xB fyrir bitling

Síðasta sumar kjaftaði einhver lágt settur gjaldkeri í Framsóknarflokknum af sér. Hún sagði frá ‘borgað fyrir bitling’ kerfinu.

Framsóknarskraddarinn saumaði nýjan einkennisbúning á þingmenn flokksins í síðustu viku. Búningurinn var skreyttur eignum þingmanna og var kynntur við mikla viðhöfn að viðstöddum flestum fjölmiðlum landsins.

Nýju fötin Framsóknar vöktu athygli en engir voru ánægðari en þingmennirnir sjálfir. Það var eins og þeir hefðu hvítþvegið sig af öllum Framsóknarsyndunum. Þeir montuðu sig af því að eiga sem minnst og það að eiga í hlutabréf í fyrirtækjum var látið líta út fyrir að vera ákaflega vont. En það sáu flestir í gegnum nýju fötin Framsóknar, enda ákaflega efnislítil. Eignalisti þingmanna segir ekki neitt, alls ekki neitt. Enn síður þegar umræðan er á þeim villigötum að það sé slæmt að þingmenn eigi einhverjar eignir að ráði.

Þetta mál er dæmigert fyrir Framsóknarflokkinn. Það hentaði þeim á þessum tímapunkti að taka þetta mál fyrir. Það hentaði þar sem umræðan í þjóðfélaginu hefur snúist um eignatengsl og venslatengsl stjórnmálamanna í tengslum við einkavæðingu Símans. Framsóknarmenn birtu þær upplýsingar sem hentaði þeim, en aðrar ekki.

Við fengum t.a.m. ekkert að vita um flokkssjóðina? Hina “digru” sjóði Framsóknar sem flokksgæðingar eru skyldaðir til að greiða í. Síðasta sumar kjaftaði einhver lágtsettur gjaldkeri í Framsóknarflokknum af sér. Hún sagði frá ‘borgað fyrir bitling’ kerfinu. Viðskiptaráðherra reyndi að sverja allan vafa af þessu en tókst ekki betur en svo að hún viðurkenndi í fréttatíma á Rás 2 að kerfið virkaði þannig að því betri stöðu sem flokkurinn hefur komið manni í, því meira á sá hinn sami að greiða til flokksins. Þessi ummæli ráðherra sluppu á einhvern óskiljanlegan máta í gegnum þjóðfélagsumræðuna og án þess að neinum fjölmiðli þætti ástæða til að kanna málið gaumgæfilega.

Þetta kerfi verður sem sagt til þess að flokkurinn kappkostar við að veita bitlinga um allan bæ. Stöðuveitingar, embætti og hvað það eina sem kemur mönnum í álnir, flokkurinn græðir. Þetta kerfi kennir líka Framsóknarmönnum að þeir eigi að umbuna fyrir stuðning. Flokkurinn þarf að greiða fyrir greiða. Er það kannski af þessum orsökum sem Framsóknarflokkurinn ákvað að sýna sig með því eingöngu að birta lista yfir eignir þingmanna í stað þess að opinbera það sem skiptir mestu máli – bókhald flokksins?

En hvað með vina- og ættartengsl? Hefðu þeir ekki þurft að opinbera þau líka? Það vita reyndar allir að Finnur er frammari par exelans, en hvað með aðra menn í viðskiptalífinu? S-hópurinn fékk Búnaðarbankann á góðu verði. Það góðu að Ríkisendurskoðun fannst rétt að setja spurningarmerki við verðmiðann. Það er því ekki alveg rétt hjá viðskiptaráðherra að einungis hafi verið gerðar smávægilegar athugasemdir við einkavæðingu Búnaðarbankans af Ríkisendurskoðun.

Athugasemd við verðmiðann hlýtur að teljast stórvæg og auk þess var gerð athugasemd við greiðslukjörin. Ríkið lánaði fyrir kaupverðinu því að frammararnir gátu ekki reitt fram fé til að staðgreiða. Þá var bara að bíða eftir því að bankinn hækkaði aðeins í verði og greiða ríkinu þá. Eins konar afleiðuviðskipti þó án alls kostnaðar og í raun áhættu fyrir kaupandann. Frammarar fengu svo líka að kaupa stóran hlut í VÍS af Landsbankanum á sannkölluðu tombóluverði, eins og Sverrir Hermannsson hefur margsinnis bent á í greinum í Morgunblaðinu. Raunverð var hugsanlega þrefalt til fjórfalt hærra en kaupverð flokksgæðinga Framsóknarflokksins.

Hvað ætli þessir menn sem Framsóknarflokkurinn beinlínis gerði að stórefnamönnum með einu, kannski tveimur handtökum, greiði á móti til flokksins? Það er allavega ekki óeðlilegt að draga þá ályktun að þeir styrki kosningasjóðina duglega. Eða höfðu þeir kannski gert það í langan tíma og því orðið tímabært að veita þeim bitling fyrir flokkshollustu? Bitlingurinn var með stóru Bi Búnaðarbankans og í kaupbæti fylgdi tryggingafélag á tombóluverði.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)