Einfalt á einum stað í Og einum?

Og Vodafone auglýsir nú grimmt nýja þjónustu, „Og 1″, og vísar þá væntanlega til þægindanna við að vera með allt á einum stað. En hvers vegna ætli það sé sem fyrirtæki leggja mikið upp úr því að auglýsa einfaldar gjaldskrár, en miklu minna úr því að bjóða upp á þær?

Hvort sem um er að ræða símafyrirtæki, flugfélög, tannlækna eða hamborgarabúllur, virðast margir aðilar sem selja vörur eða þjónustu hafa komist að þeirri niðurstöðu að flóknar, óaðgengilegar og illskiljanlegar verðskrár þjóni hagsmunum þeirra.

Þetta er að mörgu leyti skiljanlegt. Söluaðilar vita sem er að þegar neytandinn er kominn á staðinn og búið er með mikilli fyrirhöfn að komast að niðurstöðu um hvað tiltekinn hlutur kostar, er ólíklegt að hann hætti við þótt verðið hækki aðeins.

Svo dæmi sé tekið auglýsir hamborgarastaður hér í bæ verð á tiltekinni hamborgaramáltíð stórum stöfum. Þegar hún er pöntuð er spurt „viltu með osti“, sem flestir vilja. Ostsneiðin kostar svo hátt í hundrað krónur til viðbótar, en fáir standa í því að breyta pöntuninni sinni eða biðja um að bakfæra kortafærslu þegar það kemur í ljós.

Flugfélög eru líka þekkt fyrir að bjóða upp á flóknar verðskrár og einhvernvegin virkar alltaf eins og aðeins dýrasta fargjaldið standi til boða, einmitt á þeim tíma sem maður þarf að ferðast. Þegar bókað er þarf líka oft að fylla út nokkrar síður af upplýsingum áður en endanlegt verð á flugfargjaldinu kemur fram.

Verðskrá tannlækna sem á að liggja frammi á tanlæknastofum gerir það í langfæstum tilvikum. Til skamms tíma afhenti tannlæknir pistlahöfundar jafnvel reikninga sem ekki innihéldu neinar útskýringar um hvaða þjónusta hefði verið innt af hendi. Á reikningunum stóð einfaldlega 3 x A31, 2 x A79, o.s.frv. Þetta þýddi kannski að hann hefði rukkað fyrir 45 mínútna skoðun og tvær röntgenmyndir en ómögulegt var að vita það nema spyrja að því, sem pistlahöfundur gerði sér reyndar far um að gera. Nú eru reikningarnir greinarbetri, hvort sem það er vegna þess að tannsi var orðinn þreyttur á að útskýra þá gömlu eða af öðrum sökum.

Slíkar verðskrár eru þó neytendum ekki sérstaklega að skapi enda gera þær mun kostnaðarsamara fyrir neytendur að átta sig á því hvar þeir fá bestu kaupin. Fyrir vikið er fyrirtækjum mikið kappsmál að sannfæra neytendur um að þeirra gjaldskrár séu mjög einfaldar og gagnsæjar. Auglýsingaherferðin fyrir þjónustuleið Og Vodafone, „Og 1“, er ágætlega til þess fallin að sannfæra neytendur um að sú sé staðan hjá því ágæta fyrirtæki.

En pistlahöfundur hefur ásamt fjölskyldu sinni verið í viðskiptum við Og Vodafone í talsverðan tíma og ekki þótt reikningarnir sérstaklega einfaldir. Þegar við skötuhjúin færðum fyrst landlínuna til Og Vodafone og sameinuðum svo okkar viðskipti var okkur lofað gulli, grænum skógum, og einfaldari símreikningum. Það varð ekki raunin. Reikningarnir hafa reyndar einfaldast örlítið með tímanum en enn er enginn hægðarleikur að gera sér grein fyrir hvort þeir séu réttir. Og því miður virðast starfsmenn þjónustuversins ekki vera með svörin á jafnreiðum höndum og tannsi forðum.

Það er því vonandi að þessi nýja þjónustuleið snúist ekki bara um að auglýsa einfaldar gjaldskrár, heldur líka um að bjóða upp á þær.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)