Frelsi og farsæld

Í gær var liðinn áratugur frá því að núverandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst. Það sannast á verkum þessarar ríkisstjórnar að þá farnast heildinni best þegar einstaklingunum er gefið frelsi til að finna kröftum sínum viðnám.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Bessastöðum 23. apríl 1995.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur nú setið samfellt í tíu ár. Ekki verður um það deilt að undanfarinn áratugur hefur verið eitt mesta framfaraskeið í sögu íslensku þjóðarinnar. Aðeins Viðreisnarárin á sjöunda áratug síðustu aldar standast einhvern samanburð. Það er auðvitað sigur frjálshyggjunnar að þessi miklu velmegunarskeið skuli verða í framhaldi af því að höftum er aflétt og frelsi einstaklingsins fær að njóta sín.

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð 23. apríl 1995 hafði hún afar sterkan þingmeirihluta að baki sér. Raunar voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur tveir stærstu flokkar landsins að loknum kosningunum 1995 með samtals 40 þingmenn. Frá upphafi var lykilorðið í þessu stjórnarsamstarfi stöðugleiki. Þótt Viðeyjarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks frá 1991 til 1995 hafi um margt verið farsæl þá skorti þá ríkisstjórn vissan pólitískan stöðugleika.

Stöðugleiki stjórnarsamstarfsins sem hófst fyrir réttum áratug grundvallaðist á rúmum þingmeirihluta, hugmyndafræðilegri samstöðu í veigamiklum málum, friði innan beggja flokka og síðast en ekki síst óumdeildri stöðu hvors formanns flokkanna fyrir sig. Þetta var umhverfi til að koma góðum málum í gegn.

Löngu tímabærri uppstokkun á íslenskum fjármálamarkaði var hrundið í framkvæmd, skattar voru lækkaðir á fyrirtæki og einkavæðing ríkisfyrirtækja fór á fullt. Árangur þessara aðgerða er í senn áþreifanlegur og óumdeildur, ef frá eru taldir þeir sem hreinlega eru á móti velmegun almennings og minni áhrifum ríkisvaldsins.

Ein meginforsendan fyrir þeim efnahagslega stöðugleika sem ríkt hefur undanfarinn áratug er sterk og traust stjórn ríkisfjármála. Íslendingar höfðu áður gengið í gegnum tímabil þegar vel áraði, en þá fór stjórn ríkisfjármála jafnan úr böndunum með afar slæmum afleiðingum, stundum krepputíð. Aðhald og ráðdeild í rekstri ríkissjóðs á undanförnum áratug, og rúmlega það, kom þannig í veg fyrir að ágóði hins mikla efnahagsuppgangs fyki út í veður og vind, eins og oft hafði því miður orðið raunin.

Ríkissjóður hefur á undanförnum árum greitt niður skuldir í áður óþekktum stíl og búið hefur verið í haginn áratugi fram í tímann með því að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs. Þrátt fyrir að mörgum tugum milljarða hafi þannig verið með markvissum hætti varið til þess að búa í haginn fyrir framtíðina, hefur svigrúm ríkissjóðs samt sem áður verið slíkt, að nýlega voru lögfestar mestu skattalækkanir Íslandssögunnar.

Vegna fyrirhyggju í ríkisfjármálum greiðir ríkið nú 11 milljörðum lægri upphæð í vexti í hverju einasta ári, sem eru 44 milljarðar á hverju einasta kjörtímabili. Í raun má segja, að ágóði ríkissjóðs vegna þessa aðhalds jafngildi því, að hægt sé að selja eitt stykki Landssíma Íslands á hverju einasta kjörtímabili!

Grundvallaruppstokkun á íslensku fjármálaumhverfi, einkavæðing stórra ríkisfyrirtækja, umfangsmiklar skattalækkanir og niðurgreiðsla á skuldum ríkissjóðs eru allt verkefni sem erfitt hefði verið að framkvæma ef hver höndin hefði verið uppi á móti annarri innan stjórnarflokkanna. Samstaða, sannfæring, einurð og agi tryggðu framgöngu þessara brýnu mála, sem voru síður en svo óumdeild fyrir tíu árum síðan, t.d. einkavæðing ríkisbankanna.

En því miður er jafn auðvelt fyrir sterkan og agaðan þingmeirihluta að koma slæmum málum í gegn og góðum. Þannig samþykkti stjórnarmeirihlutinn breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum, s.k. fjölmiðlafrumvarp, sem lög frá Alþingi fyrir tæpu ári. Þingmeirihlutinn skellti skollaeyrum við þeim sem vöruðu við þessari lagasetningu og töldu hana hreinlega hættulega íslensku fjölmiðlaumhverfi. Málið var engu að síður keyrt í gegn og eftirleikinn þekkja allir.

Hér er fjölmiðlafrumvarpið tekið sem dæmi um það hversu tvíbent það getur verið að þingmeirihlutinn sé samhentur og einarður í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Þetta er þeim mun meira vandamál eftir því sem færri koma að ákvörðunum. Þótt hugtakið umræðustjórnmál sé innihaldsrýrt, þá er það engu betra að ákvarðanir séu teknar umræðulaust. Og þótt ekki sé til fyrirmyndar að vera pólitískur vindhani, þá verða menn engu að síður að hafa kjark til að segja sína skoðun, þótt hún eigi ekki upp á pallborðið hjá flokksforystunni. Stefnufesta er einungis dyggð ef stefnan er rétt.

Í ritstjórnarpistli á Deiglunni þann 26. apríl 2004 var fjölmiðlafrumvarpið kallað stílbrot og afturför af hálfu stjórnarflokkanna. Sagði þar m.a.: „Yfirvofandi lagasetning er mikið stílbrot á þeirri stefnu sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa markað frá árinu 1991. Hún lýsir ekki mikilli trú ráðamanna á hinn frjálsa markað. Hún er ekki til marks um að landsstjórnin sé í höndum manna sem hafa að leiðarljósi frelsi einstaklingsins til orðs og æðis. Það er dapurlegt að stjórnmálaflokkur, sem á síðustu árum hefur leyst íslenskt þjóðfélag úr viðjum hafta og ríkisafskipta, skuli standa á bak við slíka lagasetningu. […] Að mati Deiglunnar er hér stigið óheillavænlegt skref. Yfirvofandi lagasetning er í hróplegu ósamræmi við þá frelsisþróun sem einkennt hefur íslenskt samfélag á síðustu árum og afturför til þess tíma þegar stjórnmálamenn höfðu bein afskipti af íslensku atvinnulífi.“

En þrátt fyrir fjölmiðlafrumvarpið og fleiri vond mál sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir, er það skoðun Deiglunnar að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undanfarinn áratug hafi verið landi og þjóð til heilla. Þau spor sem stigin hafa verið í þá átt að færa völdin frá ríkinu til einstaklinganna hafa reynst heilladrjúg en að sama skapi hafa tilburðir á allra síðustu árum í þá veru að auka völd stjórnvalda verið til hins verra. Það sannast á verkum þessarar ríkisstjórnar að þá farnast heildinni best þegar einstaklingunum er gefið frelsi til að finna kröftum sínum viðnám. Það er enn einn sigur frjálshyggjunnar.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)