Kynlífsfíklar og villimenn

Loksins já loksins er Ísland virkilega komið á landakortið hjá kananum. Litla landinu okkar hefur tekist að fá umfjöllun í einum vinsælasta spjallþætti heims, þar sem ein dáðasta sjónvarpskona heims Oprah Winfrey stígur á stokk og tekur á hinum ýmsu málum. Verður þátturinn um Ísland og íslenskar konur sýndur hér á landi í kvöld.

Loksins já loksins er Ísland virkilega komið á landakortið hjá kananum. Litla landinu okkar hefur tekist að fá umfjöllun í einum vinsælasta spjallþætti heims, þar sem ein dáðasta sjónvarpskona heims Oprah Winfrey stígur á stokk og tekur á hinum ýmsu málum. Í þessum þáttum sínum ferðast hún um heiminn og talar við konur frá hinum ýmsu löndum og gefur þeim tækifæri á að kynna fyrir fólki hvernig það sé að vera kona í því landi sem þær búa í og hvaða menningarheimur liggur að baki þjóðar þeirra. Verður þátturinn um Ísland og íslenskar konur sýndur hér á landi í kvöld.

Ég myndi nú telja þetta nokkuð gott tækifæri fyrir okkur Íslendinga að kynna land og þjóð fyrir heiminum, því ekkert finnst okkur skemmtilegra en að grobba okkur af því hvað við séum nú frábær þjóð og hvað okkur finnst mikið til okkar koma þrátt fyrir fámennið. Hinn dæmigerði íslendingur fyllist þjóðarstolti við það að segja öðrum frá upprunanum og hvað landið hans hafi það fallegasta landslag sem fyrir finnist. Er landslagið svo fallegt í augum hans að hann lýsir því sem himnaríki. Og ekki er það bara landslagið sem er fallegt heldur er fólkið að sjálfsögðu líka alveg guðdómlegt og menningin líka stór og mikil. Í fáum orðum sagt þá erum við frábærasta þjóð í heimi!.

Þrátt fyrir að það megi gagnrýna verulega þetta smáborgaralega minnimáttarvæl sem okkur er svo tamt að nota í tali við útlendinga þá er ekki þar með sagt að við þurfum að taka öfgarnar í hina áttina. Það er nefnilega alveg ljóst að lítið jákvætt var í umræddum þætti og að öll kynning á landi og þjóð hafi verulega misfarist í gula sófanum hjá henni Opruh. Í fljótu bragði virðist eina landkynningin sem hafi átt sér stað það verið sú að við íslendingar séum bölvaðir rónar, kvenfólkið okkar sé lauslátt og sofi hjá hverjum sem er. Jafnframt að okkur finnist ekkert skemmtilegra en að detta í það, stunda kynlíf og borða viðbjóðslegan mat.

Sem kona verð ég að segja það að þessi kynning á konum á Íslandi hafi nú bara verið svolítið sorgleg, þrátt fyrir tilraun til að láta okkur hljóma frjálslegar, sjálfstæðar, menntaðar og ákveðnar. Hafi skilaboðin frekar verið þau að við séum sjúkar, og þá helst í áfengi og kynlíf. Vel getur verið að þetta viðtal hafi verið látið hljóma öðruvísi en það var með ýmsum tæknilegum aðferðum, en þrátt fyrir það held ég að við ættum aðeins að staldra við og hugsa um það hvernig við viljum kynna okkur sjálfar og okkar menningu fyrir öðrum., Við verðum einfaldlega að vera vissar um að sú kynning geri okkur stoltar af því hvaðan við komum en ekki að við þurfum að skammast okkar og afsaka okkur á því.

Latest posts by Ásta Lára Jónsdóttir (see all)