Trúarflóra og fleira

Í vikunni hafa umræður um trúfrelsi farið hátt, en aðstandendur Siðmenntar halda því fram að á Íslandi ríki ekki raunverulegt trúfrelsi. Þetta er svo sem enginn nýr sannleikur. Erum við í stakk búin til að takast á við trúarflóru þess fjölmenningarsamfélags sem hér mun óumflýjanlega verða?

Í vikunni hafa farið hátt umræður um trúfrelsi, en aðstandendur Siðmenntar halda því fram að á Íslandi ríki ekki raunverulegt trúfrelsi, og segja að í skólum landsins sé ekki um trúarbragðafræðslu að ræða heldur trúboð. Leggja samtökin jafnframt til niðurfellingu 62. greinar stjórnarskrárinnar um tengsl ríkis og kirkju og að fjárhagsleg mismunun trúfélaga verði stöðvuð.

Þetta er svo sem enginn nýr sannleikur. Enn og aftur er undirstrikað hvað við eigum augljóslega langt í land, og erum engan veginn í stakk búin til að takast á við þá trúarflóru sem mun skapast í því fjölmenningarsamfélagi sem hér mun óumflýjanlega verða. Það er ekki seinna vænna að fara að hlú að þekkingarheimi þeirra sem koma til með að fullorðnast inn í fjölmenningarlegra umhverfi en nokkur önnur kynslóð hefur fyrr gert á Íslandi. Það hlýtur að teljast mjög brýnt verkefni að áhersla á trúarbragðafræðslu verði aukin til muna og þá ekki hugsuð sem viðbót við kristinfræðikennslu heldur hreinlega að hún komi í stað hennar. Enda er fáránleg mismunun í því fólgin að börn annarra trúarbragða séu skyldug til að sitja undir þeim fræðum, og í raun algjör vanvirðing.

Þó þetta sé fyrsta skrefið er að mörgu öðru að huga. Ef við reynum að gera okkur í hugarlund farsælt fjölmenningarsamfélag, sem er langt frá því að vera jafn útópísk hugmynd og mörgum sjálfsagt finnst, þá er ljóst að grundvöllur þess er að það þarf að geta skapast trúarbragðaumræða. Að trúfélög séu jafnrétthá, og að tilvist þeirra og gildi séu viðurkennd og virt. Eins og lagaumhverfið er í dag er klárlega ekki boðið upp á þetta.

Í lögum um trúfélög á Íslandi er síðan að finna lagaákvæði um það að einstaklingur geti aðeins verið skráður í eitt trúfélag. Vegna eðlis þeirrar trúar sem þjóðkirkja Íslands hýsir, sem aðeins leyfir einn guð, og líklega vegna fátæklegrar trúarlegrar flóru á Íslandi hefur engum dottið í hug að fólk hafi yfir höfuð áhuga á því.

Ef hægt væri, er nefnilega líklegt að margir myndu kjósa sér það enda eru flest trúarbrögð utan þríburanna kristni, Islam og gyðingdóms opin fyrir þeim trúarblöndum sem geta verið til að hámarka fjölbreytilegt og ánægjulegt trúarlíf hvers einstaklings. Í Japan tilheyra t.d. flestir í 2 trúfélögum, shinto-isma og búddisma, og margir 3-4 trúfélögum. Aðeins er um 1% japana kristnir. Gott ef að slíkt fyrirkomulag myndi ekki bara styrkja þjóðkirkjuna, enda sjálfsagt marga sem langar að leita á náðir annarra trúarbragða en þykir vænt um kirkjuna sem þeir ólust upp í. Þeir eiga þá þann einan kostinn að segja sig úr henni. Það er nefnilega vel hægt að vera t.d. kristinn og búddisti í senn. Fara þá til kirkju en sinna íhugun í búddisma. Félagar ólíkra trúarbragða gætu þannig jafnvel fundist og orðið trúfélagar, t.d. í búddisma.

Með þessu væri einmitt hægt að uppskera grundvöll til trúarbragðaumræðna, þ.e. að samskipti yrðu á milli trúarbragðanna. Þau gætu þannig auðgað hvert annað og jafnframt styrkt innri strúktúr fjölmenningarlegs samfélags.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.