Ríkisútvarp er tímaskekkja

Ráðning nýs fréttastjóra á fréttastofu Ríkisútvarpsins í vikunni og viðbrögð við henni hafa sýnt glögglega fram á hversu óheppilegt það er að ríkisvaldið standi í rekstri fjölmiðla, svo ekki sé talað um fréttastofu.

Ráðning nýs fréttastjóra á fréttastofu Ríkisútvarpsins í vikunni og viðbrögð við henni hafa sýnt glögglega fram á hversu óheppilegt það er að ríkisvaldið standi í rekstri fjölmiðla, svo ekki sé talað um fréttastofu. Meðmæli útvarpsráðs bjóða heim ásökunum um pólitíska íhlutun í starf fréttastofunnar, enda liggur í augum uppi að nefndin er pólitísk.

Rekstur ríkisstofnanna eru á ábyrgð pólitískra fulltrúa og því er vandséð hvernig hægt er að sneiða hjá því að pólitísk sjónarmið komi til álita við slíka ráðningu. Það er hins vegar misskilningur að ætla sem svo að pólitísk sjónarmið feli nauðsynlega í sér vilja til þess að sveigja starf ríkisútvarpsins til þess að þjóna flokkspólitískum hagsmunum. Það getur líka verið pólitískur vilji til þess að efla faglegan grundvöll stofnunarinnar sem ræður för þegar pólitískir fulltrúar taka ákvörðun um hvert stofnunin skuli stefna. Það er framhleypni að álykta sem svo að flokkspólitískir hagsmunir ráði alltaf öllu um ákvarðanir útvarpsráðs og það er ósanngjarnt að ætla nýráðnum fréttastjóra að hafa sótt um starfið í því skyni að þjóna hagsmunum Framsóknarflokksins fremur en að leggja sig fram um að bæta starf fréttastofunnar.

Hægt er að velta vöngum fram og til baka um hvað búi að baki ákvörðunum manna en hugarlestur er þó hæpinn grundvöllur í pólitískri umræðu. Staðreyndin er hins vegar sú að á meðan ríkið á og rekur fjölmiðla er full ástæða til að hafa áhyggjur af misnotkun þeirra miðla.

Þótt gagnrýna megi starfsmenn ríkisútvarpsins fyrir sumt í þeirra viðbrögðum við ráðningunni má ætla að flestir þeirra hafi fyrst og fremst viljað taka varðstöðu gegn hugsanlegri misnotkun miðilsins. Eðililegt er að gera þá kröfu til hinnar pólitísku forystu RÚV að hún geri grein fyrir forsendum ráðninga en menn verða þó að sætta sig við það að valdið liggur ekki hjá starfsmönnunum heldur yfirmönnum.

En hér erum við enn komin að vandmeðfarinni hlið á málinu. Það sem starfsmönnum finnst vera mistnotkun kann stjórnendum að þykja boðlegt – og það sem stjórnendum finnst vera óboðlegt kann starfsmönnum að finnast eðlilegt. Vandinn er sá að í rekstri fyrirtækis eða stofnunar þarf að vera til endanlegt ákvörðunarvald.

Í einkareknum fyirrtækjum liggur endanlegt ákvörðunarvald hjá eigendum og taki þeir rangar ákvarðanir er þeim refsað af neytendum. Í tilviki ríkisrekins fyrirtækis er þessi ábyrgð móðukenndari. Kjósendur geta vitanlega refsað stjórnvöldum en á milli þess sem kosið er þarf vald til endanlegra ákvarðana að liggja einhvers staðar. Svo virðist sem starfsmenn Ríkisútvarpsins vilji að það vald liggi hjá þeim sjálfum og að til séu einhvers konar mælikvarðar um fagleg vinnubrögð sem ætíð eigi að fara eftir við ráðningu á starfsmönnum og yfirmönnum. Þetta er sjónarmið sem ritstjórn Deiglunnar getur ekki fallist á. Í fyrsta lagi er ekki hægt að útbúa óskeikulan mælikvarða á hæfni og í öðru lagi er sjálfsstjórn ríkisstarfsmanna ekki ábyrg stefna gagnvart skattgreiðendum.

Margvísleg sjónarmið geta legið að baki ákvörðun um ráðning nýrra yfirmanna. Stundum er heppilegt að hækka einhvern starfsmannanna í tign en oft telja stjórnendur eða eigendur mikilvægara að nýta tækifærið til þess að hleypa nýjum straumum að rekstrinum.

En þar sem ríkisútvarpið er í eigu ríkisins og fjármagnað af nauðungargjöldum gilda önnur lögmál en í einkafyrirtækjum og því býður það heim þeirri hættu að ákvörðunarvaldilð sé notað í þágu einhvers annars en stofnunarinnar, áhorfenda eða markaðarins. Framhjá þessu er ekki hægt að líta og því er hin eðlilegasta ályktun sem draga má í kjölfarið á látunum í kringum ráðningu nýs fréttastjória sú að endurskoða eigi hvort ríkisvaldið eigi yfir höfuð að standa í rekstri fjölmiðla. Það er löngu orðið tímabært að ríkisvaldið dragi sig út af þeim samkeppnismarkaði eins og gert hefur verið víðar í atvinnulífinu með góðum árangri.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)