Í nafni trúar

Þá eru enn aðrir páskar að baki með gómsætum páskaeggjum, kærkomnu fríi og fasískum hömlum á skemmtanahaldi og annarri starfsemi.

Þá eru enn aðrir páskar að baki. Þrátt fyrir að þeir eigi rót sína í píslagöngu Krists og upprisu hans þá þýðir þessi hátíð í hugum flestra kærkomið frí til að eyða með fjölskyldu sinni og vinum frekar en mikil trúarhátið. Ríkisvaldið er þessu hins vegar ekki sammála og telur að það þurfi sérstaklega að vernda helgihald og tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar.

Ríkið tryggir þetta hagsmunamat sitt með lögum um helgidagafrið nr. 32/1997. Þar kemur fram að á föstudeginum langa og páskadegi sé óheimilt að vera með skemmtanir, svo sem dansleiki eða einkasamkvæmi á opinberum skemmtistöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama skuli gilda um opinbera sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram. Á sama hátt er verslunar- og viðskiptastarfsemi bönnuð á þessum dögum en fjölmargar undantekningar eru á því banni.

Það skal fúslega viðurkennt að löggjöfin um helgidagafrið hefur mýkst töluvert á síðastu árum og er það vel. Engu að síður þá er það gjörsamlega óþolandi að á 21. öldinni skuli almenningur hérlendis vera beittur þvingunum af hálfu ríkisins í nafni trúarbragða, sama hvað nafni þau nefnast. Við eigum einfaldlega að vera komin það langt í þróuninni að það komi ríkinu ekki við hvaða trúarskoðanir fólk hefur.

Það heyrist oft að þetta sé í lagi sökum þess hversu saklausar takmarkanirnar eru. Þessu ber að hafna. Ekkert breytir nefnilega þeirri bláköldu staðreynd að í eðli sínu þá er um að ræða þvinganir ríkisvaldsins í nafni trúarbragða. Sama hversu þungbærar eða léttvægar slíkar þvinganir eru þá mega þær aldrei líðast. Þvinganirnar í lögum um helgidagafrið eru nefnilega í eðli sínu sambærilegar við t.d. þvinganir öfgastjórna í múhameðstrúarlöndum þegar konur verða að vera með blæjur eða banna sjónvörp í nafni trúarinnar. Á aðgerðum íslenska ríkisins og t.d. klerkastjórnarinnar í Íran er stigsmunur en ekki eðlismunur þrátt fyrir að aðgerðir hinna síðarnefndu hafi að sjálfsögðu verið miklu þungbærari.

Einnig verður, enn og aftur, að minnast á þá staðreynd að trúfrelsi ríkir hér á landi skv. 62 gr. og 63. gr. stjórnarskár. Þrátt fyrir hina evangelísku lúthersku þjóðkirku þá verður það að teljast alveg stórfurðulegt að þvinga helgidögum hennar, með þessum hætti, ofan í kok á öllum hérlendis, burt séð frá trúar- og lífsskoðunum þeirra. Það þjónar nákvæmlega engum vitrænum tilgangi.

Hverjum væri ekki sama þótt trúleysingar, múslímar eða einhverjir aðrir myndu hafa banka opinn á föstudaginn langa eða krá á páskadag? Undirritaður upplifir alla vega ekki þessa daga þannig að þjóðin beinlínis liggi á bæn sem megi ekki trufla heldur frekar að hún sé að reyna að eiga góða stund með fjölskyldu og vinum. Enn á ný vakna því upp spurningar um hvort þeir sem viðhalda svona þvingunum upplifi íslenskan veruleika á sama hátt og hinn almenni borgari.

Það er jafnframt furðulegt að þessi boð og bönn í nafni trúarinnar skuli vera það sem einna helst minnir okkur á ríkistrúna hér á landi ásamt náttúrulega mikilli ósanngirni í garð samkynhneigðra. Þessi atriði sýna svo ekki verður um villst að mikil þörf er á því að endurskoða stöðu þjóðkirkunnar hér á landi þar sem þessi aðalsmerki hennar eiga lítið skylt við umburðarlyndið og kærleikann sem lagt var af stað með í upphafi.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.