Sextíu árum síðar

Á sama tíma og þeirra tímamóta er minnst víðast hvar í Evrópu að sextíu ár eru liðin frá lokum seinni heimstyrjaldar í álfunni standa fjölmargir Evrópubúar frammi fyrir kosningum um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem af mörgum er talin ganga fremur langt í sameiningarátt.

Þess er minnst víðast hvar í Evrópu um þessar mundir að sextíu ár eru liðin síðan seinni heimstyrjöldinni lauk í álfunni. Þótt erfitt sé fyrir þær kynslóðir sem ekki upplifðu þessa tíma að gera sér í hugarlund hvernig það sé að búa við slíkt óvissuástand og hörmungar er það eflaust nauðsynlegt að minna fólk í dag á að það eru mikil forréttindi að búa við frið. Þúsundir manna söfnuðust saman á hinum ýmsu stöðum í Evrópu af þessu tilefni, þar á meðal á Dam Torv í Amsterdam.

Á sama tíma og þessara tímamóta er minnst eru fyrirhugaðar kosningar um stjórnarskrá Evrópusambandsins í Hollandi sem og víðar á næstu mánuðum. Þær 12,5 milljónir Hollendinga sem kosningarétt hafa kjósa um stjórnarskrána þann 1. júní nk. og er það í fyrsta skipti sem Hollendingar fá að kjósa um málefni Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrstu kannanir sýna meirihluti Hollendinga er henni ekki samþykkur.

Þótt það teljist vart til tíðinda að Danir, Bretar eða jafnvel Frakkar setji sig upp á móti ýmsum málefnum Evrópusambandsins er hið sama ekki hægt að segja um Hollendinga. Holland, ásamt hinum Benelux-löndunum Belgíu og Luxemborg, hefur verið með í Evrópusamstarfinu frá byrjun og ávallt viljað ganga einna lengst í sameiningarátt. Nú er tíðin hins vegar önnur og því voru ekki allir á eitt sáttir við minningarathöfnina sem töldu að stjórnmálamenn væru að selja fólki stjórnarskrána á sama tíma og þeir ræddu mikilvægi friðar á 21. öld. „Það sem Hitler reyndi að gera fyrir sextíu árum er að gerast í dag með stjórnarskránni. Það er að verða til eitt stórt ríki,“ hafði einn Hollendingurinn að orði við danska blaðið Politiken.

Hollendingar sem á 9. áratugnum og framan af þeim 10. voru ofur-Evrópusinnaðir taka öllu með varúð í dag sem frá Brussel kemur. Hefðu Hollendingar þurft að kjósa um stjórnarskrá Evrópusambandsins fyrir tíu til fimmtán árum síðan hefðu 75 prósent þeirra verið henni fylgjandi. Sumum finnst samruninn ganga helst til hratt og eiga erfitt með að skilja af hverju hafa þurfi sífellt fleiri þjóðir með. Þá telja aðrir að stjórnarskráin sé ekki gerð fyrir fólkið. Þá má ekki gleyma þeim sem eru á móti inngöngu Tyrklands í Evrópusambandið, en upp úr hefur soðið á milli Hollendinga og innflytjenda af múslimskum uppruna á undanförnum mánuðum, ekki síst í kjölfar morðsins á kvikmyndaleikstjóranum Theo van Gogh.

En mitt í allri þessari umræðu um stjórnarskrána vill oft eitt mikilvægt atriði gleymast. Eftir því sem lengra líður og fleiri kynslóðir vaxa upp alls ókunnugar stríðshörmungum í hinni friðsælu Evrópu fer minna fyrir hinum upprunalega megintilgangi Evrópusamstarfsins, það er að tryggja frið í álfunni. Með stofnun Kola- og Stálbandalagsins rétt eftir 1950 var ætlunin að samþætta þungaiðnað Evrópuþjóðanna svo erfitt yrði að hefja stríðsrekstur. Dæmi hver sem vill, en það er ekki annað að sjá en að þessi tilætlun hafi tekist með ágætum. Mér eru allavega mjög minnistæð orð gamals Breta er sat við hlið mér á bekk, þar sem ég beið yfir nótt á flugvelli einum í London fyrir fáeinum árum. Maður þessi, fæddur og uppalinn í borginni, hafði ekki farið varhluta af hörmungum stríðsins. Þegar hann tjáði sig um Evrópusambandið sagði hann: „Það getur vel verið að það sé farið að ganga of langt. En það sem ég veit er að það hefur ekki orðið stríð frá stofnun þess og það nægir mér.“

Heimildir:

Politiken

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)