Enska með enska

Blaðamannafélag Íslands sýndi fram á stéttvísi sína í gær þegar stjórn félagsins lýsti yfir stuðningi við baráttu íþróttafréttamanna gegn því að útlenskir þulir lýsi útlenskum íþróttakappleikjum í íslensku sjónvarpi.

Mörgum varð bylt við þegar þeir fréttu af hinni miklu og einlægu ást íslenskra íþróttafréttamanna á íslenskri tungu. Eflaust hefur mörgum verið hugsað til orða Guðrúnar Ósvífursdóttur: „Þeim var ég verst er ég unni mest,“ í kjölfar þess að íþróttafréttamenn hófu ötulla baráttu gegn því að fótboltaleikir á Skjá einum yrðu sendir út án þátttöku þeirra.

Blaðamannafélagið tekur undir kröfur starfsbræðra sinna í íþróttunum á þeirri forsendu að það sé „sjálfsögð krafa“ að íslenskt tali fylgi útsendingum í íslensku sjónvarpi. Þeir reyndar nefndu einnig hina raunverulegu ásætðu fyrir mótmælunum í ályktun sinni frá því í gær. Sú er að hugsanlega sé störfum fjölda félaga í BÍ stefnt í óvissu ef samþykkt verður að breyta lögum á þann veg sem fimmtán þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja og skyldu til þýðingar á erlendu efni verður aflétt.

Flestir þekkja vafalaust forsögu þessa máls. Skjár einn keypti sýningarréttinn af enska boltanum og ákvað að senda suma leikina út án þess að íslenskir þulir lýstu því sem fyrir augu bæri. Flestir Íslendingar eru ágætlega mæltir á ensku og skilja málið vel. Ein ástæða þess er sú að hér á landi hefur ekki tíðkast að talsetja erlent sjónvarpsefni. Lengi vel var jafnvel barnaefni sýnt á ensku.

Þetta er mikil blessun. Víða í Evrópu er enskukunnátta íbúanna í algjörum molum. Þetta er í þeim löndum þar sem sjónvarpsefni og kvikmyndir eru talsettar. Það er einnig ófrávíkjanleg regla að þar sem talsetning hefur fest sig í sessi er næstum ómögulegt að hætta talsetningunni þar sem stéttarfélög leikara standa svo dyggilega vörð um tungumálið og þann sjálfsagða rétt að sjónvarpsefni sé á tungumáli innfæddra.

Skjár einn býður upp á tiltekna vöru í sjónvarpi sem enginn er tilneyddur til þess að neyta – og Skjár einn er ekki heldur tilneyddur til þess að bjóða upp á annað sjónvarpsefni en stjórnendur félagsins telja sér hag í að gera. Sé sú ákvörðun að sýna suma leiki án íslenskra þula gerir Skjá einum kleift að sýna fleiri leiki en ella. Líklegt er að harðir aðdáendur ensku knattspyrnunnar vilji fremur sjá fleiri leiki en færri jafnvel þótt sumir þeirra séu ekki með íslenskum þulum.

Íslenskir íþróttafréttamenn eru margir hverjir mjög góðir. Umfjöllun sumra dagblaðanna er mjög öflug, íþróttafréttir í sjónvarpi eru prýðilegar og hér á landi hefur meira að segja tekist að gera frábæran útvarpsþátt um íþróttir þar sem var þátturinn „Mín skoðun“ með Valtý Birni. Íslenskum íþróttafréttamönnum stendur ekki ógn af enskum þulum. Íslenskum blaðamönnum sem fjalla um viðskipti dettur ekki í hug að vilja láta banna sölu íslenskra bókabúða á Financial Times eða The Economist – jafnvel þótt hvorugt blaðanna sé gefið út á íslensku.

Verndun þröngra stéttarhagmuna – eins og þeirra sem felast í því að þröngva íslenskum þulum upp á útlenskar íþróttalýsingar – bitnar alltaf á neytendum. Með því að fella úr gildi reglur um íslenska þuli er líklegt að framboð a erlendu íþróttaefni stóraukist. Með slíku auknu framboði er líklegt að spurn eftir íþróttafréttum í ljósvakamiðlum og á dagblöðum aukist einnig. Það er því alls ekki sjálfgefið að það sé í þágu hagsmuna íþróttafréttamanna að reisa múra í kringum framboð á erlendu íþróttaefni i íslensku sjónvarpi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.