Gervigreind

Umræða um gervigreind skýtur upp kollinum með reglulegu millibili og stundum í óvenjulegu samhengi. Sem dæmi má nefna fyrirlestur dr. Kristins R. Þórissonar í Klink og Bank síðastliðið sumar um gervigreind og gagnvirka listsköpun! En oftast virðist gervigreind fá athygli almennings þegar frumsýndar eru Hollywood myndir á borð við iRobot, Terminator N og Matrix.

Hugtakið gervigreind (e. artificial intelligence) var sennilega fyrst sett fram af John MacCarthy árið 1956. Hann stakk upp á að skilgreina fyrirbærið þannig: Gervigreind er það að vél hegði sér á þann veg að ef maður hegðaði sér á sama hátt teldist hann vera greindur. En til að þessi skilgreining hafi einhverja merkingu þarf að vera ljóst hvað það merkir að vera greindur. Þetta virðist raunar vera annmarkinn á flestum skilgreiningum á gervigreind, þær vísa á einn eða annan hátt til þeirra ótrúlega fjölbreytilegu eiginleika mannsins sem við köllum greind. Oft er gríðarlega mikil vinna lögð í að þróa gervigreind á mjög afmörkuðu sviði. Gott dæmi um þetta er til dæmis í skák. Þannig getur tölva unnið jafnvel stórmeistara í skák en ef hins vegar valið er eitthvert annað verk af handahófi sem hvert mannsbarn gæti leyst af hendi, er ekki víst að tölvan væri fær um það. Slík tölva myndi hins vegar uppfylla skilyrði skilgreiningarinnar hér að ofan því ef venjulegur maður myndi vinna stórmeistara í skák myndu sennilega flestir telja hann vera greindan.

Ekki verður fjallað frekar um skilgreiningar á gervigreind en hins vegar verður ekki látið hjá líða að minnast á Turing prófið. Árið 1950 birti Alan Turing grein þar sem lagt var til einfalt próf til að skera úr um hvort vél geti haldið uppi eðlilegum samræðum. Próf þetta á rætur sínar að rekja til samkvæmisleikjar sem allir þekkja: Karl og kona fara í sitthvort herbergið og gestirnir í samkvæminu reyna að skera úr um hvort þeirra er konan með því að senda þeim skriflegar spurningar og lesa út úr svörunum. Turing lagði til svipað fyrirkomulag. Dómari átti að eiga samræður við tvo aðila, annan mannlegan og hinn vél. Ef hann gæti ekki með óyggjandi hætti gert grein fyrir hvor er hvað teldist vélin greind. Þetta próf er sniðugt að því leyti að flestir geta verið sammála um að vél sem stenst það hljóti á einhvern hátt teljast greind . Hins vegar geta vélar talist greindar án þess að standast Turing prófið og dugar það því ekki til að skera raunverulega úr um hvort vél er greind eða ekki. Turing prófið hefur meðal annars verið kveikjan að fjölmörgum vélum sem hægt er að spjalla við (oft kölluð chatterbot eða chat robot). Einna þekktust þeirra er sennilega Alice en hana má finna á slóðinni www.alicebot.org.

Á hvíta tjaldinu birtist mönnum gervigreind oft í ansi ýktu formi. Í myndum á borð við þær sem nefndar voru hér í upphafi á mönnum að hafa tekist að smíða vélmenni sem geta líkt eftir mönnum nánast á allan hátt og reyndar staðið sig betur á flestum sviðum. Það getur verið gaman að velta fyrir sér hversu nálægt menn eru því takmarki að þróa vélmenni með fjölbreytta eiginleika. Í því samhengi má benda á gengi þátttakenda í DARPA Grand Challenge 2004 keppninni. Keppnin snýst um að smíða alsjálvirkt ómannað farartæki sem getur ferðast langa vegalengd án aðstoðar yfir fjölbreytilegt landslag. Í verðlaun voru 1 milljón dollara og er tilgangur keppninnar að örva þróun á sjálfvirkri tækni fyrir bandaríska herinn. Það er skemmst frá því að segja að öll 25 farartækin duttu úr keppni eftir aðeins örfáar mílur og flest þeirra á frekar háðulegan máta. Nú hefur verið boðið til nýrrar keppni í október 2005 og hafa verðlaunin hækkað í 2 milljónir dollara. Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvort eitthvert ökutækið kemst úr sporunum. Ef eitthvað er að marka úrslit síðasta árs þurfum við að minnsta kosti ekki að hafa miklar áhyggjur af því að vélmenni í dulargervi vöðvabúnta gangi um göturnar í náinni framtíð og hrelli saklausa vegfarendur með slæmum enskuframburð og skotgleði.

Fyrir þá sem vilja kynna sér gervigreind nánar er rétt að benda á að urmull af netsíðum er tileinkaður þessu heillandi viðfangsefni. Ágætur útgangspunktur er heimasíða The American Association for Artificial Intelligence,

www.aai.org.

Latest posts by Óskar Hafnfjörð Auðunsson (see all)