Mannréttindaákvæði stjórnarskrár í 10 ár

Pistlahöfundur sótti á dögunum ráðstefnu sem bar yfirskriftina “Mannréttindaákvæði stjórnarskrár í 10 ár – Áhrif og framtíðarsýn”. Nú eru 10 ár liðin síðan fram fóru gagngerar breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Því er tilefni til að staldra við og líta á hvernig og hvort ákvæðin hafa náð markmiðum sínum og þjónað þeim tilgangi að veita borgurum landsins aukna vernd.

Pistlahöfundur sótti á dögunum ráðstefnu á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands sem bar yfirskriftina “Mannréttindaákvæði stjórnarskrár í 10 ár – Áhrif og framtíðarsýn”. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar sætti gagngerum breytingum árið 1995. Nú þegar 10 ár eru liðin síðan þær breytingar fóru fram er tilefni til að staldra við og líta á hvernig og hvort ákvæðin hafa náð markmiðum sínum og þjónað þeim tilgangi að veita borgurum landsins aukna vernd. Þá er einnig sérstök ástæða til þessarar skoðunar nú, í ljósi þess að til stendur endurskoðun á öðrum köflum stjórnarskrárinnar.

Frummælendur á ráðstefnunni voru forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Björg Thorarensen, prófessor við Háskóla Íslands, Veli-Pekka Viljanen, prófessor við lagadeild Háskólans í Turku og Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður. Við pallborðið bættust svo til að taka þátt í umræðum, Sigurður Líndal, prófessor emeritus við Lagadeild Háskóla Íslands, Oddný Mjöll Arnardóttir, héraðsdómslögmaður og Hjördís Hákonardóttir, formaður Dómarafélags Íslands. Pistlahöfundur mun nú stikla á stóru yfir það sem stóð upp úr á ráðstefnunni og vangaveltur sínar í tengslum við það.

Breyttar aðstæður kalla á aukna umræðu

Eins og fram kom hér áðan er ástæða til þess í dag líta á mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar með tilliti til þess hvort þau hafa náð að þjóna markmiðum sínum, en einnig í ljósi hraðrar þróunar á ýmsum sviðum í þjóðfélaginu og hugsanlegrar ástæðu til að bæta inn og breyta réttindum með hliðsjón af þeirri þróun. Þetta mátti m.a. heyra á ávarpi forseta Íslands þar sem fram komu nokkur atriði sem hann taldi sérstaklega kalla á umræðu um mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þar ber helst að nefna aukna lýðræðisvitund borgaranna, sem kallar á beinni aðild þeirra að ákvarðanatökum; tæknivæðingarsamfélagið, sem hefur veruleg áhrif á stöðu fólks og kallar á aukna vernd; alþjóðavæðinguna, sem hefur áhrif á stöðu fólks auk þess sem endurskoða þarf aðhald að stjórnskipuninni í ljósi aukinna áhrifa alþjóðastofnanna; auknar kröfur til umhverfisverndar; aukin áhrif einstaklinga og einstaklingsframtaksins og loks fjölþjóðasamfélagið sem kallar á ákvæði um réttindi fólks sem hingað flyst til að geta varðveitt tungu sína og menningu.

Áhrif nýju mannréttindaákvæðanna til aukinnar verndar

Björg Thorarensen fjallaði á ráðstefnunni um áhrif nýju mannréttindaákvæðanna til aukinnar verndar mannréttinda í íslenskum rétti og dómaframkvæmd. Það sem pistlahöfundi fannst sérstaklega athyglisvert í umfjöllun Bjargar um einstaka ákvæði mannréttindakafla stjórnarskrárinnar voru þau verulegu áhrif sem jafnræðisregla 65. greinar virðist hafa haft. Áhrif reglunnar hafa í raun verið mun meiri en búist var við og hafa í Hæstarétti fallið fjölmargir dómar þar sem á hana er minnst síðan hún var sett. Reglan hefur aðallega komið til skoðunar hjá dómstólum samhliða öðrum réttindum og er umfjöllunin þá um jafnræði borgaranna til að njóta ákveðinna réttinda. Þá var áhugavert sem fram kom hjá Björgu að síðan reglan var sett virðast dómstólar meta afdráttarlausar en áður hvort löggjafinn byggir á lögmætum sjónarmiðum við skerðingu annarra réttinda. Lögmæt sjónarmið eru þá jafnræði og meðalhóf. Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu að þessum skilyrðum hafi verið fullnægt við takmörkun réttinda með lagasetningu verður mat löggjafans ekki endurskoðað frekar fyrir dómi.

Þáttur dómstóla í vernd mannréttinda

Að vissu leyti má því segja að með breytingunum á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995 hafi þáttur dómstóla í vernd mannréttinda breyst nokkuð. Þessu til stuðnings er hægt að benda á að í 7 dómum frá 1995 hafa lög verið talin efnislega andstæð mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar af dómstólum. Frá árunum 1943-1995 féllu aðeins 8 dómar með sambærilegri niðurstöðu.

Ákvæðin þjóna markmiðum sínum

Af ítarlegri umfjöllun Bjargar um túlkun og beitingu þeirra ákvæða sem komu ný eða breytt inn í stjórnarskránna árið 1995 er ljóst að ekki er hægt annað en að líta svo á að mannréttindaákvæðin hafi vel náð að þjóna sínum markmiðum til þessa. Þau markmið sem lagt var upp með við gerð ákvæðanna á sínum tíma voru í fyrsta lagi að efla og samræma mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, m.a. með hliðsjón af Mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafði verið hér á landi með lögum nr. 62/1994 og gekk efnislega mun lengra en þáverandi mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Í öðru lagi að færa ýmis ákvæði til nútímalegra horfs og í þriðja lagi að færa mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar til samræmis við alþjóðasamninga og auka vernd þeirra.

Er þörf á endurskoðun mannréttindakaflans?

Ýmislegt fleira áhugavert kom fram á ráðstefnunni, bæði frá frummælendum og í pallborðsumræðum. Þátttakendur í pallborði virtust ekki vera á einu máli um það hvort þörf væri á endurskoðun mannréttindakaflans í þeirri endurskoðun stjórnarskrárinnar sem nú stendur til. Björg hélt því t.d. fram að þó e.t.v. mætti skoða þann möguleika að bæta við ákvæðum væri ekki ráðlegt að hreyfa við þeim sem fyrir eru. Það gæti orðið til þess að eyðileggja fyrir þeirri þróun sem orðið hefur í túlkun og beitingu ákvæðanna síðan 1995, og hreinlega sett okkur aftur á byrjunarreit. Aðrir héldu því fram að leggja mætti meiri áherslu á ákvæði um vernd efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda í stjórnarskránni. Í gegnum tíðina hafa þau réttindi þótt erfið viðfangs þar sem gagnrýnisraddir hafa bent á hversu erfitt er að framfylgja þeim, m.a. þar sem ekki geti verið dómstólanna að leggja fjárhagslegar byrðar á ríkið til að tryggja borgurunum ákveðna félagslega stöðu. Oddný Mjöll benti á nokkra dóma Hæstaréttar því til stuðnings að þetta hefði verið afsannað. Vel sé hægt að veita efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum raunhæfa vernd og gæta þess að þeim sé framfylgt.

Höfum við afsalað okkur öllu valdi?

Sigurður Líndal setti í umræðunum fram nokkuð sérstaka en þó mjög áhugaverða skoðun. Hann lagði áherslu á það að ekki mætti ofgera réttindaupptalningu í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Réttindi geti snúist gegn sér þannig að með gagnályktun eigum við bara þau mannréttindi sem upp eru talin í stjórnarskránni en ekki önnur. Sigurður benti fundarmönnum á að allt vald kemur frá þjóðinni og spurði svo hvort okkur bæri að líta svo á, í ljósi allrar þessarar réttindaupptalningar, að við hefðum afsalað okkur öllu valdi og séum svo að endurheimta það með réttindaákvæðunum. Þá taldi Sigurður mun vænlegra ef við gengjum frekar út frá því að við ættum öll réttindi, sem svo væru takmörkuð í þágu almannahagsmuna með því að við tækjum á okkur ákveðnar skyldur. Þessi framsetning hans fékk þó ekki mikinn hljómgrunn hjá öðrum þátttakendum í pallborði, sem töldu vissulega ástæðu til að gæta þess að mannréttindi borgaranna væru vernduð með ákvæðum í stjórnarskrá.

Mikilvægt að vera vakandi í síbreytileika samfélagsins

Pistlahöfundur telur að í ljósi síbreytileika samfélagsins og þróunar á ýmsum sviðum tækni og menningar sé mikilvægt að við séum ávallt vakandi fyrir því hvort nauðsynlegt sé að gera breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar til að tryggja þá vernd sem við þurfum. Þó e.t.v. sé ekki ráðlegt að leggjast í endurskoðun þessara ákvæða á meðan þau eru enn í mótun og þróun í beitingu og túlkun er mikilvægt að ekki líði of langur tími þar til endurskoðun þeirra fer fram. Í raun ætti að ganga út frá því að þegar endurskoðun annarra hluta stjórnarskrárinnar er lokið sé rétt að hefja vinnu við endurskoðun á mannréttindakaflanum. Pistlahöfundur leggur að lokum áherslu á að menn geri sé grein fyrir því að endurskoðun þarf ekki endilega að þýða gagngerar eða róttækar breytingar kaflans. Það þarf þó að gæta þess, að tryggt sé, að þau réttindi sem borgunum eru nauðsynleg í nútíma þjóðfélagi, séu tryggð í stjórnarskrá og þar með sett skör hærra en almenn lög.

Hjördís Hákonardóttir virðist vera svipaðrar skoðunnar ef marka má ummæli hennar á ráðstefnunni, en þar benti hún á að nýju ákvæðin frá 1995 séu nokkuð lituð af því að við gerð þeirra hafi verið mjög sterk hefð meðal lögfræðinga til að líta á hráan lagatextann án tilliti til allra hugsjóna, ef kalla mætti svo. Þetta hafi hins vegar breyst og meira rúm sé í dag fyrir hugsjónir í túlkun og beitingu lagatexta. Nauðsynlegt sé að líta á núverandi ákvæði með hliðsjón af þessu og þeirri tregðu sem ríkti til að ganga lengra í að koma hugsjónunum í orð. Því sé allt í lagi að endurskoða fyrst aðra hluta stjórnarskrárinnar en nauðsynlegt sé að gæta þess að bíða ekki of lengi með endurskoðun mannréttindakaflans til að lenda ekki í sömu stöðu og menn voru í fyrir 1995, þ.e. hræðslu við að ganga of langt og þora ekki að gera nauðsynlegar breytingar.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)