimov hefur brugðist við allri uppreisn með því að berja hana grimmilega niður, undir því yfirskini að uppreisnarmennirnir séu íslamskir öfgamenn. Og oftar en ekki er það fjarri lagi.

Í fyrstu byrjuðu Bandaríkin að horfa meira til Mið-Asíu eftir hrun Sovétríkjanna, vegna þeirra olíu og gas auðlinda sem þar er að finna – en seinna vegna nálægðarinnar við Osama Bin Laden. Bandaríkin, Rússland, Kína og einræðisstjórninar í Mið-Asíu, ákváðu svo í sameiningu að skilgreina vandamál svæðisins að mestu leyti til „hryðjuverkastarfsemi.“

Úsbekistan gegnir frá hernaðarlegu sjónarmiði mikilvægu hlutverki vegna landamæranna rétt við Afganistan. Bandaríkin hafa fengið að starfrækja herstöð í landinu frá því stuttu eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 og launuðu það meðal annars með tvö hundruð miljón dollara fjárhagsaðstoð árið 2002. Úsbekistan telst því mikilvægur bandamaður Bandaríkjanna á svæðinu í stríðinu gegn hryðjuverkum. Í ræðu sem George W. Bush hélt fyrir bandaríska þingið þann 20. september 2001, voru einu hryðjuverkasamtökin sem nefnd voru á nafn, fyrir utan Al Kaída og stjórn Talebana, Íslamska hreyfingin frá Úsbekistan. Þannig var Karimov veitt víðtæk heimild til að berjast gegn íslömskum öfgamönnum í landinu. En um leið – líkt og óeirðirnar í landinu síðustu daga varpa ljósi á – hafa stjórnvöld í Úsbekistan nýtt sér þennan stuðning Bandaríkjanna, til öðlast umburðarlyndi gagnvart kerfisbundnum mannréttindabrotum á borgurum landsins.

Bandaríkin lýstu því yfir að stríðið gegn hryðjuverkum væri alþjóðleg barátta þar sem allar þjóðir heims þyrftu að ákveða með hverjum þær ætluðu að standa. En eins og dæmi Úsbekistans sýnir okkur, þá ákveða leiðtogar stundum að vera í liði með Bandaríkjunum vegna aðstæðna heima fyrir, fremur en vegna þess að þeir deili sömu heimssýn og Bandaríkin. Karimov forseti, hefur reitt sig á það undanfarin ár að hafa frjálsar hendur um það hvort hann ráðist í efnahags- og lýðræðisumbætur eða bæti mannréttindi í landinu, í skiptum fyrir að þóknast skammtímahernaðarhagsmunum Bandaríkjanna.

Bandarísk stjórnvöld ættu að gera sér grein fyrir að þau eru með þessu að fórna minni hagsmunum fyrir meiri; grafa undan því sem ætti að vera kjarninn í utanríkisstefnu þeirra – virðing fyrir mannréttindum.

Í fyrstu voru viðbrögð Bandaríkjanna fremur lítil vegna óeirðanna í Úsbekistan, en síðasta mánudag þegar frekari upplýsingar komu í ljós um blóðbaðið, fordæmdu þau stjórnvöld landsins fyrir að beita hernum gegn óvopnuðum borgurum. Condoleezza Rice sagði við Karimov að átökin sýndu hversu mikil þörf væri á því, að gerðar væru lýðræðislegar umbætur í landinu.

Hvort Rice muni fylgja orðum sínum eftir og beita Karimov þrýstingi, á hins vegar eftir að koma í ljós. Aftur á móti er engin hætta á því að kínversk stjórnvöld muni beita sér fyrir því – án þess þó að vilja bera bandarísk stjórnvöld saman við þau kínversku. En í yfirlýsingu sem barst frá Peking var lýst yfir stuðningi við Karimov og að reglu hefði aftur verið komið á í landinu – greinilega ánægð með að atburðirnir á Torgi hins himneska friðar hafi verið endurteknir, núna í Úsbekistan.