Hátækniiðnaður hefst í grunnskólanum

Kostirnir við iðnað byggðan á þekkingu landsmanna, frekar en hagstæðri dreifingu náttúrauðlinda, hljóta að vera hverjum manni augljósir. Þekking er ótakmörkuð auðlind, sem eykst við notkun, og öflun hennar er eitt mest fullnægjandi starf sem fyrirfinnst.

Svo virðist sem í ríkisstjórn Íslands sé skilningur smám saman að að vakna á því að hátækniiðnaður geti verið valkostur við stóriðju og fiskveiðar. Á nýafstöðnu iðnþingi ræddi Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, um nauðsyn þess að auðvelda nýsköpunarfyrirtækum fyrstu skrefin [1] og Ingvar Kristinsson, formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, kynnti hugmyndir um upplýsingatækni sem „þriðju stoð“ íslensks efnahagslífs. Þessum tímabæru pistlum voru góð skil gerð í fjölmiðlum. Ekki fór jafnhátt grein sem birtist í nýjasta hefti Tímarits um stærðfræði og raunvísindi (Raust)[2], en pappírsútgáfa þess kom úr prentun fyrir páska. Greinin fjallar um leiðir til þess að bæta stærð- og náttúrufræðikennslu í grunnskólum. Aðgerða á þeim vettvangi er síst minni þörf en í fjármögnun sprotafyrirtækja, ef gera á hátækniiðnað að raunverulegum valkosti til frambúðar fyrir íslenskt samfélag.

Kostirnir við iðnað byggðan á þekkingu landsmanna, frekar en hagstæðri dreifingu náttúrauðlinda, hljóta að vera hverjum manni augljósir. Þekking er ótakmörkuð auðlind, sem eykst við notkun, og öflun hennar er eitt mest fullnægjandi starf sem fyrirfinnst. Höfundur greinarinnar í Raust, Ari Ólafsson dósent í tilraunaeðlisfræði við Háskóla Íslands, bendir hins vegar réttilega á að kennsla í undirstöðugreinum hátækniiðnaðar, þ.e. stærð- og náttúrufræði, í grunnskólum landsins hefur lengi verið í slæmum vítahring. Til kennslu í grunnskólum veljast fáir af eðlis- og náttúrufræðibrautum framhaldsskólanna og aðsókn að raungreinakjörsviðum kennaramenntunar því lítil. Kennurum er hins vegar ætlað að sinna öllum námsgreinum grunnskólans á yngri skólastigum og því hætta á að óöryggi kennara í meðferð hugtaka og fyrirbæra í raunvísindum smiti út frá sér í kennslunni. Greinarnar fái þannig ranglega á sig orð fyrir að vera erfiðar og jafnvel leiðinlegar. Til höfuðs vítahringnum leggur Ari einfalda lausn, sem byggð er á reynslu annarra þjóða. Hugmyndina nefnir hann Tilraunahús.

Tilraunahús er aðlögun fyrirbæris sem margir Íslendingar hafa kynnst, undir heitinu Exploratorium, í San Fransisco, og Experimentarium, í Kaupmannahöfn, en með sérstakri áherslu á stuðning við grunnskólakennara. Í tilraunahúsinu yrði rekið vísindasafn eins og í fyrirmyndunum, þar sem gestir læra með því að gera og áhersla er lögð á að gera vísindin ljóslifandi með hugvitsamlegum tilraunauppstillingum. Uppstillingarnar yrðu bæði aðgengilegar almenningi og skólabekkjum, sem fengju leiðbeiningar frá kennurum sínum, með fulltingi starfsmanna tilraunahússins. Annar, ekki veigaminni hluti, yrði endurmenntun kennara og stoðkerfi fyrir þá til þess að auðvelda uppbyggingu kennslunnar í skólunum. Að síðustu myndi starfsfólk tilraunahússins vera til ráðgjafar við útgáfu námsefnis og kaup kennslutækja auk þess að hýsa raunvísinda- og tækniklúbba barna og aðstoða við þáttöku í vísindakeppnum. Starfsemi tilraunahússins gerði kennurum mögulegt að umbylta kennsluháttum sínum svo stærri hópur vísinda- og tækniáhugamanna skilaði sér á endanum inn í kennaranámið.

Hátækniiðnaður verður ekki að veruleika á Íslandi nema tryggt sé nægt framboð af hæfu starfsfólki. Síðustu ár hafa útskrifast um 30 kandídatar með B.s. próf í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands á ári, en aðeins á bilinu 2-5 meistaranemar. Kandídatar með B.s. próf í eðlisfræði hafa verið ekki verið nema 3-9 á ári og meistaranemar 1-3[3]. Fróðlegt verður að fylgjast með þróuninni með tilkomu verkfræðikennslu við Tækniháskóla Íslands, en það er einlæg ósk mín að Háskóli Íslands taki áskoruninni og við uppskerum tvær öflugar verkfræðideildir á Íslandi. Ef hátækniiðnaður hér á landi á að eiga nokkra möguleika er það forgangsmál að fjölga fólki með þessa mikilvægu menntun.

Frekari fróðleikur:

[1] Ræða iðnaðarráðherra á iðnþingi

[2] Grein Ara Ólafssonar í Raust [3] Tölfræði um kandídata í verkfræði- og raunvísindadeildum H.Í.