Forræðishyggja stéttarfélaganna

Verslunarmannafélag Reykjavíkur er orðið það stórt að það er í vandræðum með hvað á að gera við alla peninga sem félagsmenn greiða inn. Til að ráðstafa þessum fjármunum leggja forsvarsmenn VR til að stofnaður verði sérstakur varasjóður þar sem hver og einn félagsmaður á séreign.

Verslunarmannafélag Reykjavíkur er orðið það stórt að það er í vandræðum með hvað á að gera við alla peninga sem félagsmenn greiða inn. Í samtali við Morgunblaðið á laugardaginn segir Gunnar Páll Pálson, formaður VR, frá því að félagið hafi verið rekið með 660 milljóna króna hagnaði í fyrra. Til að ráðstafa þessum fjármunum leggja forsvarsmenn VR til að stofnaður verði sérstakur varasjóður þar sem hver og einn félagsmaður á séreign. Lagt er til að um 1.100 milljónir verði stofnfjárhæð sjóðsins og að 350-400 milljónir renni í hann árlega.

Maður myndi ætla að megintilgangur stéttarfélags sé ekki að vera rekið með hagnaði, frekar en hjá öðrum hagsmunafélögum Þetta viðurkennir Gunnar Páll og segir það ekki tilgang félagins að safna digrum sjóðum. Það að hagnaður VR í fyrra hafi verið jafnmikill og raun ber vitni hlýtur því að vera merki um að félagsmenn séu látnir greiða allt of mikið til félagsins. Nærtækast hefði því verið hjá forsvarsmönnum VR að lækka félagsgjöld. Það ákváðu þeir ekki að gera heldur fara þeir leið sem segir hinum almenna félagsmanni að stjórnendur treysti þeim ekki til að fara skynsamlega með peningana sína. Skýrt dæmi um fyrsta flokks forræðishyggju.

Gunnar viðurkennir þó að það hafi hvarflað að VR að lækka félagsgjöld en hann teldi að menn myndi ekki muna sérstaklega um þá peninga. Hvernig Gunnar kemst að þessari niðurstöðu er með öllu óskiljanlegt. Af hverju munar fólk minna um peninginn þegar það fær hann beint en þegar það fær hann í gegnum VR? Er ástæðan sú að hann telur að fólk muni eyða honum í einhverja vitleysu mánaðarlega í stað þess að leggja hann fyrir og geyma til mögru áranna? Allavega telur hann að VR sé skynsamara en hinn almenni félagsmaður og vill því að hið félagið ávaxti þessa peninga í stað félagsmannsins.

Eða er ástæðan kannski sú að með því að lækka félagsgjöldin þá myndi ráðstöfunarfé VR lækka allverulega? Einhvern veginn þarf að ávaxta allt þetta fé og það er ljóst að á ekki mörgum árum færum sjóðurinn í nokkra milljarða. Fyrir slíka fjármuni má ná miklum völdum í íslensku atvinnulífi og hægt væri að kaupa stjórnarsæti í nánast hvaða almenningshlutafélagi sem er.

Það er ljóst að félagsmenn í VR hafa verið að greiða of mikið til félagsins undanfarið. Það hljóta því að vera mikil vonbrigði fyrir félagsmenn að þeim sé ekki treyst til að ráðstafa sínum peningum sjálfir. Þessi tilhneiging stéttarfélaga að hugsa fyrir félagsmenn er kominn miklu lengra en hollt má telja. Vonandi munu einhverjir félagsmanna VR rísa upp og standa uppi í hárinu á forsvarsmönnum félagsins. Það er allavega kominn tími til að stéttarfélögin setji hagsmuni félagsmanna í stað stéttarfélagsins á oddinn og hlusti á hinn almenna og algjörlega valdalausa félagsmann.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)