MacDonald þríforkurinn

Til að finna misnotuð börn hafa verið búnar til ýmsar aðferðir til sigta þau út eða finna svokölluð “rauð flögg” í hegðunarmynstri þeirra sem benda til þess að eitthvað gæti verið að í þeirra nánasta umhverfi. Macdonald þríforkurinn er ein þeirra aðferða.

Börn eru oft misnotuð eða beitt harðræði. Getur ill meðferð á þeim skaðað þau fyrir lífstíð og því mikilvægt að gera gripið sem fyrst inn í atburðarrásina til að stöðva hina skaðvænlegu háttsemi. Til að finna slík börn hafa verið búnar til ýmsar aðferðir til sigta þau út eða finna svokölluð “rauð flögg” í hegðunarmynstri þeirra sem benda til þess að eitthvað gæti verið að í þeirra nánasta umhverfi. Macdonald þríforkurinn er ein þeirra aðferða

Macdonald þríforkurinn gengur út á þrjú “rauð flögg” í hegðunarmynstri barna sem gefa vísbendingar um að barn sé í vandræðum í sínu nánasta umhverfi. Gefa flöggin einnig vísbendingar um að verði ekkert gert í málinu þá geti barn orðið verulega ofbeldishneygt þegar það kemst til vits og ára. Rétt er að taka fram að það er alls ekki sjálfgefið að ástæða hegðunarinnar sé misnotkun heldur getur hún átt sér eðlilegar skýringar. Á sama hátt er ekki sjálfgefið að barn sem stundi slíka hegðun verði ofbeldishneygt þegar það eldist. Hins vegar hefur verið sýnt fram á að því fleiri “rauð flögg” sem barn hefur í hegðunarmynstri sínu úr þríforknum því líklegra er að eitthvað verulegt ami að.

“Rauði flöggin” þrjú eru pyntingar á dýrum, það að væta rúmið síendurtekið og ástríða fyrir eldi.

Dýrapyntingar

Pyntingar á dýrum getur verið allt frá vítaverðri vanrækslu til kaldrifjaðar slátrunar. Með vítaverðri vanrækslu er átt við að vísvitandi neita dýri um mat, vatn eða skjól en slátrun þegar dýrið er pyntað til dauða. Eru slíkar pyntingar á dýrum í barnæsku mjög skýr vísbending um hugsanlega ofbeldisfulla hegðum þegar viðkomandi kemst til vits og ára.

Bandaríski sálfræðingurinn Elana Gill lýsti því í riti sínu Children and animals: A clinican´s view hvernig börn sem séu beitt kynferðislegu eða líkamlegu harðræði virðast herma eftir misnotkuninni á gæludýrum sínum. Í sumum tilfellum tók hún eftir því að dýrapyntingar tengdust hugmyndum um dauða og sjálfsmorð. Á bls. 21-22 kemur eftirfarandi lýsing:

I learned this from Miriam, a six-year-old who had been abused sexually. When I asked her to make a picture of herself, she drew a bleeding dog and herself in heaven. Miriam drawing revealed the depth of her despair. Her mother later informed me that Miriam had recently begun slapping and choking her dog and had injured him with scissors.

Virðast börn láta af dýrapyntingum þegar þau nálgast fullorðinsaldur en, eins og áður segir, þá er þetta bara upphafið á ofbeldisferlinum hjá sumum þeirra.

Væta rúmið

Það gífurlega áfall sem börn verða fyrir þegar þau eru beitt kynferðislegu, líkamlegu eða tilfinningalegu harðræði getur valdið því að þau væta rúmið síendurtekið.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að 80% þeirra sem væta rúmið gera það vegna ýmissa líffræðilegra ástæðna. Hins vegar þá á “rauða flaggið” við hin 20% sem hugsanleg aðvörun um eitthvað mun alvarlegra.

Á sama hátt og með dýrapyntingarnar þá hætta börn þessu þegar þau nálgast fullorðinsaldurinn. Almennt er talið að þessi þáttur skipti afskaplega litlu máli einn og sér. En þegar þetta “rauða flagg” dúkkar upp ásamt öðru hvoru hinna þá eru miklar líkur á e-u óeðlilegu.

Ástríða fyrir eldi

Til er mjög athyglisverður gamall málsháttur sem fyrirfinnst í Þýskalandi, Spáni og Mexíkó. Hann hljóðar svo í lauslegri þýðingu:

Sá sem kveikir elda á daginn, mun væta rúm sitt um nóttina.

Sum börn sýna óeðlilegan áhuga á eldi. Þau fylgjast með eldsvoðum, leika sér mikið með eld eða safna munum tengdum eldi og eldsvoðum. Þessi börn eru einnig líklegri en önnur til að tilkynna eldsvoða án þess að hann sé til staðar.

Fjölmargar rannsóknir sem hafa verið gerðar á brennuvörgum á barnsaldri sýna að yfingnæfandi líkur eru á því að viðkomandi börn séu vanrækt heima fyrir, beitt ofbeldi eða einhver konar annarri misnotkun. Hefur þessi ástríða á eldi annars vegar verið skýrð þannig að verið sé að reyna að færa eigin þjáningar yfir á umhverfið en hins vegar að verið sé að kalla eftir hjálp. Fara þessar tvær skýringar saman.

Ljóst er að flestir sem hafa slíka ástríða láta af henni þegar nær dregur fullorðinsaldrinum. Sumir finna sér uppbyggilegra hegðunarmynstur en aðrir nýjar leiðir til að valda þjáningu.

Eins og áður segir þá er Macdonald þríforkurinn ekki algildur. Það er ekki sjálfgefið að börn sem sýni “rauð flögg” í hegðunarmynstri sínu séu misnotuð. Flöggin skv. honum eru hins vegar skýr aðvörunarmerki til foreldra og þjóðfélagsins um að eitthvað verulega mikið gæti verið að hjá barni.

Horfum í kringum okkur.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.