Páskahugvekja

“Á Valhúsahæðinni er verið að krossfesta mann”

„Það er enn verið að krossfesta mann. Það sjáum við og heyrum dögum oftar. Sannleikurinn er fótum troðinn og umburðalyndi á oft erfitt uppdráttar. Þar eru margir sekir og þeir margir sem líða undan ofbeldinu og miskunnarleysinu,“ segir Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson meðal annars í páskahugvekju á Deiglunni.

“Á Valhúsahæðinni er verið að krossfesta mann”

“Dag einn komu gestapó menn með ungan dreng til hengingar. Meira að segja SS mönnunum, sem þarna stóðu, þótti nóg um að það ætti að hengja þenna barnunga dreng frammi fyrir þúsundum áhorfenda í fangabúðunum sem voru neyddir til að fylgjast með. Einn af gyðingunum, Wiesel að nafni, sem þarna stóð minntist seinna þessa atburðar. Drengurinn var horaður og með stór döpur brún augu. Fyrir aftan Wiesel heyrðist hvíslandi rödd sem sagði: Hvar er Guð?

Það tók drenginn hálftíma að deyja og allan þann tíma urðu fangarnir að horfa á dauðastríð hans. Aftur heyrðist röddin spyrja í uppgjöf og sorg: Hvar er Guð núna? Og Wiesel heyrði rödd innra með sér sem svaraði: Hvar er Guð núna. Hann er þarna. Hann er þarna – í gálganum.”

(Frásaga K. Armstrong)

Minningar pólska gyðingsins og píanóleikarans, Wladyslaw Szpilman, sem komu á kvikmynd árið 2002 varpa skíru ljósi á grimdina og virðingarleysið sem óð uppi á þessum tíma í mannkynssöguni. Minningarnar eru svo yfirþyrmandi að manni verður um og ó og maður spyr sig í sífellu – hvernig gat þetta gerst? Hvað er það í manninum sem fær hann til að samþykkja og taka þátt í slíkum fólskuverkum. Ekki voru ofbeldismennirnir illa upp aldir eða hjartalausir gagnvart sínum nánustu. Hvar var samúðin, miskunnsemin og hæfileikinn til að setja sig í annarra spor?

Það eru ekki nema 60 ár síðan seinni heimstyrjöldinni lauk. Það er stöðugt umhugsunar og undrunarefni hvernig á því gat staðið að þetta gat gerst. Að þýska þjóðin, sem var menntuð og kristin og hafði fóstrað í gegnum aldirnar marga af fremstu hugsuðum mannkynsins, fór fram með þeim hætti sem sagan greinir.

Okkur finnst það undarleg pólitík sem gat komið þessu öllu til leiðar. En pólitík var það. Pólitík sem byggði á oflæti og ótta. Byggði á hugmyndakerfi fordóma og nauðhyggju. Ég er betri en þú. Mín þjóð er merkilegri en þín þjóð og minn kynþáttur stórum ágætari en aðrir. Minn guð er betri en þinn guð og mín menning og menntun betri en þín og þinna.

Það er enn verið að krossfesta mann. Það sjáum við og heyrum dögum oftar. Sannleikurinn er fótum troðinn og umburðalyndi á oft erfitt uppdráttar. Þar eru margir sekir og þeir margir sem líða undan ofbeldinu og miskunnarleysinu.

Í dag minnist kirkjan krossdauða Jesú frá Nazaret. Margt trúað fólk sér krossinn sem sigurtákn vegna þess að á krossinum hafi Guð almáttugur í hæstum hæðum fórnfært sínum eigin syni til þess að friðþægja fyrir syndir mannanna.

Föstudagurinn verður býsna langur ef ég reyni að brjóta heilan um þessa túlkun á dauða Jesú. Hún er heldur fjarlæg í tíma og rúmi. Hitt finnst mér nærtækara að líta á dauð Krists sem afleiðingu þess sem hann boðaði. Það sem hann kenndi ógnaði valdhöfum og gerði þá órólega. Jesús hafði samsamað sig með fólkinu á jaðrinum – þeim sem þjáðust og voru smánaðir. Hann var umburðalyndur og ekki dómharður gangvart þeim sem brutu af sér og Jesús boðaði Guð og guðsríki þar sem réttlæti, friður og virðing væri í öndvegi og hann sýndi okkur með fordæmi sínu að við eigum að leita friðar og fyrirgefa – einnig þeim sem gera á hlut okkar.

Það eru margar hörmungarnar sem benda má á og það fer ekki framhjá okkur að enn er verið að krossfesta mann bæði nær og fjær. En góðviljað fólk má ekki missa móðinn. Páskadagurinn á að minna okkur á að andi Jesú frá Nazaret lifir í öllu fólki sem leggur lífinu lið og vill efla frið og góðvild.

Þrátt fyrir allt og allt þá getum við , hvert og eitt , tekið þá afstöðu að efla það sem gott er og eykur við skilning, virðingu og fordómaleysi. Við eigum ekki að þegja heldur segja frá því að það er rétt og skyldugt að elska Guð með því að elska náungann – hver sem hann er og hvernig sem hann er. Þá líður föstudagurinn að kveldi og nýr dagur og nýtt upphaf hefst. En það er önnur saga og annar dagur.

Undiryrirsögn pistilsins er vísun í ljóð Steins Steinarrs.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)