Stigið á sveif

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir hinu árlega átaki “Hjólað í vinnuna” í þriðja sinn núna í maímánuði og hvetur fólk til að leggja bílnum og taka fram hjólið til að ferðast í og úr vinnu. Átakið er einn angi af þeim meiði sem hefur valdið því að reiðhjól sækja nokkuð hratt fram sem ferðamáti um heim allan. Ástæðurnar eru fjölmargar, en afleiðingarnar á alla vegu jákvæðar.

Undanfarin ár virðist sú ánægjulega þróun hafa átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu og öðrum þéttbýlisstöðum á landinu að reiðhjólið virðist sækja fram sem samgöngumáti. Um þessar mundir stendur yfir hin árlega fyrirtækjakeppni “Hjólað í vinnuna” sem ÍSÍ stendur fyrir í þriðja sinn, dagana 2. til 13. maí. Þáttaka er sú mesta hingað til og taka tæplega 300 fyrirtæki þátt og alls um 470 lið. Markmið átaksins er að benda almenningi á hina ýmsu kosti sem felast í því að nota reiðhjólið sem samgöngumáta til og frá vinnu, eða hvern þann samgöngumáta sem knúinn er af eigin afli viðkomandi. Afleiðingin er sú að þessa dagana má sjá fjöldann allan af fólki hjóla, ganga, eða renna sér á línuskautum á morgnana og kvöldin á leið í og úr vinnu.

Hlutur reiðhjólsins sem samgöngumáti er hins vegar að öllu jöfnu mjög rýr hér á landi, enda aðstæður að vetri til frekar óvilhallar reiðhjólinu og samkeppnishæfni í hreyfanleika í flestum tilfellum mun minni en einkabílsins, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna á ferðavenjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu þá virðist hlutur reiðhjólsins vera innan við 1% af öllum ferðum.

En vitund almennings um mikilvægi eigin heilsu, hugsanlega hlýrra veðurfar, batnandi stígakerfi, aukin bílaumferð og eftirspurn eftir bílstæðum, aukin gjaldtaka af bílastæðum og jafnvel umferðarmannvirkjum, kostnaður við rekstur einkabíls og meðvitund um neikvæðar umhverfislegar afleiðingar af brennslu jarðefnaeldsneytis eru allt þættir sem mynda hvata til að velja reiðhjólið og aðra samgöngumáta fremur en bílinn í þéttbýli. Það eru síðan ekki síst merkar tækninýjungar við hönnun og smíði reiðhjóla, s.s. fullkomnar gírskiptingar, demparar og negld dekk, auk framfara í heppilegum hlífðarfatnaði, sem brjóta niður ýmsar hindranir gegn hjólreiðum í mishæðóttu landslagi við erfiðar veðurfarslegar aðstæður líkt og við eigum að venjast hér á landi. Allt ætti þetta að stuðla að auknum hlut hjólreiða á komandi árum.

Ef sú verður þróunin þá er í hún takti við þróunina víða erlendis, en reiðhjólanotkun virðist fara heldur vaxandi um heim allan, einkum í Evrópu. Sé dæmi tekið frá Stokkhólmi í Svíþjóð þá hefur bílaumferð farið minnkandi á síðustu árum þrátt fyrir nokkra fjölgun íbúa og þá staðreynd að vera ein auðugasta borg heims. Helstu orsakirnar eru metnaðarfullar aðgerðir til að bæta samkeppnishæfni annarra samgöngumáta með ýmsum hætti og í ár var tekið það umdeilda skref að taka gjald af bílaumferð í miðborg Stokkhólms.

En vöxt í notkun reiðhjóla í Stokkhólmi sem og vel flestum öðrum borgum Evrópu má að miklu leyti rekja til þess að á síðustu árum hefur verið gert mikið átak í því að bæta aðstæður hjólandi með fýsískum aðgerðum, með hjólabrautum og hjólareinum í kanti. Aukin öryggis- og þægindatilfinning sem það hefur í för með sér leggur sennilega mjög stórt lóð á vogarskálarnar. Internetið hefur einnig verið vel nýtt til að koma upplýsingum um hjólaleiðir og tengingar við almenningssamgangnakerfi til notendanna.

Í dag eru framleidd u.þ.b. tvö og hálft reiðhjól á hvern bíl, rúmlega 100 milljón árið 2002 , en þetta hlutfall var næstum jafnt í kring um 1965. Um helmingur allra reiðhjóla heimsins eru framleidd í Kína, enda hefur vöxtur borgarsvæða í þeim heimshluta verið geysimikill síðustu árin. Kínverjum, sem og heiminum öllum, til mikillar lukku þá hefur hjólamenning verið til staðar þar mjög lengi og verður að öllum líkindum enn, þrátt fyrir batnandi efnahag og mikla fjölgun bíla.

Flestir þeir sem starfa á sviði borgarsamgangna í iðnríkjunum sem og annars staðar í heiminum virðast líta á þessa þróun mjög jákvæðum augum, enda virðist það verið að renna upp fyrir mönnum hægt og bítandi að bílaháð samgöngukerfi í stórum borgum er hætt við verulegri óskilvirkni, einkum m.t.t. vangetu þeirra til að koma fólki frá A til B á háannatímum án verulegra tafa. Hvort reiðhjólið leysir vandann er erfitt að segja til um, en það gerir hann að öllum líkindum ekki verri.

Það er ólíklegt að á Íslandi verði hjólreiðamenning nokkurn tímann jafn blómleg og í Hollandi eða Danmörku. Það er einnig ólíklegt að aukin hjólreiðamenning verði til þess að bæta heilsufar þjóðarinnar nema litlu leyti, þar sem þeir sem mest þurfa á breyttum lífsstíl að halda munu væntanlega áfram keyra á bílum sínum allar sínar ferðir sama hversu aðlaðandi aðstæður eru til hjólreiða. Aukinn hlutur reiðhjólsins mun sennilega heldur ekki breyta mikið þeirri líklegu þróun að umferð og umferðartafir aukist enn á höfuðborgarsvæðinu í náinni framtíð, né verða til þess að minnka loftmengun verulega. En ávinningur af hverjum þeim sem ákveður að skipta frá bíl yfir í reiðhjól er samt sem áður mikill. Við það sparast um 4 – 5 bílastæði innan borgarinnar. Það munar um minna.

Aðlaðandi og örugg umgjörð utan um hjólreiðar ásamt öflugu almenningssamgangnakerfi ætti einnig að geta hvatt fjölskyldur til að draga úr fjárfestingum í bílaflota heimilanna, enda er samanlagður fjármagnskostnaður og rekstrarkostnaður af einum bíl á ári eitthvað sem margar fjölskyldur vilja eflaust gjarnan geta sparað. Nóg eru um önnur útgjöld og skuldir.

Það mælir því allt með að við tökum vel á móti framtaki ÍSÍ þessa dagana og stígum á sveif með þeim. Snjórinn er farinn og nú duga engar afsakanir: Hjólum!

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.