Háskóli Vestfjarða – nei takk

Á undanförnum misserum hafa sumir Vestfirðingar haldið á lofti kröfu um að stofnaður verði sjálfstæður háskóli á Ísafirði. Út frá sjónarmiði háskólamenntunar í landinu er þetta hið versta mál.

Það má líkja fjármagni sem ríkisvaldið leggur til háskólakennslu við vatn sem dælt er í gegnum garðslöngu. Eftir því sem götum á slöngunni fjölgar þeim mun minni verður krafturinn.

Á undanförnum misserum hafa sumir Vestfirðingar haldið á lofti kröfu um að stofnaður verði sjálfstæður háskóli á Ísafirði. Við fyrstu sýn gæti það virðst sem hið besta mál og þá sérstaklega út frá byggðarsjónarmiði, en út frá sjónarmiði háskólamenntunar í landinu er þetta hið versta mál.

Það er leiðinlegt að þurfa að vera á móti svona máli sem fólk berst fyrir með bjartsýni í hjarta og heldur að sé lausn á sínum vandamálum. En einhver þarf að benda á þann punkt að það sem er óarðbært fyrir alla heildina getur aldrei verið lausn á neinu. Sami hópur og stendur á bak við hugmyndina um sjálfstæðan háskóla hefur nú stofnað háskólasetur á Vestfjörðum en fjarnámsvæðingunni á síðustu árum hefur fylgt mikil frjósemi sem hefur tvímælalaust styrkt samfélagið. Slíkt fyrirkomulag er það eina rétta fyrir fámenn landsvæði eins og Vestfirði.

Á undanförnum árum hefur verið mikil gróska í háskólamenntun á Íslandi. Nýir skólar á háskólastigi hafa bæst við, námsframboð hefur stóraukist og nemendum fjölgað mikið. Íslenskir skólar á háskólastigi eru nú 10 með samtals yfir 300 námsbrautir og um 8.900 virka (eða 14.000 skráða) nemendur. Útgjöld ríkisins vegna þessara skóla nema um 11 milljörðum króna á ári og árið 2003 voru þau 2,8% af af heildarútgjöldum hins opinbera en meðaltal á meðal OECD-ríkja er 2,9%. Þetta hlutfall hefur þó vaxið þar sem það var ekki nema 2,5% árið 2000. Þrátt fyrir þessa aukningu á útgjöldum ríkisins til háskólamenntunar er ekki hægt að sjá að það sé neitt svigrúm fyrir fleiri háskóla, heldur þarf að efla þá sem fyrir eru.

Auðvitað er samkeppni æskileg á háskólasviði eins og á öðrum sviðum. Samkeppni milli skóla eykur fjölbreytni í námi til hagsbóta fyrir bæði nemendur og kennara og hvetur stjórnendur og aðra starfsmenn skólanna til dáða. En fjármagn til háskólamenntunar er eðli málsins samkvæmt takmarkað og það þarf því að nýtast sem best. Ekki er skynsamlegt að dreifa fjármagni sem rennur til háskóla um of, íslenskir háskólar eru litlir í samanburði við erlenda skóla og hætt sé við að margir og smáir háskólar eigi erfitt um vik að fullnægja kröfum um kennslu og rannsóknir til jafns við háskóla í öðrum löndum .

Að sumu leyti hefur þróun háskólastigsins verið hraðari en stjórnvöld sáu fyrir og ýmis álitamál sprottið upp vegna fjölgunar skóla. Á íslandi búa innan við 300 þúsund manns og telja flestir 10 háskóla vera of mikið. Það má líkja fjármagni sem ríkisvaldið leggur til háskólakennslu við vatn sem dælt er í gegnum garðslöngu. Eftir því sem götum á slöngunni fjölgar þeim mun minni verður krafturinn – gæða- og árangursstjórnun versnar.

Í áætlunum Háskólaseturs Vestfjarða er gert ráð fyrir að eftir fimm ár verði 500 stúdentar við nám í Háskóla Vestfjarða. Slíkar hugmyndir verða að teljast nokkuð bjartar, en að sama skapi þá þarf hugstórt fólk að vera bjartsýnt. En gangi þessar áætlanir eftir má gera ráð fyrir að árlegur kostnaður, miðað við núverandi útgjöld hins opinbera, verði á bilinu 375-400 milljónir króna á ári. Og hvar á að stopa? Hvers vegna ekki háskóla fyrir austan, og á Suðurlandi. Það sjá allir hverslags eindæmis vitleysa þetta er.

Háskóli Vestfjarða er óskynsamlegur hvernig sem á málið er litið. Það er von mín að þessu ágæta fólki sem stendur á bak við Háskólasetur Vestfjarða takis að efla fjarkennslu og samvinnu við aðra háskóla, en beisli jafnframt hugmyndaflug sitt og bjartsýni á annan hátt sem nýtist öllum sem best.

Pistlahöfundur er mikill áhugamaður um Vestfirði og er sérstakur fylgismaður vestfirskra gilda. En jafnframt vill hann veg háskólamenntunar á Íslandi sem mestan og finnst það vera algjörlega óásættanlegt að henni sé fórnað fyrir sérhagsmuni.

– Tölulegar upplýsingar eru fengnar úr skýrslu Ríkisendurskoðunar; Háskólamenntun. Námsframboð og nemendafjöldi – Júlí 2004.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.