Einum vitleysingi meira

Í gær fjölgaði Íslendingum um einn þegar Alþingi veitti Bobby Fischer íslenskan ríkisborgararétt. Nú verður spennandi að sjá hve vel honum Bobby gangi að aðlagast íslenskri menningu, læra tungumálið og skila sínu framlagi til samneyslunnar.


Bobby Fischer: Hey Eugene, what’s the difference between a good Jew and a bad Jew?

Eugene Torre: Yeah. What’s the difference between a good Jew and bad Jew?

Bobby Fischer: The good Jew fucks you slower.

Já, þjóðin getur svo sannarlega verið stolt af nýjasta Íslendingnum, Robba Fischer. Robbi karlinn getur reyndar ekki opnað á sér kjaftinn án þess að minnast á eitthvað málefnalegt eins og „Those goddamned Jews are stealing all my money. Fuck them!“ en við fyrirgefum Robba karlinum það nú alveg. Hann er jú, svo andskoti klikkaður.

Enda var Alþingi nú ekki að koma karlinum til bjargar. Umræðurnarnar voru slegnar inn og út á uppboðstempói, fyrsta, önnur og þriðja og allir voru voða sammála. Nú er bara að vona að karlinn geti komið til Íslands sem fyrst, og það hefur jafnvel heyrst að kærastan hans ætlaði að koma með. Vonandi að hún sé orðin 24 ára.

Ég er líklegast af þeirri kynslóð sem skilur ekki alveg hvers vegna þessi ríkisborgararéttur sé svona góð hugmynd. Ég óttast óneitanlega nokkra hluti. Ég óttast það til dæmis að Fischer fái miðopnuviðtöl í DV á mánaðarfresti eins og þar væri á ferð maður sem hefði frá einhverju vitrænu að segja. Engar sómasamlegar vestrænar fréttastofur taka viðtöl við mann sem fagnar árásunum 11. september, því „nú hafi gyðingarnir loksins fengið að finna fyrir því.“ Ég óttast það líka að íslenska utanríkisþjónustan muni þurfa að standa í endalausu stappi og skjótast með Sæma Rokk á einkaþotu til að draga Fischer út úr skítnum hér og þar.

Ég skil að einhverjum þyki Fischer hafi komið Íslandi á kortið, vilja gjalda honum greiðan og um leið fá sínar 15 mínútur í heimspressunni. Sjálfur er mér eiginlega nokk sama, ég hefði eflaust setið miskunnarlaust hjá eins og framsóknarparið, væri ég á þingi. Ég óttast bara frekari upphafningu á persónu Fischers og ég óttast þá ranghugmynd manna um að hér hafi lítil þjóð gert einhvern ótrúlegan hlut á alþjóðavettvangi.

Menn þurfa nefnilega að hafa verulega „valhaltan“ þankagang til að líkja þessum atburði við það þegar Ísland viðurkenndi fyrst þjóða sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Sú ákvörðun var viðurkenning á lýðræðisþrá milljóna manna í þremur ólíkum ríkjum. Ákvörðunin í gær var hins vegar vinagreiði við skeggjaðan vitfirring.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.