Völd, áhrif og lýðræðislegt umboð

Völd og áhrif Framsóknarflokksins í íslensku samfélagi eru ekki í nokkru samræmi við það takmarkaða lýðræðislega umboð sem flokkurinn hefur frá kjósendum. Deiglan spyr í lok framsóknarviku hvort eðlilegt sé að slíkur smáflokkur fari með forystu í ríkisstjórn og hvort stjórnarsamstarfið sé orðið til trafala fyrir helstu stefnumál Sjálfstæðisflokksins.

Eins og lesendur hafa tekið eftir þá hefur undanfarin vika á Deiglunni verið helguð Framsóknarflokknum. Þar hafa Deiglupennar tæpt á ýmsum málum og þeirri stefnu sem framsóknarmenn hafa staðið fyrir á undanförnum árum og áratugum. Óhætt er að segja að þemavikan hafi vakið athygli víða og ekki síst meðal framsóknarmanna sjálfra. En af hverju ákvað Deiglan að fjalla um Framsóknarflokkinn með þessum hætti?

Framsóknarflokkurinn fer nú með forsæti í ríkisstjórn og forræði á veigamiklum þáttum landsmála, þótt einungis einn af hverjum sex kjósendum í síðustu alþingiskosningum hafi treyst flokknum til þeirra verka. Það er því eðlilegt að sjónum sé öðru hvoru beint á því fyrir hvað þessi flokkur stendur. Stefna Framsóknarflokksins, eða stefnuleysi, virðist að mestu leyti byggð á þeirri hugmyndafræði sem Jónas frá Hriflu predikaði á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hugmyndafræði, samvinnuhreyfinga með landbúnað sem undirstöðu atvinnuveg þjóðarinnar, sem sagan hefur fyrir löngu síðan dæmt úrelta.

Þar að auki biður flokkurinn einfaldlega um að skotið sé á hann á léttu nótunum. Framsóknarmenn eiga erfitt með að taka gríni og vorkenna engum meira en sjálfum sér. Þeir vekja oft óskipta athygli meðal þjóðarinnar fyrir klaufalegar og skondnar innanflokksdeilur og eru þekktir fyrir að veita sínum mönnum bitling.

Ekki má gleyma því að Framsóknarflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í 29 ár af síðustu 34 og svíður mörgum að flokkur sem nýtur hylli sjötta hvers kjósanda hafi svo mikil völd. Stafar það væntanlega af því að þar sem flokkinn skortir grundvallarhugmyndafræði er hann til í samstarf með hverjum sem er, sama hvort um sé að ræða vinstri sinnaða haftastjórn eða hægri sinnaða frjálshyggjustjórn.

Að þessu sögðu er rétt að taka fram að Deiglan aðhyllist ekki Framsóknareinelti heldur þótti rétt að sameina í sérstaka þemaviku pistlaröð um Framsóknarflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn er líklega sá flokkur sem Deiglan hefur gagnrýnt hvað harðast undanfarin misseri og samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn því setið á hakanum. Má þar nefna gagnrýni á þáverandi forsætisráðherra í fjölmiðlamálinu, gagnrýni á fjármálaráðherra fyrir ríkisábyrgð til handa Íslenskri erfðagreiningu, gagnrýni á dómsmálaráðherra í útlendingamálinu og nú síðast harða gagnrýni á samgönguráðherra vegna frumvarps til breytinga á fjarskiptalögum. Þar að auki hafa fleiri mál sem Sjálfstæðismenn hafa staðið fyrir verið gagnrýnd af Deiglupennum en of langt mál væri að tíunda þau öll hér.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fagnaði tíu ára starfsafmæli sínu í lok apríl, eins og fjallað var um í ritstjórnarpistli hér á Deiglunni. Þessi ríkisstjórn hefur staðið að mörgum þjóðþrifamálum og aukið frelsi og velmegun í þjóðfélaginu meira en áður hefur verið gert. Mikilvægir þættir í því samhengi eru einkavæðing ríkisfyrirtækja, lækkun skatta og aukið frelsi í viðskiptum og á fjármagnsmarkaði meðal annars með því að tryggja framgöngu EES samningsins.

Frá upphafi þriðja kjörtímabils ríkisstjórnarinnar fór hins vegar að halla undan fæti og hvert ógæfumálið rak annað. Fjölmiðlafrumvarpið, ,Sparisjóðafrumvarpið, útlendingafrumvarpið og nú síðast breytingar á fjarskiptalögum eru meðal þeirra mála sem hafa verið vægast sagt umdeild. Framsóknarflokkurinn hefur hindrað lækkun virðisaukaskatts, nauðsynlegar umbætur á Ríkisútvarpinu og löngu tímabæra uppstokkun í landbúnaðarmálum og í heilbrigðiskerfinu. Þá hafa framsóknarmenn komið í veg fyrir að Síminn væri seldur hæstbjóðanda og að ríkið hætti samkeppni við einkaaðila á fasteignalánamarkaði, svo fátt eitt sé nefnt. Í raun má segja að Framsóknarflokkurinn sé farinn að styðja öll vond mál sjálfstæðismanna en sé á móti öllum góðum málum sem frá samstarfsflokknum koma.

Ríkisstjórnin virðist komin að mörgu leyti á ákveðinn hugmyndafræðilegan endapunkt og þreytu er farið að gæta í samstarfinu. Núverandi forsætisráðherra sem situr í umboði um 17% þjóðarinnar á enn eftir að verða dæmdur af verkum sínum en hefur hingað til helst vakið athygli fyrir að agnúast út í Morgunblaðið fyrir að áramótaávarp hans hafi ekki verið birt á miðopnu. Framsóknarmaður?

Grundvallarbreytinga er þörf í mikilvægum landsmálum sem aldrei mun nást samstaða um meðan Framsóknarflokkurinn er í forsæti í ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn hefur þjónað sínu hlutverki í núverandi stjórnarsamstarfi en ríkisstjórnin er langtum veikari undir hans forystu en forystu Sjálfstæðisflokksins. Það er því ekki nema eðlilegt að margir sjálfstæðismenn spyrji sig að því hvort heppilegt sé fyrir flokkinn að halda áfram samstarfinu þegar æ erfiðara verður að koma góðum málum í gegn.

Völd og áhrif Framsóknarflokksins í íslensku samfélagi eru ekki í nokkru samræmi við það takmarkaða lýðræðislega umboð sem flokkurinn hefur frá kjósendum. Slíkur smáflokkur getur ekki og á ekki að hafa forystu í ríkisstjórn. Áframhaldandi stjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn mun að óbreyttu koma niður á Sjálfstæðisflokknum og – það sem meira máli skiptir – þeim stefnumálum sem hann stendur fyrir.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)